englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Varúð

Við þau ykkar sem hafið sagt í gegnum tíðina að þið ætlið sko ekki að gera svona og svona, eins og mamma og/eða pabbi, hef ég bara eitt að segja:þið ráðið engu um það!! Það bara gerist.

Mér hefur oft á tíðum þótt mamma mín vera frekar frammískækin. Þ.e. að hún skipuleggi langt, langt fram í tímann og hef ég ósjaldan gert grín að henni vegna þessa.

Núna lítur út fyrir að fjölskyldan á Akureyri komi suður um jólin...

...og til að gera langa sögu stutta, þá er ég búin að sitja hér og hugsa hvernig fyllingu ég eigi að gera í hnetusteikina...hvernig var sósan aftur sem ég gerði í fyrra?.... Malt og appelsín...eða?
Á ég einhver föt sem gætu flokkast sem jólaföt? Ætti ég að fá lánaðan bedda? Kannski er best að ég sofi inni hjá Sverri? Ætli Sverrir geti gleymt hangikjötinu? Ætli sé rutt á milli Reykjavíkur og Keflavíkur á jólunum? osfrv osfrv

Auðvitað hlæ ég innra með mér af þessari vitleysu í mér. En það er þó eitt sem ég hef lært og það er að ástæðan fyrir því að ég læt svona er bara út af því að ég hlakka svo til að hafa þau hjá mér...
...og þar sem ég er svo ótrúlega lík móður minni, þá hlýtur það að vera sama ástæða fyrir því að hún spyr mig í janúar, hvort ég sé eitthvað farin að velta því fyrir mér hvar við verðum á jólunum...

mánudagur, nóvember 29, 2004

Stöð 2

Jæja, þá er ég búin að missa stöð 2 -
það er þá bara eitt til ráða...

úff

það sem ég nenni ekki að fara að lesa fyrir þessi próf
getur maður bímað sig fram í tímann?
kannski um svona 4 vikur?
einhver ráð?
anyone..

Vandamál í Úkraínu

Eins og flestir hafa tekið eftir þá er mikið um að vera í Úkraínu þessa dagana. Ásakanir um kosningasvik og ég veit ekki hvað og hvað. Mér sýnist á öllu að þetta séu tveir heimar sem takast á: “vonda” Rússland og hinn “góði, frábæri, æðislegi” vestræni heimur. Þessi heimur sem hefur búið til menn eins og Bush eldri og yngri og einhverja fleiri til. Jæja nóg um það.

Ég hef séð til fólksins í fréttunum með appelsínugulu borðana sína að mótmæla. Það bara mótmælir og mótmælir. Allan sólarhringinn. Þegar ég horfði á þetta, hugsaði ég með mér að þetta væri bara eiginlega alveg eins og Íslendingar að mótmæla kennaraverkfallinu.

Sverrir hefur ekki verið síður spenntur að fylgjast með þessu. Hann hefur setið límdur fyrir framan fréttirnar og reynt að sjá Rúslönu. En án árangurs. Maður veit náttúrulega ekkert í hvaða liði hún er.

Eitthvað var verið að tala um það í gær að Janúkóvits vilji fá að skipta landinu upp, ef hann tapi í þessum kosningum, því hann vill fá að ráða einhverju. Þær hugmyndir hafa ekki fengið góðar viðtökur og er það vel skiljanlegt.

Ég vona nú að þetta mál fái farsælan endi og það sem allra fyrst. Því ef þetta dregst á langinn þá getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, ekki bara fyrir Úkraínu heldur Evrópu alla. Hvað verður um Eurovision ef landinu verður skipt í tvennt?

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Jólatré

Þegar ég kom heim úr sundi áðan voru þessi skilaboð á msn-inu hjá mér:

Garún says:
hæ hæ
Garún says:
langar að varpa fram einni alveg voða fínni spurningu
Garún says:
á að fara og höggva sér jólatré fyrir þessi jól í einhverjum voða fínum dal??? (ólöf sagði mér frá því að þú hefðir einhvern tímann farið með VR??)
Garún says:
langar bara að gera eitthvað svoleiðis með MM þessi fyrstu jól okkar og kannski þú lumir á einhverjum svona upplýsingum
Garún says:
hihihi
Garún says:
heyri í þér við tækifæri og gangi þér nú voða vel að lesa og lesa og lesa og lesa
Garún says:
bæjó

Jú jú ég hef nefninlega farið í einhvern voða fínan dal til að höggva tré með syni mínum. Og það er sko saga að segja frá því. Ég man nú ekki alveg hvaða dalurinn heitir en hann er lengst, lengst inní Hvalfirði.

Við mæðginin lögðum af stað eldsnemma einhvern laugardagsmorguninn, í kolniða myrkri og grenjandi rigningu. Ég er nú ekki vön að keyra svona úti á landi, þannig að ég fór mér hægt en komst þó fyrir rest á áfangastað.
Það var enn mígandi rigning og eiginlega langt frá því að vera jólalegt en nóg var nú af trjánum til að höggva (eða saga). Þegar við stóðum upp úr bílnum sáum við að hálft landið hafði ákveðið að koma þennan morgun og finna sér tré. Fullt af rútum og enn fleiri bílar voru þarna á bílastæðinu.
Við létum það ekki á okkur fá og örkuðum af stað ásamt vinnufélögum mínum og börnum þeirra. Ég verandi þessi ofursamviskusama mamma, hafði klætt Sverri vel og vandlega en...gleymt mér..

Ég varð fljótlega rennandi blaut á því að troðast inn á milli trjánna, ekkert tré var nógu fallegt..við sverrir vorum kominn lengst í burtu frá öllum og ég hugsaði með mér að við myndum sjálfsagt aldrei rata aftur í til fólksins en snögglega hurfu þær áhyggjur á braut.

Við fundum fallegasta tré í heimi

Alveg eins og í öllum góðum ævintýrum stóð tréð eitt úti á miðju túni. Fallegt, alveg mátulega stórt og fura. Við söguðum tréð og eltum brauðmolana til baka.
Eftir að hafa staðið við varðeldinn og reynt að þurrka mig og borðað piparkökur ákváðum við að koma okkur í bæinn.

