englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, júní 21, 2005

Af salernisferðum

Þrátt fyrir að oft sé litið á hlaupara sem undarlegt afsprengi mannskepnunnar, þá þurfa þeir að losa sig við lífrænan úrgang eins og aðrar manneskjur. Stundum getur þetta verið til vandræða
Ég hef sem betur fer ekki mikla reynslu af þessum málum, en viðurkenni þó að hafa eitt sinn þakkað kærlega fyrir sundlaug Seltjarnarness og þá salernisaðstöðu sem þeir hafa uppá að bjóða.

Síðasta klukkutímann fyrir hlaup pissa ég amk 5 sinnum. Ég var að ræða þetta við félaga minn um daginn og barst talið að maraþonhlaupum í útlöndum, þar sem margir margir margir eru að keppa. Ef maður er kominn á góðan stað við rásmarkið, er maður ekkert að skokka í burtu ef þörf er á að kasta vatni. Sú leið sem farin er er eftirfarandi: setjast á hækjur sér (amk ef maður er kvenkyns, veit ekki alveg hvernig strákarnir gera þetta) draga klofbótina á stuttbuxunum til hliðar (svona eins og maður gerði í sundi í gamla daga) og pissa. Þegar því er lokið er klofbótinni sleppt og rétt úr fótleggjum.

Ég frétti af myndbandsbroti. Því miður hef ég ekki séð þetta myndbrot, en það er af manni sem er að taka þátt í maraþon hlaupi. Honum varð brátt í brók en ákvað að gefa sér ekki tíma til að hlaupa bak við skúr eða inn á næstu bensínstöð, þess í stað skellti hann hendinni ofan í buxurnar og greip kaupa og skellti honum út í kant.

Svo ég haldi mig við þetta málefni, þá finnst mér merkilegt hvað salernisvenjur eru mismunandi hjá fólki. Ég á eina yndislega vinkonu sem á það til að segja við mann "komdu með mér að kúka" Aðrir vilja fá að vera í friði við þessi verk. Ég hef aldrei skilið hvernig fólk getur setið á klósettinu og lesið blöðin og jafnvel heilu bækurnar.

Sonur minn er ekki á sama máli og ég.

Þegar hann gerir sér ferð á klósettið er eins og hann sé að fara í tveggja daga ferð út á land. Græjan er tekinn inn, diskur við hæfi er valinn, Legoblöð eða eitthvað álíka vel valinn (2-3 stk). Stundum fá einhverjir kallar að fljóta með. Svo er hurðinni lokað.
Í góðri ferð getur hann dvalið þarna inni í allt að 30 - 45 mínútur.

Um daginn hélt ég að hann væri að lesa 1001 nótt, svo langan tíma tók ferðin. Það er búið að ala mig svo vel upp að ég fer ekki inn nema á mig sé kallað. Þetta er heilög stund Sverris með sjálfum sér. Þess í stað sat ég í stofunni og velti fyrir mér hvort hann ætlaði að setja persónulegt met í klósettsetu. Þá heyri ég allt í einu stunið "loksins"... ekki þörf á að grípa hann með lófanum á þeim bænum.

Já, ekki er öll vitleysan eins...