englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

laugardagur, júní 11, 2005

Er þetta búið hjá okkur?

Það eru margar spaugilegar hliðar á okkur íslendingum. Við erum sérlunduð þjóð og förum okkar eigin leiðir. Eða höfum gert það hingað til. Ég hef glott út í annað yfir nýjungagirni okkar og þvermóðsku osfrv.

Af einu hef ég hins vegar alltaf verið mjög stolt yfir og það er stéttaskiptingarleysið hér. Auðvitað er skipting (og á svo sannarlega eftir að ræða hana betur seinna) en þó svo að gunna eigi meiri peninga en jón, þá er hún ekkert merkilegri fyrir vikið.
Þó svo að Davíð Oddson hafi sett heimsmet (miðað við höfðatölu) í setu í forsætisráðherrastól, þá verslar hann í sömu Bónus búð og ég.
Þó svo að Ólafur Ragnar Grímsson hafi búið til fyrsta barnið (verður útskýrt seinna) þá fer hann samt á Árbæjarsafnið til að horfa á Brúðuleikhús.

Hins vegar, kannski með aukinni stéttarskiptingu - ég skal ekki segja - hefur þetta viðhorf breyst.

það er allt að verða vitlaust á Íslandi vegna "ýmsa sögusagna" um dvöl Beckham hjónanna á landinu. Svo ég vitni í málgagnið "Í leit Fréttablaðsins að David Beckham vakti athygli að flest hótel sem haft var samband við fóru í mikla vörn og vildu ekkert tjá sig um málið. Urðu nokkur fyrirtæki ansi íbyggin og þykir það benda til að eitthvað búi undir"

Enn vitna ég í Fréttablaðið: Margir vilja þó meina að sagan um komu Beckhams sé aðeins til að hylma yfir komu ennþá frægara fólks. Hverjar stjörnurnar eru skal þó ósagt látið"

Svo er fólk að velta því fyrir sér hvort samband Tom Cruse og hennar þarna hvað hún nú heitir sé auglýsingabrella!!!

En ef þetta er allt plat og David og Viktoría eru bara einhversstaðar annarsstaðar, þá þurfum við ekki endilega að gefa upp alla von: "...er ljóst að eitthvert frægt fólk muni gista á Hótel Búðum um helgina þó starfmenn hótelsins hafi verið ófáanlegir til að gefa upp nöfn þeirra"

Allt samfélagið virðist vera að velta þessu fyrir sér en "staðfestu" fregnirnar virðast vera eins áreiðanlega og sannanir um tilvist geimvera.

Ég velti því fyrir mér hvort við séum alveg að tapa okkur?

Er bara miklu skemmtilegra að hlaupa upp á fjöll og eltast við álfa og tröll?