englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, október 11, 2004

Strákar 2

Ég heyrði einu sinni af manni sem var svo kátur yfir því að konan hans fór í einhverja helgarferð.
Hann hafði fjarstýringuna einn, alla helgina. Það var enginn að skipta sér af stöðvaflakki hans.

Það er töluverð valdabaráttá á mínu heimili. Baráttan snýst um hver stýrir háttatímum. Hver ræður hvað er í matinn. Hver á að taka til. Hver ræður því hvort maður sé í náttfötunum allan daginn og hver ræður yfir fjarstýringunni.

Það var nú bara fyrir rúmu ári sem ég fékk sjónvarp með fjarstýringu. Fram að því hafði ég notast við gæðatæki sem voru framleidd fyrir stríð. Mér sýnist að sambýlismaður minn hafi verið smá stund að átta sig notagildi þessa litla fylgihluts en er búinn að því núna og er óspart að reyna að bæta sér upp þann tíma sem í vaskinn fór.

Þegar hann horfir á sjónvarpið situr hann iðulega með fjarstýringuna í fanginu og skiptir reglulega um stöð. Ef ég er að horfa á sjónvarpið með honum og hef hug á að skipta um stöð, teygir hann "fjarstýringarhendina" eins langt í burtu frá mér og hann getur og segir "á hvaða stöð viltu horfa? Ég skal skipta!"

Nú er svo komið að þegar hann er upptekinn í við að byggja skýjaborgir úr legókubbum eða að drepa ófreskjur, þá stekk ég til og kveiki á sjónvarpinu - í þeirri von um að fá minn eiginn, einka gæðatíma með þarfasta þjóni heimilisins. En viti menn. Það er eins og hann renni á lyktina, því nokkrum mínútum síðar er hann kominn, sestur við hliðina á mér og teygir sig í fjarstýringuna og segir: "má ég sjá hvað er á hinni stöðinni??!!!"