Ég var svo gegnblaut að ég hugsaði með mér að ef ég keyrði heim í þessum fötum, myndi ég enda með því að fá lungnabólgu. Þannig að ég fór út úlpunni og buxunum. Hugsaði með mér þegar ég var að fara út buxunum að það gæti nú orðið áhugavert ef ég yrði stoppuð af löggunni á peysunni og í fjólubláum g-streng.
En þegar ég ætlaði að keyra út af bílastæðinu, sem var ómalbikað, haggaðist ég ekki. Rigningin hafði breytt ómalbikuðu bílaplaninu í moldarsvað og eftir því sem ég reyndi frekar að losa mig, þeim mun fastari varð ég.

Það bankar einhver á rúðuna hjá mér og ég gríp í eitthvað til að hylja lærin mín (og þennan fjólubláa) og opna rúðuna lítillega. Það var sem betur fer maður sem ég kannaðist við og ég bað hann um að hjálpa mér og hvíslaði að honum að ég gæti eigilega ekki komið út, þar sem ég væri sko á brókinni.
Hann byrjaði að ýta, ekkert gerðist - það kom annar maður og hjálpaði til (og ég alltaf inní bílnum) en ekkert gerðist. Þriðji maðurinn kom og reyndi að ýta, en eftir að hann og allir hinir voru orðnir drullugir upp yfir haus sagðist hann ætla að sækja jeppann.

Hann kom svo á risastóra jeppanum sínum, með stóran stóran kaðal og byrjaði að reyna að draga mig upp. Fyrir rest tókst það og veifaði honum í þakkarskyni. Og alltaf sat ég í bílnum.
Á brókinni.

Þegar ég kom heim ótrúlega hamingjusöm með fallegasta jólatré í heimi og algjörlega lungnabólgulaus og hafði alveg sloppið við lögguna, sá ég auglýsingu frá einhverri jólatréssölu að trén hjá þeim voru meira en helmingi ódýrari en þetta sem ég hafði hætt lífi mínu og limum fyrir.

sunnudagar og snús

Ég fór snemma að sofa í gær, af því að ég þurfti að vakna svo ótrúlega snemma í morgun til að vinna. Klukkan stillt á 8 og allir hressir og kátir og alveg í stuði til að vakna svona snemma á sunnudagsmorgni.

Guð vildi hafa sunnudaga sem hvíldardaga og því held ég að guð vilji ekki að fólk vinni mikið fyrir hádegi á sunnudögum,

og því fann hann upp snúsið.

Ég held að persónulegt snús-met sé 2 1/2 klukkutími.


föstudagur, nóvember 26, 2004

Vísindi efla alla....

Mikið hlakka ég til að fara í vísindaferð og fræðast og fræðast um....bíddu...hvað heitir aftur fyrirtækið???

ahh.. skiptir það nokkru máli?

hummm...

Af því að ég er svo skotin í orðabókunum mínum ákvað ég að kíkja í þær og athuga þetta með hetjurnar og fyrirmyndirnar og allt það

Fyrirmynd: 1 e-ð til eftirbreytni, fordæmi - ágæti fyrirmyndarblað / fyrirmynd listamanns e-ð til að gera listaverk eftir; e-ð sem listaverk er gert eftir, fyrirsæta. 2 eyðublað 3 sýnishorn

og ekki skánar það...

hetja: kappi, hraustmenni --> bera sig eins og hetja þ.e. karlmannlega. afreksmaður hetjusaga/þjóðhetja sá sem hefur unnið sérstök afrek fyrir ættland sitt.


Jú jú fyrirmyndirnar mínar eru eitthvað sem hægt er að hafa sem fordæmi, þó þær séu kannski ekki mikil fyrirmyndarblöð og hvað þá eyðublöð

en hetjurnar mínar aftur á móti eru jahh...flestar ef ekki allar mjög langt frá því að vera karlmannlegar þó hraustar séu

svo var þetta með feminsistann sem er samkvæmt orðabókinni kvenfrelsissinni sem er aftur maður sem heldur fram kvenfrelsisstefnu.
og ég hugsaði með mér: maður... það er líka ég er það ekki???

EN...

samkvæmt áðurnefndri orðabók er maður tvífætt og tvíhent spendýr sem talar, býr til verkfæri og vinnur með þeim
og ég er jú...tvífætt og tvíhent og spendýr (síðast þegar ég gáði) en ég veit ekki alveg þetta með verkfærin....

þetta er ágætis veganesti inn í helgina: er ég maður eða...

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Fyrirmyndir

Ég hef svolítið verið að hugsa um það hvort að ég eigi mér einhverjar fyrirmyndir og ef svo, hvaða?
Ég er komin með nokkrar á lista, en er að spá í hvort fyrirmyndir og hetjur séu það sama?

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Koddahjal

Mamma veistu það að í gamla daga var ekki til neitt. Ekki geimurinn eða neitt. Það voru bara til guð og Jesú og þeir bjuggu til heiminn.
Eða ég veit ekki hvort þeir bjuggu fyrst til guðina og svo geiminn.
- Hvaða guði?
- Æ þú veist miðgarðsorminn og alla þá
- Jaá...
- Ég held það.

Og guðirnir bjuggu svo til Evu og Adam.

Það voru tvö tré. Yggdrasil og eitthvað annað sem ég man ekki hvað hét. Þau duttu um koll og þá urðu Eva og Adam til.
Svo bjuggu guð og Jesú það til að Eva og Adam gætu eignast börn..samt aðallega Eva.

- Mamma af hverju geta strákar ekki eignast börn?
- ég veit það ekki spurðu guð að því

- mamma veistu að einu sinni borðuðu ljón og tígrisdýr bara gras?

Svo göldruðu djöfullinn og dauðinn að þau fengu svona vígtennur og hættu að borða gras og fóru að borða kjöt og dýr og menn.

Þú veist að þeir eru vondir?
- hverjir?
- Andskotinn og þeir...

