englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, júní 26, 2005

Gamall maður frá Reykjavík

Ég keyrði mann heim til sín um daginn. Guðjón býr í þjónustuíbúð í Laugardalnum og húkkaði far hjá mér í vesturbænum. Hann hafði fengið sér göngutúr út á lager Vinnuskólans og borðað svo mikið af köku þar, að hann missti af vagninum. Það er það eina sem hann gerir, að ganga. Guðjón gengur vestur í bæ, stundum í Elliðaárdalnum og svo er það að sjálfsögðu Laugardalurinn.
Ég er pínulítið montin af Laugardalnum, og fæ seint leið á að dásama fegurð hans. Guðjón samsinnti mér og sagði að Laugardalurinn væri fullkominn, fyrir utan eitt sem mætti vel laga: Það mætti skjóta nokkrar gæsir þar. Ég hugsaði með mér að ég þekkti líklegast nokkra sem væru til í að taka það verkefni að sér.

Guðjóni finnst eins og fólk gangi ekki eins mikið og það gerði áður fyrr. Að minnst kosti á þeim tíma sem hann er að ganga, svona á morgnanna. Ég spurði hann hvort hann vaknaði eldsnemma á morgnanna, eins og algengt er með fólk á hans aldri. En hann sagði að það væri nú ekki vandamálið hjá honum. Hans vandamál snýst um að sofna á kvöldin. Hann sofnar yfirleitt ekki fyrr en klukkan 5 á morgnanna og sefur alveg til hálf níu.

Ég hugsaði nú með mér að það væri naumast hvað hann svæfi langt frameftir, greinilega algjört letiblóð.

Þegar hann var ungur átti hann heima þar sem núna eru krossgötur Miklubrautar og Háaleitisbrautar, þar sem bílskúrarnir standa. Það var svona smábýli, með geitum og hænsnum. Þar sem Suðurlandsbraut og Kringlumýrarbraut skerast var stærra býli. Það var mikill sóðaskapur þar og runnu hlandtaumarnir frá býlinu niður í læk sem var þarna.

Hann er fæddur og uppalinn í Reykjavík, en konan hans er hins vegar að vestan. Hann segir alltaf við hana að það sé ekki hægt að búa með henni heilan vetur í bænum án þess að fara með hana í eina ferð vestur um sumarið. Hann segir þetta við hana í góðlátlegu gríni, en leggur samt áherslu á að maður komist ekki hjá uppruna sínum. Þrátt fyrir að ég segi við hann að ég sé ekki lengur Dalvíkingur í hjartanu, er hann ekki alveg sannfærður.

Kannski hefur hann rétt fyrir sér.

Þegar heim var komið bað hann mig um að koma með sér, það væri svolítið sem hann þurfti að sýna mér. Við gengum örlítið frá bílastæðinu - en svo staðnæmist hann við grasblett sem hafði fengið að vaxa og dafna í allt of langan tíma. Guðjón segir mér að þetta tilheyri ekki þeirra lóð og hvort ég gæti fengið einhvern frá borginni til að slá þetta?

Til að gera gamlan mann glaðan og vinna vinnuna mína, gekk ég í málið og skellti geitum úr Húsdýragarðinum á blettinn.