englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, október 05, 2004

Skrýtið fólk

Ég var í sundi um daginn. Nei, ég var í pottinum um daginn. Potturinn var fullur af áhugaverðu fólki. Ég veit ekki hvort þetta er bara ég, en mér finnst heiti potturinn í Vesturbæjarlauginni stundum vera samkomustaður skrýtna fólksins í Reykjavík.
Í pottinum var Jón hlaupari, Bjarni á bókasafninu (mig minnir að hann heiti Bjarni, getur þó vel verið að hann heiti eitthvað annað), einhver læknir, pabbi, börn til uppfyllingar og ég.
Lækninum fannst hann ekki vera skrýtinn. Mér fannst reyndar á honum að honum finndist hann vera mjög eðlilegur, og þar með yfir okkur hin hafinn. Hann var eitthvað að spjalla við Jón, eða spyrja hann spurninga og hló svo ofan í bringuna á sér.

Hugsaði með mér að hann hefði sjálfsagt verið þessi hressa týpa í skóla, sem átti það til að gera grín af þeim sem minna máttu sín. Verið alveg rosalega fyndinn á kostnað annara. Svaka fyndið!

Jón hlaupari segir að líffærinn hans séu orðin svo góð af öllum þessum hlaupum að hann verði 150 ára. Læknirinn greinilega þekkti eitthvað til hans, því hann spurði hann hvort hann ætti ekki ennþá bílinn. Jú, jú, hann átti enn bílinn. VOLVO.
En notar hann ekki mikið. Hleypur þangað sem hann getur og tekur svo strætó í hitt.

Þegar læknirinn spurði hann af hverju hann væri að eiga þennan bíl, úr því að hann hreyfði hann ekkert, var Jón ekki sammála því að hann hreyfði hann ekkert, hann færi nú með hann í skoðun á hverju ári. Keyrði hann famm og til baka.

Honum finnst líka gott að taka strætó, ef maður á rauða kortið kostar ferðin 80 krónur. Svo er það miklu öruggara heldur en að keyra í sjálfur. Hann lenti reyndar í árekstri í strætó um daginn. Hann tognaði eitthvað í hálsinum og er hjá sjúkraþjálfara. Verður orðinn fínn eftir 3 vikur.

Bjarni á bókasafninu segir að það sé bara skrýtið fólk sem taki strætó. Skrýtið fólk, börn, ellilífeyrisþegar og nýbúar. Þá byrjar pabbinn í pottinum að tala. Segir að hann hljóti þá að vera skrýtinn, þar sem hann taki alltaf strætó. Segir þetta vera svo þæginlegt fyrirkomulag, les fyrri helminginn af Fréttablaðinu á leiðina í vinnuna og seinni helminginn á leiðinni heim. Tekur hann 20 mínútur að komast úr Grafarvoginum í miðbæinn.
Grafarvoginum!
Hvað var maðurinn að gera í Vesturbæjarlauginni? Er ekki svo voðalega fín laug þarna uppfrá? Hann hefur örugglega komið með strætó alla leiðina hingað..já Bjarni hafði greinilega rétt fyrir sér. Skrýtið fólk sem tekur strætó..svo get ég svarið fyrir það að mér heyrðist ég greina einhvern erlendan hreim í orðræðu hans...