- Hvernig veistu þetta allt?
- Þetta stendur í bókinni
- Hvaða bók?
- Guðabókinni
- Nú? hvað heitir hún?
- Ég man það ekki...það eru sko til þrjár guðabækur.


Síðan gengu sumir vondir - eða allir vondir menn í lið með óvininum og voru á móti vininum. Gengu til liðs með djöflinum en þeir voru á móti guði.
Þess vegna fæddist Jesú á Jörðinni, en hann dó aftur...

- Af hverju dó Jesú?
- Nú, af því að hann var krossfestur!!!

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

leikur að orðum eða fólki?

Það er opnuauglýsing í Fréttablaðinu í morgun sem er eitthvað að vefjast fyrir mér:

Loksins Frítt download... (bla bla bla) ...fast verð frá 5.990 kr. á mánuði.

Ok ég er greinilega ekki skýrari en þetta..
...en mér er bara lífisins ómögulegt að skilja hvernig eitthvað sem er ókeypis getur kostað frá 5.990 kr. á mánuði???

mánudagur, nóvember 22, 2004

Ég get svo gvuðslifandisvariðfyrirða

Ég fór á Kaffivagninn áðan og ef ég hefði ekki verið búin að skipta um föt, hefði ég haldið að ég hefði ekkert farið.

Lilli sat á sínum stað við sama "annan mann" og Guðmundur Jónasson var með þeim. Frissi var reyndar fjarri góðu gamni.
Afinn og barnabarnið voru þarna líka, hún með sama laxabrauðið en hann kominn í pönnsur í stað kleinunnar.

Nýjir gaurar voru á borðinu "mínu" sem þekktu Lilla og Guðmund (þessi nafnlausi er mjög gamall, talar voðalega lítið og hefur ekki komið fram hvað hann heitir - en hann er svona Halldórslegur)

Ég er í smá vandræðum. Hingað til hefur því verið haldið fram að það séu fyrst og fremst ungar konur og unglingsstúlkur sem eru uppteknar af því hvað þær eru feitar...En...
Guðmundur Jónasson gengur fram hjá þessum kunningjum sínum og heyri ég hann segja:
- já finnst ykkur ég ekki vera orðinn mjór?? Ég er orðinn 95 kg, var sko 112 kg skal ég segja ykkur. Svo útskýrir hann fyrir þeim hvaða aðferð hann notaði til að grenna sig og þeir hlusta á með miklum áhuga.

Mér finnst þetta skemmtilegar samræður- á svona stað - á milli karlmanna - sem eru sjálfsagt komnir hátt á sjötugsaldurinn.

-------------------------------------------------------------------------------

Sverrir var í dansi í skólanum og fékk gat á hausinn.
Skurðurinn er frekar djúpur og vildi ég endilega komast að því hvort hann hafi nú ekki verið að gera eitthvað sniðugt sem olli þessu sári, svona til að gera það þess virði.

Jóda: varstu að dansa við einhverja sæta og skemmtilega stelpu í dansi?
Sverrir: já, ég var að dansa við Söndru og svo var frjálst - þá má maður dansa eins og maður vill.
Jóda: Og fórstu þá alveg á flug?
Sverrir: Já, ég ætlaði að renna mér undir borðið...en ég gerði það ekki...

(hann komst semsagt ekki undir borðið, heldur lenti ennið á borðbrúninni með þeim afleiðingum að hann stöðvaðist - þó ekki fyrr en hann var kominn hálfur inn í borðið..eða ætti ég að segja borðið hálft inn í hann?)

Jóda: Er þetta ekkert sárt?
Sverrir: Nei....ekki nema þegar ég ropa!

Lærdómur: ef þú færð borðplötu inn í ennið á þér er mjög gott að forðast að ropa.

Uppgjöf

Ég gafst upp. Það er kominn vetur og ég get ekki með góðu móti verið á sumardekkjum lengur. Eins og sönnum hetjum sæmir, þá verð ég að taka einhvern með mér í fallinu og eftir nokkra umhugsun ákvað ég að veðurfræðingar fengju að detta með mér.
Þeir voru búnir að lofa að það kæmi rigning um helgina. Ég var farin að hlakka rosalega til...en allt kom fyrir ekki.
Jæja, maður verður bara að sætta sig við að það er til fólk sem segir ekki alltaf satt.

Ég fór semsagt og náði í nagladekkin mín í gærkvöldi og skellti mér til strákanna á dekkjaverkstæðinu þarna (hvað það nú heitir) rétt hjá Ægissíðunni. Þetta er alveg svona "til strákanna" þvílíkt stuð sem var hjá þeim. Það var lítið að gera þegar ég kom, þannig að þeir voru 5 undir einum bíl að skoða - leit allt nokkuð vel út skildist mér.

Ég fékk 3 af þessum 5 yfir til mín.

Ég náði að vera þarna í uþb 10 mínútur og kom út angandi eins og ég hafi verið á skemmtistað í 3 tíma...það var einn kall þarna sem sagði mér að þeir reyktu sko allir nema hann, þeir væru ekki búnir að fatta að reykingar væru ekki hollar, heldur mjög óhollar.
Reykleysi sínu til áherslu rak hann andlitið sitt framan í mitt og bað mig um að skoða vel hvað hann væri með fína húð - en ekki hinir.
Ég ákvað að taka orð hans trúanleg og vera ekkert að fara í einhvern rannsóknarleiðangur um svæðið til að skoða húð strákanna.

Nú er ég "loksins" komin á nagla og er til í næstum hvað sem er. Og þrátt fyrir marga góða kosti nagladekkja þá er það skemmtilegasta af öllu við þau vafalaust lætin sem þau framleiða. Hávaðinn er svo gífurlegur að maður heyrir ekkert í pústinu.
Sem flokkast óumdeilanlega undir kost...

