englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

laugardagur, október 23, 2004

Hamingjusama hóran er til

Mörgum eflaust til mikillar gleði virðist það hafa komið í ljós, að ekki nóg með að hamingjusama hóran sé til, heldur sé hún íslensk.
Sú kenning að konur sem selja líkama sinn séu einungis kynferðislega óseðjandi villidýr, sem lifi annars mjög heilbrigðu og eðlilegu lífi, fær byr undir báða vængi við lestur viðtals við eina slíka í Fréttablaðinu í dag.

Hún er kennari á daginn og vændiskona á kvöldin. Hún reyndar viðurkennir að það sem hafi rakið hana út í vændi hafi verið neyð. Enda er hún menntaður grunnskólakennari. Hins vegar segist hún að sögn vera "kynlífsfíkill af verstu sort og hafa verið óþekk í mörg ár ... Ég virka saklaus og jafnvel tepruleg. Margir halda eflaust að ég sé enn hrein mey".

Hún er hin fullkomna blanda af hinni heilögu konu og þeirri léttlyndu. Þó hún sé óseðjandi í rúminu, þá er hún svo hjartahlý að hún þorir ekki að koma sér upp föstum viðskiptavinahópi, af ótta við að bindast þeim of sterkum tilfinningaböndum.
Hún er fagmanneskja fram í fingurgóma því hún kyssir mennina og sýnir þeim blíðuhót. Og segir "ef ég sleppti innileikanum gæti ég allt eins verið á klukkunni, en ég legg áherslu á að bæði ég og kúnninn gleymum því á hvaða forsendum við erum saman í kynmökum."

Og svo er hún líka tiltölulega ódýr, sem hlýtur að teljast kostur fyrir gifta menn sem þurfa að fela þennan kostnaðarlið heimilsrekstursins fyrir eiginkonunni.

Allir sáttir og kátir og ekki síst hamingjusama hóran sem nær að halda sér á floti í verkfallinu og vel það...