englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, október 14, 2004

Litla og stóra frænka

Ég hitti frænku mína í skólanum í dag. Við vorum búnar að standa lengi og spjalla um lífið og tilveruna, þegar hún allt í einu hættir að horfa á mig (hvernig sem hún nú fór að því) og lítur fram fyrir sig og segir: " ég er búin að sjá svo undarlega hluti hérna í skólanum undanfarið".

Ég lít í sömu átt og frænka mín og sé eitthvað undarlegt járn/plast dót á gólfinu og upp úr því standa fjórir járngaurar.
"Hvað er þetta eiginlega?" æpir litla frænka mín
Þar sem ég er nú stóra frænkan, hvíldi mikil ábyrgð á mér að vita hvað þetta fyrirbæri eiginlega væri og var ég ekki í nokkrum vandræðum með að finna það út:
"Þetta er svona nýsköpunardót. það er nýbúin að vera svona keppni og þetta hefur örugglega unnið til verðlauna"

Við göngum að græjunni og skoðum hana nánar. Og stóra alvitra frænkan heldur áfram:
"Jú sjáðu hér, þetta er svona flokkunarvél. Flokkar niður í þessi hólf hérna..."

Ég sá ekki betur en að frænka mín keypti alveg þessa skýringu hjá mér og þætti hún nokkuð skynsamleg. Enda var hún það - skynsamleg.

Svo kemur maður með möppu og gleraugu

Maðurinn gengur að flokkunarvélinni og fer eitthvað að merkja í möppuna sína.
Eitthvað viðist frænka mín hafa fengið bakþanka með nýsköpunarsjóðsflokkunarvélina mína því hún gengur til hans og spyr:
- Átt þú þessa vél?
-Já
- Hvað er þetta?
- Þetta er heilsusælgætis sjálfsali...

(Fljót að hugsa, fljót að hugsa, fljót að hugsa)

"Heh heh trúðir þú mér?...
...flokkunarvél plokkunarvél, auðvitað er þetta sjálfsali, það segir sig nú sjálft"