englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, júní 20, 2005

Breytingar

Hef stundum velt því fyrir mér hvort ég þjáist að einhverskonar framkvæmdarkvíða. Ég get verið voðalega stund að koma mér að því að gera hluti sem taka svo óskaplega stutta stund í framkvæmd. Svona eins og með að hringja í Halldóru í bankanum. Ég hef stundum dregið það von úr viti að bjalla í hana, eða kíkja til hennar, svona til að fara yfir stöðuna og endurskipuleggja fjármálin. Svo loksins þegar ég læt verða að því, segir hún: einn, tveir og bingó. Og málið er dautt.

Ég er búin að vera að daðra við hlaupahóp sem hleypur út frá Vesturbæjarlauginni. Ég hef aðeins sprett úr spori með þeim og tekið þátt í einu hlaupi í þeirra nafni. Ég var ekki alveg að finna mig, fannst ekki alveg vera nógu mikið stuð og ef satt skal segja, þá vantaði stelpur. Það voru þó tveir menn sem héldu hópnum saman og voru duglegir að hvetja fólk að mæta á æfingar.
Glöggir taka væntanlega eftir því að ég skrifa síðustu setningu í þátíð. Jú, mikil ósköp. Í síðustu viku kom kveðjubréf frá þeim, þar sem þeir tilkynntu að þeir væru farnir að hlaupa með öðrum hópi.

Þá fór ég að velta fyrir tryggð og einhverju ámóta fyrirbæri. Ég var búin að velta því fyrir mér að hafa samband við annan hlaupahóp og ath hvort ekki væri vit fyrir mig að mæta þar til leiks. En einhverra hluta vegna fannst mér ég ekki geta svikið þessa "hlaupafélaga mína" og setti hinn hópinn því á bið og hljóp frekar ein.

Já, svona er maður skrítinn.

Fór nýja leið í dag, amk að hluta til. Fann að brekkurnar í sveitinni hafa skilað sínu. Ég var spræk og er að bæta mig. Þó er ég ekki enn búin að fjárfesta í klukku, þannig að ég nota meira svona tilfinninguna á tímann. En hraðinn og krafturinn er augljóslega að aukast. Hugsa að ég fari bara að setja mig í samband við þessa ágætu konu sem mér var bent á að tala við.

Fékk annað bréf um daginn og það var frá Halldóru í bankanum.

Stoð mín og stytta undanfarin ár. Ég man enn eftir þegar hún afgreiddi mig í fyrsta skipti. Hún var sko ekki eins og hún Gréta, forveri hennar. Halldóra skildi mig ekki og ég var svo viðkvæm að ég fór að gráta. Að grenja í banka er eitthvað voðalega off... sérílagi ef það er bara vegna stöðu í tíðarhring. Ég vildi bara frá Grétu aftur, en það var ekki hægt.

Við vorum hins vegar fljótar að "finna hvor aðra" og í öllu þessu bankabrölti, hefur hún verið eina ástæðan fyrir því að ég hef haldið tryggð við Landsbankann.

En svo bregðast krosstré sem önnur. Halldóra sendi mér kveðjubréf þar sem hún tilkynnti mér að hún væri að hætta sem þjónustufulltrúinn minn. Svo sendi hún mér mynd af nýja þjónustufulltrúanum mínum, henni Láru. Ég veit það ekki, þá má svosem vel vera að hún Lára sé besta skinn, en hún jafnast nú örugglega ekki á við hana Halldóru mína. Ætli ég verði ekki að kíkja í kaffi til hennar og sjá hvað hún segir.

Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið öryggislaus og veit ekki alveg hvað ég á að gera...hvað ef hún er bara leiðinleg og nennir ekkert að slúðra?