englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, nóvember 01, 2004

Hjörtu í heitum pottum

Ég fór í pottinn í gærkvöldi. Það er fátt betra en að láta líða úr sér í heitvolgum potti og horfa á stjörnurnar... og hlusta á fólkið tala.
Þegar ég hugsa til baka, finnst mér eins og ég hafi, bara fyrir nokkrum vikum, setið í sama potti og glott út í annað, vegna samtals nokkurra vinkvenna.
Ég á von á því að í gær hafi það verið ég og vinkona mín sem gældum við nokkur eyrnapör, eins og við blöðruðum. Ástin, lífið og tilveran er jú sígilt umræðuefni.

Ég komst hins vegar að því að maðurinn með skjaldamerkið á bringunni fer í sund á sunnudögum, um kvöldmatarleitið. Það er fátt eins þjóðernislegt og risa tattú af skjaldamerkinu á bringunni (hér myndi passa vel að segja bringunni miðri, en á ekki við - þar sem skjaldamerkið nær yfir alla bringuna). Get ég hiklaust mælt með því að gera sér ferð í laugina, þó væri ekki nema bara til að berja herlegheitin augum.

Ég komst líka að því að það telst ekki eðlilegt að vera með of stórt hjarta. Maður þarf að vera á spítala og fá meðal. Mig hafði lengi grunað að þetta væri ekki eðlilegt. En létti stórum þegar ég heyrði að þetta væri ekki lífshættulegt - gott að vita að maður getur lifað með of stóru hjarta...