englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Sturta og holubað

Við Sverrir fórum saman í sturtu áðan. Við erum svo heppin að vera með svona semídjúpan sturtubotn og getum því safnað 10-15 cm djúpu vatni í hann og leikið okkur.
Ég verð nú samt að játa að ég er voðalega léleg að leika. Yfirleitt þegar Sverrir biður mig um að koma að leika, spyr ég hvort ég eigi ekki að lesa fyrir hann eða hvort við eigum kannski að spila.

Það er hvorki hægt að lesa né spila í sturtu.
Þannig að við skvettum aðalega vatni á hvort annað og spjöllum saman.

Þetta er reyndar alltaf að verða erfiðara og erfiðara. Barnið heldur sem betur fer áfram að stækka og það er varla pláss fyrir okkur bæði í sturtubotninum lengur.
En við þrjóskumst við.

Eitthvað fannst mér þetta þó vera erfitt áðan, þegar ég var að reyna að standa upp án þess að stíga ofan á barnið mitt. Ég segi við hann að þegar við verðum orðin stærri og kannski flytjum í aðra íbúð, gætum við orðið svo heppin að eignast holubað.
Fatta þó um leið að tímaskyn Sverris er allt annað en mitt og bæti við að það sé nú samt ekki víst að við flytjum fyrr en hann verði unglingur og þá gangi þetta örugglega ekki upp.

Sverrir: Nú? Af hverju?
Jóda: Heldurðu að unglingar vilji fara í bað með mömmum sínum?
Sverrir: Já...það fer eftir því hvað baðið er stórt.

...hvað ég skal koma inn til hans þegar hann er svona 13-14 ára, þegar allir vinir hans eru í heimsókn og rukka hann um þetta...