Hvernig stendur á því að fólk sem maður hélt að væri svo almennilegt og tillitsamt endar svo með því að vera taktlausir sjálfselsku púkar?
Þetta er alveg ferlega pirrandi.
Eftir svakalega lærdómstörn í gær ákvað ég að verðlauna mig með ferð í Laugardalinn. Ekkert svona nesti og nýjir skór, bara sömu gömlu skórnir en reyndar nýtt bikiní.
Já, ég fór semsagt í sund.
Ég var búin að sitja við í tæpa sjö tíma og var komin með tak í hálsinn og bakið var stífara en brosið hjá Halldóri Ásgríms. Og hausinn maður, hann var alveg að bræða úr sér.
Það eina sem ég þráði var liggja í heitum potti og góna út í loftið, án þess að tala við nokkurn mann og hugsa alls ekki neitt.
Steinapotturinn í Laugardalslauginni er ágætur fyrir einmitt þetta. Þar er ekki nauðsynlegt að sitja beinn í baki upp við vegg, til að maður drukkni ekki. Þar myndast líka oft samræður sem gaman getur verið að hlusta á. Allt öðru vísi en pólitískar umræður Vesturbæjarpottanna. Steinapotts samræður eru t.d. um stelpur og stráka.
Hvort stelpur eigi að skila gjöfum sem strákar hafa gefið þeim á meðan allt leikur í lyndi, eftir að allt er hætt að leika í lyndi? Hvort stelpur geri það almennt?
Hvort strákar séu skotnir í stelpum vegna brjóstanna eða einhvers annars?
Hvað sé best að bíða lengi með að sofa saman?
Ég gæti haldið endalaust áfram að segja ykkur frá því hvað fólk er að tala um í pottinum, en ég ætla að geyma það og segja ykkur frá vandræðagangi gærdagsins.
Eftir fína sturtu (mín er nefninlega ægilega léleg) rölti ég í pottinn. Þar var frekar margt um manninn en þó eitthvað af lausum plássum. Ég spottaði út nokkuð gott pláss og kom mér þangað.
Þegar ég er sest, tek ég fljótlega eftir því að gamall séns er í pottinum. Ekki bara í pottinum, heldur tveimur sætum frá mér. Alveg óþæginlega nálægt.
Þetta er mjög góður strákur og hef ég ekkert upp á hann að klaga, nema þá helst að hann sé kannski of góður.
Ohh, ég nennti ekki að fara að spjalla við hann. Þannig að þegar losnaði annað gott pláss, fleygði mér á það. Kom mér vel fyrir..nei hvur andsk. núna horfði ég beint á hann!! OK þó ég hafi ætlað að slappa af, er ekki víst að ég nenni að hafa augun lokuð í hálftíma og hvernig á ég að komast upp úr pottinum með lokuð augun????
Lá þarna í nokkrar mínútur með lokuð augun á milli þess sem ég horfði stíft á tærnar á mér. Þetta gengur ekki svona! Jæja, losnar ekki ágætis pláss. Ég af stað.
Þessi staður var í raun mjög fínn. Eini gallinn við hann var að þar sem ég sat horfði sénsinn gamli á mig í prófíl, sem þýðir að ég (til að sleppa við að horfa til hans) þurfti að horfa þráðbeint fram eða mjög stíft til hinnar hliðarinnar.
Þessi aflsöppunarferð í pottinn var ekki alveg að gera sig. Til að gefa honum tækifæri á að sýna tillitsemi og fara upp úr pottinum, ákvað ég að fara í gufu.
Fín gufuferð. Til að launa honum tillitsemina (sem hann var að fara að sýna mér) ákvað ég að vera svolítið lengi í gufunni. Þannig hafði hann tækifæri til að svamla pínulítið um í pottinum og slapp við að þurfa að spretta upp úr honum áður en ég kæmi til baka.
Eftir að hafa misst uþb 7kg af vatni í gufunni, hugsaði ég með mér að þetta væri næg tillitsemi við mann sem ... jahh förum ekki nánar út í það hér... og labbaði í átt að pottinum. Ég hlakkaði mikið til að geta setið og gónt út í loftið, í allar áttir ef mér sýndist svo og jafnvel væri plássið, sem sénsinn hafði setið á, laust - því það er reyndar besta sætið í pottinum.
Til að vera alveg örugg fór ég inn, eins og ég væri að fara í sturtu og laumaðist til að kíkja út um gluggann, til að skanna pottinn.
Viti menn! Situr ekki þessi frekja ennþá á sama stað og sýndi ekki á sér neitt fararsnið!!!
Ég gafst upp og fór í sturtu, enn stífari í hálsi og baki en fyrir sundferð og hafði svo sannarlega ekki náð að hugsa "ekki neitt"