englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

föstudagur, október 01, 2004

mamma mín

Mamma mín er yndisleg kona. Hún er skemmtileg og klár og dugleg og góð og ég veit ekki hvað og hvað. Hún lifir góðu lífi fyrir norðan og vill ekkert flytja suður.

En eins og allir vita, þá fylgir skuggi sólinni.

Mamma mín á dóttur, sem er alveg að verða 32 ára og er ekki gengin út. Það er ekkert auðvelt að vera móðir svona einstaklings. Eins og leikarinn sem leikur Chandler (33) í friends sagði, þá er fátt aumkunarverðara en að vera á lausu á þessum aldri.
Reynið þá að ímynda ykkur hvernig það er fyrir manneskju sem lifir góðu lífi, á mann, börn, stjúpbörn og barnabörn að tengjast svona einstaklingi!

Eðlilega reynir hún að bjarga heiðri fjölskyldunnar og koma dótturinni út. Hún á erfiðara með að sleppa takinu á tímabundnu kærustunum, en dóttirin sjálf. Á milli þess sem hún leitar að "vörpulegum piltum" fyrir dóttur sína, þá segir hún: "þú átt aldrei eftir að ganga út, þú ert svo pikkí" Þetta segir hún að sjálfsögðu í gríni, en djúpt undirniðri má greina ótta sem stigmagnast með hverju árinu sem líður.

Fyrir nokkru síðan bað dóttirin móður sína að hætta að velta sér upp úr þessu og einbeita sér frekar að einhverju öðru - eins og kannski yngri dóttur sinni (hehe) Hefur hún alveg tekið tillit til þessarar óskar, fyrir utan glampan sem kemur í augu hennar þegar barnið missir út úr sér karlmannsnafn - algjörlega án tillits til samhengis.
Voru þær að spjalla saman í dag og barst talið að hagfræðikennaranum ógurlega og segir hún:

mamman: Var það nokkuð kennarinn þinn æi hagfræði sem var i sjónvarpinu í gær, að mig minnir í kastljósi að tala um vexti og hækkun íbúðarverðs í miðbæ Reykjavikur?
dóttirin: nei, hann er skemmtilegur...ég hef setið námskeið hjá honum. Sveitamaður (úr skagafirði) sem búið er að dubba upp í jakkaföt.
mamman: Flottir skagfirðingar í jakkafötum.

svo kemur hér inn samtal sem ekkert er þessu tengt..og spannar nokkrar mínútur.

og svo...

mamman: Er þessi piltur á lausu. Ég bara svona spyr. Þó ég viti að það má alls ekki. Það getur verið svo gaman að gera það sem ekki má. Samanber að nota skrúfjárn fyrir sleikjó og pissa bak við hurð.
dóttirin: hvaða piltur?
mamman: Pilturinn með hagfræðiþekkinguna í jakkafötum úr kaupfélaginu í haganesvík...

Já, eins og ég segi þá er mamma mín yndisleg kona...