englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, nóvember 15, 2004

Æ mig auma

Mikið sem ég hef mikla samúð með þessum blessuðu kennurum.
Mér finnst það bara vera allt í lagi að krakkaófétin séu send heim úr skólanum. Ég meina, þau eru hvort sem er ekkert að læra. Hugsa bara um fríminútur og morgunhressingar.
Hvaða máli skiptir að krakkarnir sannfærist um að það sé ömurlegt í skóla, þegar það er hvort sem er ömurlegt þar? Kennarar líkja börnunum við fisk, sem úldnar í verkfallinu - og kannski er það mjög nærri lagi. Í það minnsta er sonur minn nú fullsannfærður um að skóli sé ömurlegur, það sé miklu betra í verkfalli. Kannski er þetta fyrirbæri úrsérgengið? Kannski er bara málið að fara aftur til fortíðar og láta ömmurnar og afana um þetta?

En það er eitt sem ég er að velta fyrir mér.

Samkvæmt mínum kokkabókum, þá fer ákveðið áminningarkerfi í gang þegar opinberir starfsmenn brjóta af sér..nema þegar þeir gerast brotlegir í starfi. Þá er tafarlaus brottvísun réttmæt.
Bíðum nú við, hvað er ég að segja? Brotlegir í starfi..hafa kennarar gerst brotlegir í starfi? Jú, einmitt! Nákvæmlega það sem þeir hafa gert!

Ég verð að segja fyrir mitt leiti að þó ég vilji auðvitað að kennarar sem sjá um að mennta barnið mitt, séu fullir réttlætiskennd og gefist ekki upp þó að móti blási, þá er ég ekki alveg viss um að ég vilji að þeir kenni honum að það sé í lagi að brjóta lög til þess að ná sínu fram!!!

Ég er ráðþrota, pirruð og afskaplega gröm.