englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, júní 14, 2005

Ég eins og ég er eða hvað?

Ég hef áður varað lesendur mína við að lesa ekki of mikið í orð mín. Þó frásagnir og orðræður séu í fyrstu persónu, er ekki þar með sagt að þær séu komnar beint frá mér sem persónu..ég meina "ég-ið" í orðunum er ekki endilega Jóda sjálf.
Langi sleði heldur að ég og sápuópera þurfum mann með stór eyru, góða sál og vöxt.

Ég get auðvitað ekki svarað fyrir sápuóperuna, en hvað mig varðar, þá er í mér lítið gen sem hægt væri að kalla skáldagen. Ég elska að segja frá. Stundum tek ég stein og bý til fjall úr honum. Stundum tek ég hins vegar fjall og bý til sand. Svo er ég stundum með stein og segi frá honum.
Ef ég les eitthvað út úr fólki, skynja tilfinningu eða eitthvað í þá áttina, gæti ég búið til sögu sem er sögð í fyrstu persónu. Ég gæti sagt frá blæðandi hjarta, en það þarf ekki að vera að mitt hjarta blæði. Ég gæti fjallað um leit, en verið sjálf með góða yfirsýn yfir allt mitt stöff. Ég gæti sagt frá ástinni en verið sjálf afhuga henni. Vissulega tala ég stundum beint frá hjartanu, en ekki alltaf. Ýkjur auka skilning...eins og einhversstaðar er skrifað.

Mér hefur alltaf fundist það vera það skemmtilega við skáldskap. Maður tekur eitthvað úr sínu lífi, sínu umhverfi eða umhverfi annarra og spinnur í kringum það.


Ég er því miður ekki nógu sterk og þroskuð manneskja til að geta sagt allt sem ég hugsa og haft kommentakerfi. Og við nánari umhugsun hef ég ekki þörf til að tjá mig um það hvernig ég er í raun og veru. Hvað persónuleg mál varðar, hugsa ég að ég segi bara frá þeim hlutum sem ég veit fyrirfram að ég get tekið neikvæðri gagnrýni um...jákvæð gagnrýni er svo auðmelt að ekkert mál er að taki við henni hvenær sem er.

Ég vona að lesendur séu mér sammála þegar ég segi að tilgangurinn helgi meðalið - þar sem tilgangurinn er að skrifa orð sem kannski verða lesin og þeirra notið...eða ekki. Og meðalið þá frásagnir í fyrstu persónu eintölu, sem ekki eru allar frásagnir af Jódu og hennar raunverulega sjálfi.