englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, október 03, 2004

Lýtalækningar

Hef svolítið verið að velta lýtalækningum og réttmæti þeirra, fyrir mér undanfarið. Þá er ég að sjálfsögðu ekki að tala um hvort réttlætanlegt er að fólk fari í lýtaaðgerð eftir að hafa lent í slysi eða neitt í þá áttina.
Ég er að auðvitað að velta fyrir mér lýtaaðgerðum sem eru framkvæmdar í þeim tilgangi að lækna lýti eins og hrukkur, slöpp eða lítil brjóst, litlar varir, ókúlulaga rassa og svo mætti (því miður) lengi telja.
Maður heyrir alltaf annað slagið um svo ungar stelpur að þær þurfa skriflegt leyfi foreldra, láti fylla í óþroskuð brjóst sín. Ég hef líka heyrt sögur af læknum sem hvetja stelpur til að fá sér stærri silikonpoka en þær ætluðu sér í upphafi, svona úr því að þær væru á annað borð að gera þetta.
Ég hef reynt að passa mig á að dæma ekki konur (þekki enga stráka sem hafa farið í lýtaaðgerð) sem láta flikka upp á sig. Það er ekki mitt að dæma þær, enda hef ég ekki þurft að burðast með hrukkurnar þeirra eða þvottapokabrjóst.

En núna er ég að verða 32 ára

Ég er víst ekkert lambakjöt lengur. Sé það þegar ég lít í spegil. Þar sé ég andlit konu, ekki stelpu. Þessi kona er ekki með hrukkulaust ungbarna andlit, heldur má þar greina vegsummerki ellikellingar.

Ég var að ræða lýtaaðgerðir við vinkonur mínar um daginn
Og ég segi við þær að ég geti hreinlega ekki svarið fyrir það að ég komi aldrei til með að fara í lýtaaðgerð í framtíðinni. Mér finnist það alls ekki eins fjarlægt mér nú og fyrir einhverjum árum síðan. Þeim fannst ekkert athugavert við þessa yfirlýsingu mína, skildu hana reyndar bara mjög vel. Afhverju ekki? Ég meina maður ræður nú sjálfur yfir sér og sínum líkama..HA!!

Í kjölfarið spunnust miklar umræður um lýtaaðgerðir og það fólk sem fer í þær. Hvað Rut liti nú vel út núna, en henni hefði samt ekki tekist að hætta að reykja. Og að þessi og hin hafi látið gera svona og hinseginn. Extreme makeover. O.s.frv. Hvað þetta kosti og hvort það sé þess virði að leggja í kostnaðinn? Við ræddum þetta fram og til baka. Vógum og mátum kosti þess og galla að reyna að líta út eins og 18 ára stelpuskjáta.

Þegar ég hugsa til baka finnst mér ekki verst að hafa rætt þetta við vinkonur mínar. Mér finnst ekkert slæmt að ná að opna mig svona með þetta vandamál mitt. Mér finnst ekkert slæmt að þær skilji að ég gæti kannski mögulega einhverntímann viljað fara í svona aðgerð.

Það sem mér finnst hins vegar sláandi, er að við skulum yfir höfuð vera að velta þessu fyrir okkur. Að við skulum eiga möguleika á að láta strekkja á andlitinu, fylla upp í brjóst og rass, sjúga úr maga og lærum. Mér finnst erfitt að viðurkenna að í heiminum sem ég bý í teljist jafn eðlilegt að fara í fitusog og brjóstastækkanir og að fara til tannlæknis.