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Sturta og holubað

Við Sverrir fórum saman í sturtu áðan. Við erum svo heppin að vera með svona semídjúpan sturtubotn og getum því safnað 10-15 cm djúpu vatni í hann og leikið okkur.
Ég verð nú samt að játa að ég er voðalega léleg að leika. Yfirleitt þegar Sverrir biður mig um að koma að leika, spyr ég hvort ég eigi ekki að lesa fyrir hann eða hvort við eigum kannski að spila.

Það er hvorki hægt að lesa né spila í sturtu.
Þannig að við skvettum aðalega vatni á hvort annað og spjöllum saman.

Þetta er reyndar alltaf að verða erfiðara og erfiðara. Barnið heldur sem betur fer áfram að stækka og það er varla pláss fyrir okkur bæði í sturtubotninum lengur.
En við þrjóskumst við.

Eitthvað fannst mér þetta þó vera erfitt áðan, þegar ég var að reyna að standa upp án þess að stíga ofan á barnið mitt. Ég segi við hann að þegar við verðum orðin stærri og kannski flytjum í aðra íbúð, gætum við orðið svo heppin að eignast holubað.
Fatta þó um leið að tímaskyn Sverris er allt annað en mitt og bæti við að það sé nú samt ekki víst að við flytjum fyrr en hann verði unglingur og þá gangi þetta örugglega ekki upp.

Sverrir: Nú? Af hverju?
Jóda: Heldurðu að unglingar vilji fara í bað með mömmum sínum?
Sverrir: Já...það fer eftir því hvað baðið er stórt.

...hvað ég skal koma inn til hans þegar hann er svona 13-14 ára, þegar allir vinir hans eru í heimsókn og rukka hann um þetta...

Kaffivagninn

Sat á kaffivagninum í dag. Ég get ekki sagt að ég komi reglulega þangað. Ég á samt mínar minningar frá þeim ágæta stað.
Man eftir þvi að hafa komið hingað með pabba og drukkið malt og borðað Prins póló. Seinna kom ég og drakk kaffi og reykti fullt af sígarettum. Í dag drakk ég bara kaffi.

Það er skemmtilegur þverskurður af samfélaginu þarna inni. Trillukallar í bland við konur sem borða smörrebröd. Inn á milli eru svo afar með barnabörnunum sínum.
Það var eitt svoleiðis “sett” á næsta borði við mig. Hún svona rúmlega tvítug og hann afskaplega góðlegur. Það var svo fallegt að finna fyrir kærleikanum á milli þeirra. Þau spjölluðu um heima og geima. Um fjölskyldumyndirnar í stofunni, um hvað stelpan drekkur marga kaffibolla á dag í bakaríinu og hvað malt er hollt. “Svo mikil næring í því” segir afinn.

Þau tala lítillega um jólin og afinn segir henni að mamma hennar og systir hafi átt hvíta trefla, þegar þær voru litlar, eins og hún er sjálf með um hálsinn. Mamman er dáin. Stelpan segist verða ómöguleg ef það líða meira en tveir dagar á milli þess sem hún heyrir í honum. Hún ætlar að gefa honum mynd af sér í jólagjöf. Hann á örugglega eftir að setja hana upp á vegg inní stofu.

Á öðru borði sitja tveir eldri menn og sá þriðji gengur til þeirra og segir:
-Er þetta ekki Lilli?
Lilli: Jú
- Ég ætlaði ekki að þekkja þig, þú ert orðinn svo feitur. Hefur þú nokkuð séð hann Guðmund Jónasson hérna?
Lilli: Jahh..hann var hérna rétt áðan, kannski er hann í kassanum. Hver ert þú?
- Mannstu ekki eftir mér? Frissi.
Lilli: Frissi? Ertu kominn með nýjar tennur?

Frissi og Lilli spjalla lítillega um hvað þeim þykir plokkfiskur góður en nenna ekki að elda hann og Frissi fer.

Tíu mínútum síðar gengur maður inn og heilsar Lilla.

Lilli: Blessaður Guðmundur, hann Frissi var hérna að leita að þér rétt áðan. Hann ætlaði nú ekki að þekkja mig, sagði að ég væri orðinn svo feitur. Hann er bara með bölvaða ístru sjálfur. Og svo var hann með einhverja húfu, alveg eins og bóndadurgur.

... málið er dautt og talið berst að einhverjum furðufiskum og hvort hægt sé að éta þá...

Ég var búin að sitja í meira en klukkustund og varð að horfast í augu við að deitið mitt væri ekki að koma, stóð upp og þakkaði fyrir mig.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

snjókoma

í gær hugsaði ég til þín
lá í vetrinum og horfði upp til himins
snjórkornin féllu niður á andlit mitt og bringu

(Fallegt orð “bringa”)

rétti út handleggina og fingur mínir eltust við snjókornin
minntu mig á þig
svona falleg, svífandi um loftið
en um leið og ég snerti þau voru þau horfin
bráðnuð

ef við gætum notist einu sinni
eitt augnablik

löngunin í þig magnaðist upp
ég lét eftir henni

kalt í fyrstu
eins og þú

hikandi féllst þú á brjóst mín
maga
læri

þú gældir við bak mitt
rass
á milli læranna

það var ekki kalt lengur
heitt

gott að vera saman eitt augnablik
vonandi snjóar aftur í dag

Hjálp!!!

Það hefur einhver undarleg vera tekið sér bólfestu í líkama mínum.
Í gær sendi hún mig út að hlaupa, í frosti og snjó.
Í dag sendi hún mig í sund...ég ætlaði aldrei að finna laugina, það var svo mikill bylur.
Ég þori varla að fara að sofa, því hver veit hverju hún tekur upp á á morgun???

Geispandi - blæðandi

Ég fór alveg svakalega snemma að sofa í gær vegna þess að dagurinn í dag var svo pakkaður af verkefnum sem ég þurfti að vera vel hvíld fyrir. Áður en ég fór upp í rúm, tók ég mikilvæga ákvörðun: það er fyrir löngu síðan kominn tími á að snúa dýnunni við og ég nenni því ekki. Ákvað að héðan í frá ætti ég ekki endann, heldur miðjuna. Fór upp í rúm um ellefu leitið og stillti klukkuna á sex. Þetta var algjört ævintýri, nýr háttartími á nýjum svefnstað

Klukkan tólf vaknaði ég við það að maðurinn á hæðinni fyrir ofan mig kveikti á útvarpinu. Mér fannst ég alveg vera búin a sofa nóg en hugsaði með mér að það væri ekki kominn tími á morgunmat og tróð því eyrnatöppum í eyrað og náði að festa svefn.

