englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, júní 19, 2005

Gaman

Snilldarhelgi hreint út sagt. Við Silla brunuðum út úr bænum með börnin og tjölduðum á Flúðum. Það er ekki oft á Íslandi sem hægt er að spranga um á bikiní, en það var sko hægt á Flúðum. Við upplifðum okkur örítið utangátta þar sem við vorum ekki með fellihýsi og ekki tjaldvagn, heldur 35 ára gamallt appelsínugult tjald frá Seglagerðinni...en sáum fljótlega að það var bara töff.

Ég ákvað að nota tækifærið og hlaupa um í sveitinni. Það er eitthvað alveg sérstakt við að hlaupa um á sveitavegum, horfa á náttúruna og hlusta á fuglana, í stað þess að hlaupa á þartilgerðum vegum í bænum. Ég upplifði mig pínulítið eins og smaladreng - ekki mikið - bara smá. Var nefninlega ekki í gúmístígvélum.

Gullfoss og Geysir teknir með stæl og mjög nákvæm úttekt gerð á verslunum þessara staða. Vinningurinn fer án nokkurs efa til Gullfossbúðarinnar, þar sem seldar voru peysur úr "blönduðu efni" með myndum af hestum og kindum og lundum. (Ein dýrategund á hverri peysu) Kostar aðeins 12.900 krónur. Sama og gefið.

Eitthvað virðast rassarnir vera litlir þarna í sveitinni. Klósettseturnar pössuðu enganveginn fyrir mig. Ég hef fram að þessu ekki talið að ég væri með stóran afturenda, en verð líklegast að endurskoða hugmynd mína um þessi mál. Kannski sveitastaðlar séu eitthvað frábrugnir borgarsöðlum? Auðvitað er líklegt að rassarnir séu ekki eins stórir á Flúðum og annarsstaðar á landinu, þar sem mikið af grænmeti er framleitt þar og fólk líklegt til að borða slatta af því (auðvitað á kostnað hins óholla)

Talandi um óhollt. Klúðruðum Útlagaferð. Hef einu sinni farið á þann "ágæta" bar, fyrir nokkrum árum og verð að viðurkenna að fyrir manneskju sem finnst leiðinlegt að fara út á lífið án þess að dansa, þá höfðaði Útlaginn ekki beint til mín. Þá er nú Áslákur betri. Við stöllur áttum því nokkuð auðvelt með að halda í okkur, fengum okkar kikk úr því að hanga í sjoppunni og fylgjast með unglingum staðarins stíga sín fyrstu spor í drykkju og daðri. Merkileg sjón.

Svo byrjaði að rigna...og rigna...og rigna...

Þetta var frekar hressandi, en það get ég sagt þar sem ég þarf ekki að tjalda ferlíkinu aftur til að þurrka það. Við höfum það nefninlega ekki eins gott og maðurinn sem hrýtur eins og risa traktor, hann og frúin eru nefninlega með svo fínan bílskúr að þau bara tjalda tjaldvagninum þar, þegar heim er komið, og láta hann þorna. Lítið mál.