englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Lærdómur í stofusófanum

Um daginn gerði ég svona plan í skipulagsbókina mína. Skrifaði allt sem ætlaði að gera þann daginn og strikaði svo stolt yfir hvert atriði sem lokið var. Það er eitthvað svo uppbyggjandi að horfa á yfirstrikuð orðin. Fór í skólann, á æfingu, sendi tölvupóst, eldaði mat, klæddi mig og tannburstaði....
Galdurinn við að auka sjálfsálitið - Til að finnast maður vera að gera eitthvað mikið í þessu lífi er að skrifa ALLT sem maður gerir (eða þarf að gera) yfir daginn. Þetta er alveg stórsniðug og virkar vel fyrir mig. Maður verður bara að muna að kíkja annað slagið á listann til að fara ekki út af sporinu.

Eins og í gær....

Í gærkvöldi þurfti ég að klára að greina viðtal og átti að skila greiningarblaði tengdu því, núna í morgun. Þar sem skrifborðið mitt er pínulítið og er þessa stundina fullt af tölvuskjá, fartölvu og öðru "drasli" ákvað ég að fara inn í stofu til að lesa viðtalið.
Ég lærði fullt í gærkvöldi:
- Bráðavaktin: þegar botlanginn springur, minnkar verkurinn og manni líður betur og maður gæti haldið að maður væri læknaður (og því jafnvel sendur heim)
-Óp: nei..sæta fyrrum ungfrú Ísland komin í sjónvarpsþátt og segir "Ássgeir" í stað "ásgeir"...dúllulegt
-Mile High: Shit, hvað þetta eru glataðir þættir..en samt alveg hægt að horfa á þá..gul eiturslanga er soldið flott
-Oprah Winfrey: Richard Gere er með þunnar varir... eða eiginlega ekki með varir. Hvernig ætli henni þarna fyrirsætu hafi fundist að kyssa hann??? J-Lo...Hún virtist hafa fengið of stórt spjald til að hafa yfir augun, þegar hún fór í brunkuklefann. Það var eins og hún væri með hvít skíðagleraugu. Samt óskaplega sæt og viðkunnaleg. Skil alveg þessa stráka að vera að eltast við hana.
-Fólk með Sirrý: Hver er tilgangurinn með því þegar heil fjölskylda kemur í heimsókn í þáttinn og mamman og dóttirin feli sig bak við tjald en pabbinn ekki? Komst að því að sjóarar geta líka grátið, en bara á nokkra ára fresti.
- America's next top Model: Það er alveg magnað hvað smá make up getur gert. Af hverju mála strákar sig ekki? Mér finnst bólur og baugar ekkert klæða stráka betur en stelpur!
- The L word: Veit ekki alveg hvað þessi þáttur á að vera. Virðist vera að reyna að taka á samskiptum lesbía (eða fólks almennt) en til að fólk nenni að horfa á þetta, þá er þetta poppað upp með kossaflensi og samfararsenum stelpnanna. Stelpurnar í þáttunum eru allar mjög sætar og sexy. Það voru strákarnir í sambærilegum hommaþætti alls ekki...ætli það sé tilviljun???

Stærsti lærdómur gærkvöldsins er þó vafalaust: ef þú átt að skila verkefni klukkan átta um morguninn...ekki fara inn í stofu kvöldið áður, til að klára það!!!

...og ef Helga kennari skildi óvart lesa þessi orð, þá eru þau auðvitað uppspuni frá upphafi til enda. Það kom í alvörunni einhver leðurklæddur gaur með hring í nefinu og gaddabelti og stal verkefninu mínu.