Ó fyrirgefið sagði ég festa. Það er nú orðum aukið - ég blundaði til sex. Það var ekki nágranni minn sem náði að halda fyrir mér vöku, heldur voru það hugsanir mínar. Hvað ætti ég að spyrja um í viðtölunum sem ég var að fara að taka á morgun. Hvernig ætli námskeiðið verði sem ég er að fara að sitja? Ætti ég að tala við fólkið eða?? Í hverju á ég að fara (nei, þessi spurning kom ekki, því ég var löngu búin að ákveða í hverju ég ætlaði)

Klukkan sex byrjaði síminn minn að gala. Ég hugsaði með mér hvað þetta væri nú undarlegur tími til fótferða. Til hvers að fá sér morgunmat þegar Fréttablaðið er ekki komið í hús? Ég átti sem betur fer helminginn af blaði gærdagsins eftir og myndirnar í þeim helming dugðu mér vel.

Námskeiðið byrjaði kl níu og vildi ég fyrir alla muni vera viss um að koma ekki of seint og hafði ég því ráðgert að leggja af stað ekki mikið seinna en rúmlega átta - ég var nú að fara alla leiðina upp á Engjateig og maður veit aldrei með umferðina á þessum tíma....

Allt til. Dótið komið ofan í tösku, spólurnar (fyrir viðtöl dagsins)... diktafónninn...shit hann virkar ekki. Diktafónninn er dáinn og hann dó einn og yfirgefin. Hvar reddar maður diktafóni klukkan átta á þriðjudagsmorgni? Hvergi!!! Bíma mig í Elkó í fríminútunum. Ég gróf upp vísakortið (sem ég var næstum því búin að gleyma hvar var, vegna minnar alþekktu sparsemi) og hljóp inn á bað til að snýta mér fyrir brottför.
Blóðnasir!!! Frábært! Og ég að verða of sein. Hélt á tímabili að mér myndi blæða út, en náði að stoppa fossinn og hlóp út í bíl. Alveg sú öruggasta í umferðinni: Á sumardekkjum, eineygð, með ónýtt rúðupiss og á Volvo. En ég komst á leiðarenda.
Mætti allra fyrst, kennarinn var ekki einu sinni kominn í hús. Allt læst og ég þurfi að bíða í tæpan hálftíma.

Ég var voðalega dugleg á námskeiðinu, sat og hlustaði og skoðaði og skannaði vel og vandlega. Náði að halda geispum mjög hljóðlátum og sofnaði ekkert. Algjört afrek. Ég var dugleg að brosa og mynda kontakt við fólkið á námskeiðinu.
Þegar kom að morgunhressingu fór ég á klósettið og sá þá í speglinum að ég var með stóra blóðklessu á nefinu!
Ef ég fæ einhver viðtöl út úr þessari ferð, verður það bara af tómri vorkunsemi í minn garð...

mánudagur, nóvember 15, 2004

Æ mig auma

Mikið sem ég hef mikla samúð með þessum blessuðu kennurum.
Mér finnst það bara vera allt í lagi að krakkaófétin séu send heim úr skólanum. Ég meina, þau eru hvort sem er ekkert að læra. Hugsa bara um fríminútur og morgunhressingar.
Hvaða máli skiptir að krakkarnir sannfærist um að það sé ömurlegt í skóla, þegar það er hvort sem er ömurlegt þar? Kennarar líkja börnunum við fisk, sem úldnar í verkfallinu - og kannski er það mjög nærri lagi. Í það minnsta er sonur minn nú fullsannfærður um að skóli sé ömurlegur, það sé miklu betra í verkfalli. Kannski er þetta fyrirbæri úrsérgengið? Kannski er bara málið að fara aftur til fortíðar og láta ömmurnar og afana um þetta?

En það er eitt sem ég er að velta fyrir mér.

Samkvæmt mínum kokkabókum, þá fer ákveðið áminningarkerfi í gang þegar opinberir starfsmenn brjóta af sér..nema þegar þeir gerast brotlegir í starfi. Þá er tafarlaus brottvísun réttmæt.
Bíðum nú við, hvað er ég að segja? Brotlegir í starfi..hafa kennarar gerst brotlegir í starfi? Jú, einmitt! Nákvæmlega það sem þeir hafa gert!

Ég verð að segja fyrir mitt leiti að þó ég vilji auðvitað að kennarar sem sjá um að mennta barnið mitt, séu fullir réttlætiskennd og gefist ekki upp þó að móti blási, þá er ég ekki alveg viss um að ég vilji að þeir kenni honum að það sé í lagi að brjóta lög til þess að ná sínu fram!!!

Ég er ráðþrota, pirruð og afskaplega gröm.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Arghhh

Skrifaði langa (og auðvitað mjög skemmtilega) færslu um sundferð dagsin...
hún var reyndar svo skemmtileg að blogger ákvað að stela henni!
Minns er ekki glaður núna.

Enn um Idolið

Horfði á Idolið með öðru auganu í gær (get náttúrulega alls ekki viðurkennt að ég horfi reglulega á þáttinn). Bubbi er enn ákveðnari en í síðustu seríu að vera þessi fúli á móti. En hann er þó skotinn í sumum og fer þá ekki leynt með það. Hann heldur ekkert aftur að sér og segir stelpunum sem eru að gera eitthvað fyrir hann að þær séu að því. "Sæt, sexy, vel vaxin" eru lýsingarorð sem hann tók sér í munn í gær. "Ég horfi auðvitað á þig sem konu, á meðan þú ert að syngja" sagði hann líka. Stelpan bara roðnaði og var hin ánægðasta með það komment. Hver vill ekki að Bubbi horfi á sig sem konu - ég bara spyr?

