Kassar
Maður er ekki maður með mönnum nema maður hafi markmiðssetninguna á hreinu. Mikilvægt er að vita hvert maður stefnir í lífinu almennt en einnig í litlu verkefnunum. Hvað ætlar þú að fá út úr náminu? Hverju stefnir þú að í hlaupunum? Hvað heldur þú að þessi strákur hafi að gefa þér? Hvað ætlar þú að eiga marga peninga í bankanum eftir 5 ár? En 10? Ertu nógu markviss í tengslanetamyndun? Ætlar þú í pólitík? Hvað hvernig hversvegna hver og hvert?
Stundum finnst mér þetta gott og stundum ekki. Auðvitað er gott að vera markviss í því sem maður gerir. En það grípur mig stundum alveg óstjórnleg hræðsla við kassa. Ég þrífst ekki í boxum. Ég man eftir því að hafa undrast markvissar áætlanir vinkvenna minna um brúðkaup og barneignir. Ég man reyndar bara eftir einu tilviki þar sem ég hugsaði "jú, mig langar til að giftast" En annars fannst mér venjulega bara kjánalegt að láta sig dreyma um eitthvað svona.
Hvað er svo málið með að læra ensku og bókmenntafræði? Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ekki hefði verið ágætt að hugsa aðeins inn í kassann og velt því upp hvað ég ætlaði að gera að lokinni BA gráðu? Ekki bara: "ohh ég ætla bara að gera það sem mér finnst gaman, ég gæti dáið á morgun"
Kannski var bara gott að ég gerði þetta? Ég held það reyndar.
Ég held að þessi leið sem ég fór, hvort sem hún var valin meðvituð eða var farin algjörlega af tilviljun, hafi gert mig af þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég held að þessi lífsleið sem ég fór, hafi gert mig - kannski á löngum tíma - tilbúna til að setja mér markmið.
Kannski var ég í hræðslu minni við kassana, föst í mínu eigin boxi. Dauðhrædd við það sem var fyrir utan?
<< Home