englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, október 19, 2004

Sokkalausa álfastelpan

Ég lék mér í fjörunni í dag. Þar sá ég litla áflastelpu. Hún gekk um í fallegum kjól og var berfætt. Ég hugsaði með mér að henni væri líklegast kalt, svona berfættri, og rétti til hennar sokka. Hún sagði að sér gæti ekki orðið kalt. Það logaði eldur þar sem hjartað hennar hafði eitt sinn verið. Eldur sem væri nógu heitur til að ylja öllum sem á vegi hennar yrðu.
Ég fann að hún sagði satt.
Ég hef heyrt margt um álfa, en ekki að þeir geti verið með eld í hjarta stað. Hvað olli þessum eldi?

“Jú” sagði hún. “sjáðu til. Ég brenn af ást. Brenn af ást til alls sem er. Einu sinni gat ég ekki elskað. Lék mér bara í fjörunni og hugsaði um fátt annað en hvaða skemmtun væri undir næsta steini og hvað ég myndi borða í næstu máltíð. Ég gætti mín ekki og var bitin”.

Mér fannst ótrúlegt að eitt bit gæti fengið álfastelpur til að elska og það svona mikið.

“Jú” sagði hún. “sjáðu til. Ég var bitin í hjartað. Fyrst var bara nartað lauslega, þannig að ég hélt að það væri verið að kítla mig. Svo sá ég blóðið."
Ég spurði hana hver gæti eiginlega bitið svona álfastelpu og hún sagði mér að það hefði verið álfastrákur sem hefði búið lengi í sjónum. Einn daginn hefði honum skolað á land og þau hefðu fundið hvort annað - þarna í fjörunni.

Þau elskuðu að vera saman. Leika sér saman - leika sér ekki saman. Bara saman.

"Mér fannst" hélt hún áfram, "eins og það væri verið að gæla við hjartað mitt. Þó ég væri hrædd, kunni ég því ekki illa. Ég leyfði honum að koma við það, hann lofaði ekkert að fara varlega ég bara vonaði að hann myndi gera það. En einn daginn var hann ekki í fjörunni. Ég hljóp fram og til baka, kallaði nafn hans þangað til að það komu eldtungur af vörum mínum og ég kastaði lífinu mínu upp"

Við sátum saman um stund og horfðum út á hafið.

Áður en hún fór, seildist hún í litla skjóðu sem hún bar um hálsinn. Tók hjarta upp úr henni og rétti mér. "Þetta er þung byrði að bera og ónauðsynleg. Ég á ekki þetta hjarta lengur, viltu taka það og geyma þangað til að eigandi þess innir eftir því?"

Þegar hún gekk í burtu frá mér sá ég sárin undir fótum hennar og brunabletti á sálinni. Ég leit á hjartað sem ég hélt á og sá að það vantaði bita í það.

Hvað verður um álfastráka sem borða álfastelpuhjörtu?