En Sigga?

Sigga sagði við stelpurnar að það væri svo gaman að sjá þegar fólk notaði sinn persónulega stíl. "Lífleg á sviði" "Fallegt dress" og þar fram eftir götunum. Það kræfasta sem hún sagði var "þú komst inn á sviðið eins og drottning, afslöppuð og flott, lést mér líða vel" (eitthvað á þá leið)

Afhverju segir Sigga ekki að henni finnist stelpurnar sætar og sexy?
Það gæti náttúrulega verið að henni lítist bara ekki á neina þarna. En ég held samt ekki. Hins vegar þegar kemur að strákunum segir hún "þú ert sætur strákur" og svo framvegis. Reyndar sleppti hún alveg að tala um að þeir séu sexy..sem er ágætt, ef mið er tekið af því hvaða strákar hún telur vera sæta...

Myndi hún misbjóða stelpunum ef hún segði þeim að henni þætti þær sætar og sexy?
Eða
Myndi hún misbjóða þjóðinni ef hún segði að henni þættu stelpur sætar og sexy?

Ætli við séum ekki eins "frjáls" og við viljum vera láta?

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Lærdómur í stofusófanum

Um daginn gerði ég svona plan í skipulagsbókina mína. Skrifaði allt sem ætlaði að gera þann daginn og strikaði svo stolt yfir hvert atriði sem lokið var. Það er eitthvað svo uppbyggjandi að horfa á yfirstrikuð orðin. Fór í skólann, á æfingu, sendi tölvupóst, eldaði mat, klæddi mig og tannburstaði....
Galdurinn við að auka sjálfsálitið - Til að finnast maður vera að gera eitthvað mikið í þessu lífi er að skrifa ALLT sem maður gerir (eða þarf að gera) yfir daginn. Þetta er alveg stórsniðug og virkar vel fyrir mig. Maður verður bara að muna að kíkja annað slagið á listann til að fara ekki út af sporinu.

Eins og í gær....

Í gærkvöldi þurfti ég að klára að greina viðtal og átti að skila greiningarblaði tengdu því, núna í morgun. Þar sem skrifborðið mitt er pínulítið og er þessa stundina fullt af tölvuskjá, fartölvu og öðru "drasli" ákvað ég að fara inn í stofu til að lesa viðtalið.
Ég lærði fullt í gærkvöldi:
- Bráðavaktin: þegar botlanginn springur, minnkar verkurinn og manni líður betur og maður gæti haldið að maður væri læknaður (og því jafnvel sendur heim)
-Óp: nei..sæta fyrrum ungfrú Ísland komin í sjónvarpsþátt og segir "Ássgeir" í stað "ásgeir"...dúllulegt
-Mile High: Shit, hvað þetta eru glataðir þættir..en samt alveg hægt að horfa á þá..gul eiturslanga er soldið flott
-Oprah Winfrey: Richard Gere er með þunnar varir... eða eiginlega ekki með varir. Hvernig ætli henni þarna fyrirsætu hafi fundist að kyssa hann??? J-Lo...Hún virtist hafa fengið of stórt spjald til að hafa yfir augun, þegar hún fór í brunkuklefann. Það var eins og hún væri með hvít skíðagleraugu. Samt óskaplega sæt og viðkunnaleg. Skil alveg þessa stráka að vera að eltast við hana.
-Fólk með Sirrý: Hver er tilgangurinn með því þegar heil fjölskylda kemur í heimsókn í þáttinn og mamman og dóttirin feli sig bak við tjald en pabbinn ekki? Komst að því að sjóarar geta líka grátið, en bara á nokkra ára fresti.
- America's next top Model: Það er alveg magnað hvað smá make up getur gert. Af hverju mála strákar sig ekki? Mér finnst bólur og baugar ekkert klæða stráka betur en stelpur!
- The L word: Veit ekki alveg hvað þessi þáttur á að vera. Virðist vera að reyna að taka á samskiptum lesbía (eða fólks almennt) en til að fólk nenni að horfa á þetta, þá er þetta poppað upp með kossaflensi og samfararsenum stelpnanna. Stelpurnar í þáttunum eru allar mjög sætar og sexy. Það voru strákarnir í sambærilegum hommaþætti alls ekki...ætli það sé tilviljun???

Stærsti lærdómur gærkvöldsins er þó vafalaust: ef þú átt að skila verkefni klukkan átta um morguninn...ekki fara inn í stofu kvöldið áður, til að klára það!!!

...og ef Helga kennari skildi óvart lesa þessi orð, þá eru þau auðvitað uppspuni frá upphafi til enda. Það kom í alvörunni einhver leðurklæddur gaur með hring í nefinu og gaddabelti og stal verkefninu mínu.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Ef jörðin rifnar

Við mæðginin vorum að ganga úr skólanum í morgun:

- mamma, það væri mjög slæmt ef jörðin myndi rifna í tvennt og við myndum lenda á sitthvorum helmingnum.
- já, það er alveg rétt hjá þér
- Það væri eiginlega betra ef við myndum fylgjast með sprungunni og reyna að vera sömu megin við hana. Eða hoppa yfir svo við getum verið saman
- já. Á ég að hoppa yfir til þín, eða þú til mín?
- þú til mín, það eru svo miklir pollar hjá þér!

----------------------------------------------------------

Ég spurði hann í gær hvað það væri sem foreldar gerðu:
Mömmur:
- vinna
- fæða mann
- og gefa manni að borða

pabbar:
- vinna mikið
- gefa manni að borða

mér fannst þetta eitthvað takmarkað verksvið, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þá fékkst ekki meira upp piltinum. Þegar ég spurði hann hvað það væri sem börnin gerðu, fékk ég eftirfarandi svar:

börn:
- Leika sér við vini sína

Af þessu að dæma þá er bara ágætt að vera barn...

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Skólinn

Sverrir kom með mér í skólann í dag.
Ég sýndi bara hörku og sagði að hann yrði að vera stilltur, mætti ekki nöldra og svo framvegis. Hann stóð sig alveg ljómandi vel litla skinnið. Sérstaklega fyrir hlé.

