Nöfn og nafnavitleysa
Eins og svo margir aðrir fórum við mæðginin í sund í sólinni í dag. Mér finnst voðalega gott að fara í sund, en lendi alltaf í smá krísu þegar við förum tvö saman í sund. Málið er að ég nenni ekki að leika. Nei, það er ekki alveg rétt. Ég nenni alveg að leika. Mér finnst gaman að kafa og standa á höndum og láta mig fljóta og svona. Mér finnst ekki gaman að slást, hvorki við son minn, né vatnaskrímsli og ófreskjur.
Í dag var ég heppin. Þegar var búin að láta leka úr mér í pottinum og var komin í laugina, til að fara að slást, tilkynnti Sverrir mér að hann hefði fundið vin vinar síns. Ég sá að þeir náðu ágætlega saman og sagðist vera farin í pottinn aftur. Þar lá ég í klukkutíma.
Þegar komið var að heimferðarstund, kvöddust vinirnir nýju innilega.
Jóda: Var gaman hjá ykkur?
Sverrir: Jahá, alveg ótrúlega gaman. Ég náði að kynnast honum mjög vel.
Jóda: Já, hvað heitir hann?
Sverrir: uuu...ég náði því ekki alveg...
Nöfn skipta ekki alltaf máli, amk ekki fyrir sambýlismanninn ljúfa. Það tók hann til dæmis nokkrar vikur að muna hvað fyrsta kærastan hans hét. Gleymdi alltaf að spyrja hana.
<< Home