Veikindi á sólardegi
Enn og aftur glötuð tímasetning á veikindum. Núna er veðrið allt of gott til að hanga inni. Sverrir var reyndar svo ótrúlega heppinn að vinur hans í næsta húsi er veikur líka og eru þeir búnir að vera svolítið veikir saman.
Þó svo að það sé náttúrulega leiðinlegt að vera veikur, þá er það stundum kærkomið tækifæri til að ræða mikilvæg málefni við aðra fjölskyldumeðlimi (semsagt mig) eins og t.d. hvort sé hætt að sýna súperman í sjónvarpinu og hvort hann hafi náð að fá búninginn áður en þáttaröðinni lauk.
Að það sé til svona "babeblade" dót sem hægt er að geyma tvo babebleida í, svona til hliðar.
Svo er einnig mikilvægt að velta því fyrir sér hvort mögulegt sé að zorrosverðið verði uppselt, þegar veikindin eru afstaðin og hvort það væri kannski í lagi, því á öskudaginn komi til með að rigna sverðum yfir búðarkonurnar í dótabúðinni.
Einnig er mikilvægt fyrir verkfallsbörn að huga að framtíðinni: ef það verður enn verkfall þegar jólin koma, þá verður eiginlega verkfall á jólunum...bara miklu skemmtilegra verkfall.
Fyrir þá sem leiðist að hanga veikir heima, koma hér nokkur atriði sem vel er hægt að nýta sér til dægrastyttingar:
1) Standa á öðrum fæti og láta einhvern telja hvað maður getur staðið lengi. Varast ber að hafa þann aðila of hlutlausan, því betra er að hann telji frekar hratt.
2) Standa beinn og grípa um annan fótinn og reyna að halda jafnvægi á meðan einhver reynir að trufla einbeitinguna.
3) Búa til virki. Helst í stofunni, því ... jahh það er bara best.
4) Taka nesti í virkið. Ath þó að súrar appelsínur eru ekki vel til virkisins fallnar.
5) Taka til... og byggja turna í leiðinni og syngja svolítið með
6) Svo getur maður velt því fyrir sér hvort komi á undan öskudagur, afmælið manns, páskarnir eða jólin.
Þannig að það ætti engum að þurfa að leiðast í veikindum heima hjá sér...
<< Home