Honum fannst reyndar skipulagið á þessu blessaða skólastarfi eitthvað undarlegt.
Við sitjum á kaffistofunni, í fríminútunum og borðum morgunhressinguna okkar:
- mamma, eru fríminúturnar svo eftir morgunhressinguna?
- þetta eru fríminúturnar.
-Ha!!!! fríminútur og morgunhressing á sama tíma!!
- Hélstu að við myndum öll fara út að leika, eftir morgunhressingu?
- nei, ekki leika, bara fara út!

Heiðri Háskólans sem menntastofnun var bjargað af Snorra skólabróður mínum, sem fór út með Sverri og hlupu þeir saman hringinn í kringum Háskólabíó (Sverrir vann)

Samúð mín gagnvart kennurum er þverrandi og ekki er pirringur minn gagnvart stjórnvöldum minni. Þeim virðist vera alveg sama, hvort samið er eða ekki.

Þegar búið er að semja er ég að hugsa um að senda KÍ reikning fyrir barnapössun sem ég hef þurft að kaupa þessa önnina. Það er nefninlega alveg öruggt að námslánin mín hækka ekki neitt, þó laun kennara komi til með að gera það!

mánudagur, nóvember 08, 2004

Af sunnudags sundferðum

Er búin að komast að því að besti tíminn til að fara í sund er á kvöldin. Það verður allt einhvernvegin öðru vísi í myrkrinu.

Nema tattúveraði gaurinn (það er jú sunnudagur) komst að því áðan að hann talar þýsku!!!!
ég er orðin vægast sagt forvitin. Þjóðverji með íslenska skjaldamerkið all over!

Tvö, þrjú skipti í viðbót og ég gef mig á tal við hann.
það er nefninlega betra fyrir hann ef hann segir mér sögu sína, því sagan sem ég hef í huga um hann, er alls ekki svo hliðholl honum...alveg án þess að ég sé að halda því fram að hann sé vondur maður.

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Söngur

Eins og á öllum betri heimilum var Idolkvöld hjá okkur í gær. Þetta er nú meira ruglið þetta Idol. Samt einhvernveginn límist maður fastur við skjáinn og tekur varla eftir því hvað maður er að eyða mörgum mínútum í vitleysu.

Sverrir er Bubba maður og segir fullum fetum að hann haldi með honum. Ég held að það þýði að Bubbi sé uppáhalds tónlistarmaðurinn hans, en er þó ekki alveg viss hvaða plata er í mestu uppiáhaldi. Hann hefur ítrekað sagt mér að Bubbi kunni að syngja á grænlensku og það er sko ekki á allra færi.

Hlustar hann með andakt á dóm Bubba og eru hans orð þau einu og sönnu. (En áður en kóngurinn kveður upp dóm sinn, lítur hann á móður sína og spyr hvað henni finnist um sönginn).

Hann er þó sjálfur að æfast í því að taka sjálfstæða ákvörðun um þessa mikilvægu hluti, eins og hver syngi vel og hver geri það illa.
Í gær var honum alveg nóg boðið:
"Nei, mamma þetta er hræðilegt! Úff..þetta er eiginlega bara fyndið...þessi ætti bara að vera að syngja í Spaugstofunni!"

Ég held hann hafi þessa næmni fyrir tónlist, vegna fallegs söngs móður sinnar....
...sem komst ekki í Idol vegna aldurs..og einskis annars!


föstudagur, nóvember 05, 2004

Ástarjátning

Ég opna augun og sé þig liggja á koddanum við hlið mér. Ég trúi því varla að ég sé svo heppin að eiga þig – eða að þú eigir mig. Ég klíp mig laust í handlegginn, þar sem skinnið er þynnst – svo ég finni örugglega að þetta sé alvöru. En sæluvíman kemur í veg fyrir að ég finni sársauka.
Þegar þú loksins opnar augun, segi ég þér að ég trúi því ekki að þú sért hjá mér, að þú elskir mig, því ég hafi klipið í handlegginn til að athuga hvort mig væri að dreyma, en ekki fundið neinn sársauka.
Þú segist vera til og segist elska mig svo mikið að ef nauðsyn krefur, sértu tilbúinn til að sanna það fyrir mér. Jafnvel þó það verði sársaukafullt.
Þú byrjar á því að klípa á sama stað og ég gerði. Vá, ég vissi ekki að þú elskaðir mig svona mikið!!!

Ég veit þú sást það í augunum mínum hvað ég var hissa á allri þessari ást. Við það færðist þú allur í aukana. Þú skildir sko sýna mér að þú elskaðir enga eins heitt og mig, að enginn elskaði mig eins heitt og þú.

Ást þín til mín er þó ást í leynum. Fólk skilur ekki svona heita ást. Segja jafnvel að hún sé ekki góð. Því er best að þú skiljir ástarför þín eftir þar sem aðrir sjá þau ekki. Það tekur enginn eftir því ef ég er marinn í hársverðinum, ég get líka vel falið ástarblettina á bakinu.
Það var reyndar svolítið erfitt að pissa, eftir að beltið þitt fór um þann líkamspart sem þú elskar mest á mér. En eins og þú segir sjálfur að ef maður elskar mikið, er best að sýna það af mikilli ástríðu – jafnvel hörku.

Ég veit að það var í hita ástarleikja þinna sem þú gleymdir þér og skildir eftir stórt far á hálsinum – allan hringinn. En það var kalt úti og ég bar léttilega við hálsbólgu. Og silkiklúturinn sem þú gafst mér af þessu tilefni er mjög fallegur.

Ég veit að það er rétt sem þú segir, þú elskar mig of mikið og ég er ekki þessarar ástar verð. Ég veit að svo mikil ást sem þú berð í hjarta þínu til mín, getur aldrei verið neitt annað en byrði fyrir þig.

