englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

föstudagur, júlí 01, 2005

Duran

Jú jú ég fór á tónleika í gær. Auðvitað var mikill fiðringur í mér en hann var ekki síður vegna stemningarinnar. Allt þetta fólk. Hvar hefur það eiginlega verið öll þessi ár? Eins og við var að búast rakst ég á gamlan kærasta, hann hafði vaxið upp úr hárinu og bætt á sig bumbu - æ eins og hann var nú sætur einu sinni. Well...

Ég hélt til að byrja með að félagsskapur minn á þessum tónleikum væri kannski ekki mjög glamúr, tvær óléttar konur. En þegar á staðin kom sá ég að það var hinn mesti misskilningur. Það var meira af óléttum konum en fólki í grímubúningi (þá er ég að tala um föt viðeigandi tímabils) Óskaplega ánægð með að vera með tvær glamúrskvísur í farteskinu, svona til að vega upp á móti glamúrleysi mínu skunduðum við inn í salinn - reyndar ekki fyrr en búið var að pissa óléttupissi.

Við vorum ekki á A svæði og sáum því ekki mikið, en það var allt í lagi. Ég lokaði bara augunum og dansaði og söng eins og ég ætti lífið að leysa. Svo hoppaði ég upp annað slagið og sagði þessum óléttu hvaða föt Simon var kominn í það skiptið.

Auðvitað var alveg svakalega gaman. Ég meina en ekki hvað? Þeir tóku öll lögin og allt eins og það átti að vera. Reyndar hefði mér þótt allt í lagi að hafa tjöld á veggjunum, fyrir þessa sem ekkert sáu - hefði bjargað mjög miklu. Kannski næst, því þeir lofuðu að koma fljótlega aftur.

Það verður þó seint sagt að söngvarinn geðþekki hann Simon LeBon sé í hágæðaflokki sem slíkur.