englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, október 20, 2004

Álfastrákur í fjallinu

Ég gekk til fjalla í dag. Mér þótti undarlegt í rokinu og snjókomunni að hitta þar álfastrák. Hann var í fallegum jakka, sem glitraði á. Hann sagði að hann hefði gengið mann fram af manni í fjölskyldu hans.
Ég spurði hann hvort honum væri ekki kalt svona í rokinu og snjókomunni?
Hann sagði svo ekki vera, hann væri nefninlega með bita af svo heitu hjarta í maganum, að það dugaði til að ylja honum og öllu sem á vegi hans yrði.
Ég fann að það var satt.

Ég hef heyrt margt um álfastráka, þeir dansa og syngja og slá upp veislum. En ég hef aldrei heyrt um að þeir séu með heita hjartabita í maganum sínum. Hvernig stóð á því?

“Jú” sagði hann “sjáðu til. Einu sinni átti ég heima í sjónum og kunni því mjög vel. Svo var ég dreginn á land. Það var undurfríð álfastelpa sem veiddi mig í háfinn sinn. Hún sagði mér að við værum vinir og við myndum leika okkur saman”.

Mér fannst ótrúlegt að vinátta gæti fengið álfastráka til að vera með heita hjartabita í maganum.

“Jú” sagði hann “sjáðu til. Við elskuðum að vera saman, gera hluti saman, gera hluti ekki saman. Bara saman. Hún var svo ljúf og svo gott að vera hjá henni og einn daginn sagðist hún vilja sýna mér það dýrmætasta sem hún átti. Til þess þurfti hún hnífinn minn. Hún risti upp húðina á bringunni og opnaði sárið.

Fallegra hjarta hafði ég aldrei séð. Ég lagði kinn mína að því og naut sláttarins. Reglulegar hreyfingar þess minntu á göngulag hennar eftir ströndinni. Ég naut að finna fyrir mýkt þess með tungubroddi mínum. Ég vissi að ég væri ekki þessa hjarta verður. En lá um stund og naut nærverunnar.

Svo hugsaði ég..bara einn bita...hvað getur það skaðað? Hún á svo mikið. Með þessu hjarta getur hún elskað allt sem er. Einn biti dugar mér.
En ástarhjörtu meltast ekki í maganum. Hlutinn kallar á heildina".

Svo tók hann hnífinn sinn, risti upp á sér magann og rétti mér heitan hjartabita og sagði: “Ég tók þetta í leyfisleysi. Það sem ekki er gefið af frjálsum vilja leitar heim. Ég á ekki þetta hjartabrot, viltu taka það og geyma þangað til eigandi þess innir eftir því?”

Þegar hann gekk í burtu sá ég að ísnálar höfðu læst sig í hjarta hans og sálin hans var kalin. Rauð tár runnu úr hjartabitanum í lófa mínum.

Hvað verður um álfastráka sem ekki þora að elska álfastelpur?