Því tek ég hnífinn sem þú geymir á náttborðinu og sting og sker. Ég get ekki stungið djúpt, sársaukinn er of mikill til þess. Reyni þess í stað að stinga oftar. Ég sting fyrir hvert skipti sem þú neyddist til að sanna ást þína. Tvær stungur fyrir hvern sígarettubruna, því það var svo erfitt fyrir þig.

Ég er minna virði en drullan undir skónum þínum og þú sem elskar mig svo mikið átt betra skilið.

Þjáningum þínum er lokið – þú ert laus við mig –
vonandi ferðu á betri stað.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Að sofa saman á bókasafninu

Ég hef alltaf verið svolítið hrifin af bókasöfnum. Þegar ég var á ástarsöguskeiðinu mínu (11 ára) fór ég reglulega á Borgarbókasafnið á Þingholtsstræti og fyllti pokann minn af ástarsögum. Þetta voru skemmtilegar ferðir, þar sem ég tók mér alltaf góðan tíma í að rölta um húsið og skoða allar bækurnar. Strjúka þeim og finna lyktina. Ég man eftir að hafa skoðað útlensku bækurnar, sem voru ekki svona harðar (semsagt kiljur) og hugsað með mér að einn daginn myndi ég geta lesið svona bækur - og fannst mikið til þeirra drauma komið.

Áður en ég fór heim, vel byrg af ástarsögum, settist ég hjá gömlu köllunum á pallinum og las teiknimyndasögur á meðan þeir flettu blöðunum. Þetta voru góðar stundir.

Þegar ég var í menntaskóla var ég svo mikið á bókasafninu að ef guðmóðir mín, sem ég bjó hjá á þeim tíma, þurfti að ná í mig hringdi hún á safnið og bókasafnskonan kom og náði í mig í símann.

Mér finnst bókasöfn enn vera góðir staðir og sæki mikið í þau. Reyndar hringir guðmóðir mín sjaldan í mig og ég er ekki viss um að allt starfsfólkið viti hvað ég heiti (amk ekki fullu nafni)

Hvað er svona gott við bókasöfn?
Það er eitthvað svo róandi andrúmsloft á bókasöfnum. Svo afslappað.
Ég fór á bókasafnið í gær. Fann fullt af greinum til að lesa og settist í hægindastól (eða heitir það lesstóll?) og hafðist handa. Smám saman fór afslappaða andrúmsloftið að segja til sín og augnlokin þyngdust. Ég barðist hetjulega, stóð upp og lét renna ískalt vatn á hendur og háls, fetti mig og bretti en allt kom fyrir ekki.
Um það leiti sem ég lokaði augunum, hugsaði ég með mér að ég gæti líklegast allt eins lagt mig í smá stund og lesið svo af fullum krafti þegar ég vaknaði aftur.

Ég veit ekki alveg hvað ég svaf lengi en þegar ég vaknaði sat við hliðina á mér undurfalleg stúlka og skælbrosti hún til mín.
Ég brosti vandræðalega á móti, enda ekki vön að vakna hjá svona sætum stelpum og spurði hana hvort ég hafi nokkuð hrotið.
"Bara smá" sagði hún hughreystandi"og svo er hann líka sofandi" bætti hún við og bendir á strák hinum meginn við mig.
"jahh" hugsa ég með mér..."sofa saman á bókasafninu og vita hvorugt af því...passa þetta!!!!"

******************************************************

Sverrir fór loksins í skólann aftur. Honum fannst mjög gaman, en sagði að þetta hefði verið eitthvað voðalega skrýtinn skóladagur. Ég var eitthvað að reyna að veiða upp úr honum hvað hann ætti við en í fljótu bragði gat hann ekki bent á undarlegheitinn.

Ég spurði hann hvort hann hefði ekki verið að læra. Jú, hann var að læra, en þetta var samt eitthvað svo skrýtið..það var allt einhvernveginn öðruvísi. Ég var alvarlega farinn að velta því fyrir mér að hringja í kennarann hans og reyna að komast að því hvort hún væri með einhvern verkfallsáróður. Spurning hvort ég ætti ekki bara að taka hann úr skólanum, ég get alveg kennt honum sjálf...
Á meðan ég er að leita að símanúmeri kennarans, geri ég lokatilraun með Sverri:
- hvað var svona skrýtið? Hvað gerðuð þið eiginlega?
- Sko þetta var svo skrýtið mamma, það var allt svo öðruvísi. Það voru fyrst fríminútur og svo var morgunhressingin. En áður en verkfallið byrjaði var hressingin fyrst og svo fríminútur!!!

Já, það er vandlifað í þessari veröld..ég segi nú ekki annað.

mánudagur, nóvember 01, 2004

Hjörtu í heitum pottum

Ég fór í pottinn í gærkvöldi. Það er fátt betra en að láta líða úr sér í heitvolgum potti og horfa á stjörnurnar... og hlusta á fólkið tala.
Þegar ég hugsa til baka, finnst mér eins og ég hafi, bara fyrir nokkrum vikum, setið í sama potti og glott út í annað, vegna samtals nokkurra vinkvenna.
Ég á von á því að í gær hafi það verið ég og vinkona mín sem gældum við nokkur eyrnapör, eins og við blöðruðum. Ástin, lífið og tilveran er jú sígilt umræðuefni.

Ég komst hins vegar að því að maðurinn með skjaldamerkið á bringunni fer í sund á sunnudögum, um kvöldmatarleitið. Það er fátt eins þjóðernislegt og risa tattú af skjaldamerkinu á bringunni (hér myndi passa vel að segja bringunni miðri, en á ekki við - þar sem skjaldamerkið nær yfir alla bringuna). Get ég hiklaust mælt með því að gera sér ferð í laugina, þó væri ekki nema bara til að berja herlegheitin augum.

Ég komst líka að því að það telst ekki eðlilegt að vera með of stórt hjarta. Maður þarf að vera á spítala og fá meðal. Mig hafði lengi grunað að þetta væri ekki eðlilegt. En létti stórum þegar ég heyrði að þetta væri ekki lífshættulegt - gott að vita að maður getur lifað með of stóru hjarta...