englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, júní 08, 2005

Stjórnun

Ég er í nokkur ár búin að eiga í samskiptum við manneskju sem er vön að fá sínu fram. Samskipti okkar hafa gengið svona upp og ofan, en þó aðallega vel. Við höfum það mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta að við reynum að halda okkur á mottunni.
Þegar ég segi að þessi manneskja sé vön að fá sínu fram, þá meina ég það sem ég segi. Auðvitað getur hún ekki stýrt veðri og vindum en öllu öðru reynir hún að stýra í sína átt.

Þegar það kemur fyrir að við erum ekki sammála, þá fer oft mikil leiðinleg og neikvæð orka út í buskann. Ég verð þreytt og pirruð og enda á því að gefast upp. Fyrir rest, en alls ekki strax. Þetta er svona svipað og með hárblásarann, snúran hættir ekki að vera flækt og ef ég vil halda áfram að þurrka á mér hárið verð ég hreinlega að leysa flækjuna.
Þegar við erum ósammála um eitthvað og ég harðákveðin í að gefast ekki upp í þetta skiptið, láta ekki undan minni sannfæringu, segir hún: "Tala við þig um þetta seinna" "Ræðum þetta á morgun" "Sjáum til" osfrv osfrv...

Þetta er stjórnunartæki sem ég veit að er notað á mig og algjörlega án míns samþykkis. Ég verð alveg óskaplega pirruð og reið og langar mest til að öskra, bíta og slá..en það eru þessir sameiginlegu hagsmunir sem koma í veg fyrir að ég geri það - og það veit hún!

Þess í stað fer ég í heitt bað og hlúi að því sem skiptir máli.