englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, júní 12, 2005

Sjáðu

Ef þú hefðir áhuga á að vita hvernig mér líður í hjartanu, þá myndi ég segja þér það. Ég myndi segja þér hvað mig dreymir þegar ég horfi á bjartan himininn - ég myndi líka segja þér hvað mig dreymir þegar ég ligg undir sænginni.
Ef þú hefðir áhuga á að vita að mig langar til að ferðast til framandi landa og hlúa að fólkinu, þá myndi ég segja þér það. Ég myndi segja þér að mig langaði til að vinna að hagsmunum fátækra en að friðurinn í sálinni minni kæmi þegar þú ert hjá mér.
Ég myndi segja þér að ég þoli ekki silfurskottur en elska fiðrildi. Ef þú myndir spyrja hvernig ég sæi framtíðina, myndi ég segja þér að leyndi draumurinn minn væri að við næðum að stilla strengi okkar saman og spila sama lag. Ég myndi segja þér að mér finnst ostar góðir en samt ekki geitaostur. Ég myndi segja þér að mig langar til að læra að dansa og sé enn eftir því að hafa ekki farið í ballet þegar ég var lítil. Ég myndi segja þér að mig langar til að geta flogið og galdrað.
Ef þú hefðir áhuga á að vita hvernig ég er inní mér, myndi ég reyna að sýna þér það. Ég myndi sýna þér rjóman en líka mysuna og gullið og grjótið...

En þú hefur víst ekki áhuga