englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Að sofa saman á bókasafninu

Ég hef alltaf verið svolítið hrifin af bókasöfnum. Þegar ég var á ástarsöguskeiðinu mínu (11 ára) fór ég reglulega á Borgarbókasafnið á Þingholtsstræti og fyllti pokann minn af ástarsögum. Þetta voru skemmtilegar ferðir, þar sem ég tók mér alltaf góðan tíma í að rölta um húsið og skoða allar bækurnar. Strjúka þeim og finna lyktina. Ég man eftir að hafa skoðað útlensku bækurnar, sem voru ekki svona harðar (semsagt kiljur) og hugsað með mér að einn daginn myndi ég geta lesið svona bækur - og fannst mikið til þeirra drauma komið.

Áður en ég fór heim, vel byrg af ástarsögum, settist ég hjá gömlu köllunum á pallinum og las teiknimyndasögur á meðan þeir flettu blöðunum. Þetta voru góðar stundir.

Þegar ég var í menntaskóla var ég svo mikið á bókasafninu að ef guðmóðir mín, sem ég bjó hjá á þeim tíma, þurfti að ná í mig hringdi hún á safnið og bókasafnskonan kom og náði í mig í símann.

Mér finnst bókasöfn enn vera góðir staðir og sæki mikið í þau. Reyndar hringir guðmóðir mín sjaldan í mig og ég er ekki viss um að allt starfsfólkið viti hvað ég heiti (amk ekki fullu nafni)

Hvað er svona gott við bókasöfn?
Það er eitthvað svo róandi andrúmsloft á bókasöfnum. Svo afslappað.
Ég fór á bókasafnið í gær. Fann fullt af greinum til að lesa og settist í hægindastól (eða heitir það lesstóll?) og hafðist handa. Smám saman fór afslappaða andrúmsloftið að segja til sín og augnlokin þyngdust. Ég barðist hetjulega, stóð upp og lét renna ískalt vatn á hendur og háls, fetti mig og bretti en allt kom fyrir ekki.
Um það leiti sem ég lokaði augunum, hugsaði ég með mér að ég gæti líklegast allt eins lagt mig í smá stund og lesið svo af fullum krafti þegar ég vaknaði aftur.

Ég veit ekki alveg hvað ég svaf lengi en þegar ég vaknaði sat við hliðina á mér undurfalleg stúlka og skælbrosti hún til mín.
Ég brosti vandræðalega á móti, enda ekki vön að vakna hjá svona sætum stelpum og spurði hana hvort ég hafi nokkuð hrotið.
"Bara smá" sagði hún hughreystandi"og svo er hann líka sofandi" bætti hún við og bendir á strák hinum meginn við mig.
"jahh" hugsa ég með mér..."sofa saman á bókasafninu og vita hvorugt af því...passa þetta!!!!"

******************************************************

Sverrir fór loksins í skólann aftur. Honum fannst mjög gaman, en sagði að þetta hefði verið eitthvað voðalega skrýtinn skóladagur. Ég var eitthvað að reyna að veiða upp úr honum hvað hann ætti við en í fljótu bragði gat hann ekki bent á undarlegheitinn.

Ég spurði hann hvort hann hefði ekki verið að læra. Jú, hann var að læra, en þetta var samt eitthvað svo skrýtið..það var allt einhvernveginn öðruvísi. Ég var alvarlega farinn að velta því fyrir mér að hringja í kennarann hans og reyna að komast að því hvort hún væri með einhvern verkfallsáróður. Spurning hvort ég ætti ekki bara að taka hann úr skólanum, ég get alveg kennt honum sjálf...
Á meðan ég er að leita að símanúmeri kennarans, geri ég lokatilraun með Sverri:
- hvað var svona skrýtið? Hvað gerðuð þið eiginlega?
- Sko þetta var svo skrýtið mamma, það var allt svo öðruvísi. Það voru fyrst fríminútur og svo var morgunhressingin. En áður en verkfallið byrjaði var hressingin fyrst og svo fríminútur!!!

Já, það er vandlifað í þessari veröld..ég segi nú ekki annað.