englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, júní 13, 2005

Sundbækur

Var í sundi um daginn. Sá konu sem var að lesa í bók í pottinum. Þessi kona vakti athygli mína, þar sem hún var jú í fyrsta lagi með bók í sundi, en einnig leit hún út fyrir að koma beint frá Biblíubeltinu. Nokkuð amerísk í útliti, stórgerð...nei tölvert feit...með einhverskonar prince valiant klippingu og RISASTÓR gleraugu í svörtum sundbol. Mér datt strax í hug að hún væri að lesa einhverskonar trúarlegan texta. Hugsaði með mér að hún væri kannski Votti...

Bókin virtist ekki alveg halda athyglinni hennar, ég sá hana aldrei fletta og hún var alveg í blábyrjun bókarinnar. Þess í stað hallaði hún bókinni að sér og fylgdist með mannlífinu í lauginni. Ég virtist hafa meiri áhyggjur en hún af því að bókin var ekki vatnsheld. Þegar ég fór í laugina var hún búin að leggja bókina frá sér og horfði nú bara á fólkið.

Eftir að hafa buslað örlítið í lauginni var komið að því að hita sig upp í pottinum að nýju. Enn situr konan í pottinum, nú búin að sækja bókina aftur en hafði ekki náð að opna hana. Þess í stað situr hún með hana og snýr framhliðinni út í pottinn svo titill hennar blasir við öllum sem vilja sjá og skilja ensku: Map for lost lovers

Ég veit ekki, en mér leið eins og ég væri í faldri myndavél...