englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, október 10, 2004

The morning after

Í gær var yndislegur dagur. Fullt af fólki, fullt af kruðeríi, fullt af börnum og fullt af ást og hamingju.
Ég fékk afmælissönginn (eða ég neyddi gesti mína til að syngja). Það voru afmæliskerti á afmæliskökunni (rosa flott gítarkaka) og ég óskaði mér og allt.
Fullt af frábærum gjöfum.
Ég fékk reyndar bara einu sinni að fara til dyra, og það var bara vegna þess að í það skiptið hafði ég forskot á Sverri Pál. Hann var ekki ánægður með þessa framhleypni mína, en lét sig hafa það þegar ég krosslagði hendur og sagði hátt og snjallt: "á ég afmæli eða þú!!!"

Hann var heldur ekkert sérlega ánægður með mig, þegar afmælið var búið og ég sagði honum að fara inn í herbergi til sín og taka til. Honum fannst draslið óyfirstíganlega mikið og að ég (þar sem þetta væri nú mín afmælisveisla) ætti að hjálpa honum.
Eftir töluvert tuð og puð sagði ég sagði honum að ég nenti ekki að tala við svona neikvætt fólk en hann sagðist sko ekkert vera neikvæður. Ég kláraði að vaska upp og hann tók ekki til.

Við náðum þó að sættast áður en hann fór að sofa, borðuðum saman ostaköku með sódavatni og rauðvíni og horfðum á Spaugstofuna. Hvorugt okkar skildi hvað það var í þeim þætti sem átti að vera fyndið. Nú hlýtur að vera kominn tími á þessa gaura!!

Núna þarf ég að fara að undirbúa afmælisveislu númer tvö. Sverrir er nefninlega búin að bjóða vinum sínum í hverfinu í afmæli til mömmu sinnar. Það var reyndar gert með mínu samþykki, en það samþykki var einungis gefið svo þeir færu úr eldhúsglugganum mínum í gær og hættu að slefa í gluggakistuna...

Það er ekki víst að litlu skinnin geri sér grein fyrir því að þeir þurfa að syngja fyrir mig og gefa mér afmælispakka...