englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

laugardagur, júlí 02, 2005

Rottur

Sverrir og félagar urðu mjög æstir um daginn. Þeir fundu rottu úti á götu. Hún var alveg sprelllifandi og æst mjög. Hún hljóp fram og til baka og þeir á eftir. Ég dreif mig út til að sjá gripinn og varð satt best að segja ekki um sel. Þvílík hlussu rottu lufsa. Ég hljóp með piltunum og rottunni í stutta stund en fékk fljótt leið á þessum leik og hélt inn. Þar sem ég stend í dyragættinni og geri mig líklega til að ganga inn, reka drengirnir upp mikið öskur. Rottan hafði farið niður ræsi. Risastóra hlussurottan tróð sér á milli þröngrar ristarinnar.

Skilst að þær fletji sig út til að komast þarna inn á milli.

Nokkrum dögum síðar sá ég tvær stelpur vera að brasa eitthvað við holræsishlemm í Laugardalnum. Þetta greip athygli mína. Mér hefur alltaf fundist eitthvað spennandi við holræsin og það sem þau hafa að geyma (í ævintýrunum ekki raunveruleikanum). Mér fannst ekki síður athyglisvert að þarna voru tvær ungar stelpur á ferð og enginn strákur sjáanlegur.

Ég gekk til þeirra. Þær voru að binda kerti í kaðal. Voða fínt kerti, bleikt og var eins og það væru kaffibaunir í því. Þær sögðu mér að þær væru að eitra fyrir rottum. Þetta bleika kerti væri eitur sem rotturnar ætu og dræpust í kjölfarið.

Ég sagði þeim frá rottunni á Ásvallagötunni. Hvað hún hefði verið stór og hvað hún hefði farið í gegnum mjóa rist. Við vorum sammála um að rottur væru ekki sætar, með allt of löng skott.

Þegar ég geng í burtu kallar önnur þeirra til mín:

- Við erum búnar að eitra á Ásvallagötunni. Þetta er allt í lagi, hún er örugglega dauð!!!