Örlagafléttur
Ég hef svo lengi sem ég man trúað því að flest í lífinu hafi tilgang. Fólk sem ég kynnist, hlutir sem gerast og bækur sem ég les og svo mætti lengi telja, koma þegar upp er staðið (eða niður lagst) til með að mynda eina skiljanlega heild.
Ég er leitandi. Ég leitast eftir því að verða betri manneskja. Finna frið og ró í sálinni. Hið fullkomna æskilega jafnvægi vogarinnar. Endatakmarkinu er engin leið að ná, amk ekki í þessu lífi. Ég hins vegar set mér minni markmið og stundum á ég litla sigra og næ þeim markmiðum.
Ég trúi á guð. Ég les ekki eina bók og segi að það séu mín trúarbrögð. Ég trúi á æðri mátt. Þessi máttur er í mér og þér. Ég trúi því að mér sé sýndur vegur, eða leið sem ég get farið og þar muni ég finna tilgang minn og jafnvægi. Það bara undir mér að opna augun og sjá.
Í síðustu viku var ég leidd á fund konu sem ég tel að komi til með að hafa áhrif á líf mitt. Þegar ég tók í hendina á henni og horfði í augu hennar fann ég frið í hjartanu. Eftir að hafa hlustað á hana og fylgst með henni fann ég hvernig ég snéri við á hliðarveginum sem ég hef verið á um stund og komst aftur á rétta slóð. Þeirri manneskju sem varð þess valdandi að ég fór á þennan fund, kann ég miklar þakkir og vona að ég geti goldið í líku - þó síðar verði.
<< Home