Leiðirnar okkar
Turn a different corner and we never would have met.
Af hverju veljum við leiðirnar sem við veljum? Er það af því að við erum að fylgja einhverri fyrirfram ákveðinni slóð sem heitir líf okkar? Eða er þetta hrein tilviljun?
Ég leik mér stundum við að rekja lífsleiðina mína og kemst yfirleitt að því að árið mitt í Reykjaskóla sé örlaga ár fyrir mig (14 ára). Ég sæti líklegast ekki hér ef ég hefði ekki farið þangað. Örugglega ekki farið í MH, ekki kynnst barnsföður mínum, ætti ekki þetta yndislega barn, hefði ekki farið til Frakklands, hefði ekki..hefði ekki...hefði ekki.
Þegar ég er komin á flug með "hefði ekki" setningar, stoppa ég mig af og hugsa "eða hvað?"
Hefði ég kannski samt? Maktub - er það skrifað? Hefðu örlögin ekki bara tekið málin í sínar hendur og fundið leið til að koma syni mínum í heiminn? Hefði ég ekki kynnst fólkinu sem skiptir mig svo miklu máli hvort eð er? Ég veit það ekki, en ég held það.
Í dag stend ég í dyragætt. Ég veit ekki hvort ég á að ganga út úr þessu herbergi sem ég er í, loka hurðinni og opna aðra, eða halda áfram að vera á sama stað. Veit ekki hvað gerist ef ég geng í burtu. Kannski í versta falli breytist eitthvað í lífinu mínu. Ný vídd... Ný viðmið...
Í gær fetaði ég nefninlega leið sem ég veit ekki hvort er holl, góð eða rétt. En ég veit ekki hvort val á leið kemur til með að breyta einhverju með útkomuna. Hvort lífið verði öðruvísi á einn eða annan hátt, ef ég fer aðra leið?
Getur maður litið svo mikið hjá "réttu" leiðunum að þær lokist fyrir rest? Maður vinnur ekki í lottó ef maður spilar ekki með. Maður kynnist ekki undraheimi bókanna með því að skoða kápurnar. Maður þroskast ekki nema maður taki áhættu.
Áhætta
það er málið. Að þora að taka áhættu með sig og tilfinningar sínar, vonir og væntingar. Ef áhættan er ekki tekin, er hætta á að maður festist í sama herbergi til eilífðarnóns. Það getur ekki verið gott.
Líklegast er svarið komið: Ganga út, loka dyrunum og opna aðrar - nýjar. Það sem á að fylgja mér úr öðrum vistarverum, gerir það. Það sem á að koma til mín, gerir það líka, sama hvaða herbergi geymir mig.
<< Home