englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Geispandi - blæðandi

Ég fór alveg svakalega snemma að sofa í gær vegna þess að dagurinn í dag var svo pakkaður af verkefnum sem ég þurfti að vera vel hvíld fyrir. Áður en ég fór upp í rúm, tók ég mikilvæga ákvörðun: það er fyrir löngu síðan kominn tími á að snúa dýnunni við og ég nenni því ekki. Ákvað að héðan í frá ætti ég ekki endann, heldur miðjuna. Fór upp í rúm um ellefu leitið og stillti klukkuna á sex. Þetta var algjört ævintýri, nýr háttartími á nýjum svefnstað

Klukkan tólf vaknaði ég við það að maðurinn á hæðinni fyrir ofan mig kveikti á útvarpinu. Mér fannst ég alveg vera búin a sofa nóg en hugsaði með mér að það væri ekki kominn tími á morgunmat og tróð því eyrnatöppum í eyrað og náði að festa svefn.

Ó fyrirgefið sagði ég festa. Það er nú orðum aukið - ég blundaði til sex. Það var ekki nágranni minn sem náði að halda fyrir mér vöku, heldur voru það hugsanir mínar. Hvað ætti ég að spyrja um í viðtölunum sem ég var að fara að taka á morgun. Hvernig ætli námskeiðið verði sem ég er að fara að sitja? Ætti ég að tala við fólkið eða?? Í hverju á ég að fara (nei, þessi spurning kom ekki, því ég var löngu búin að ákveða í hverju ég ætlaði)

Klukkan sex byrjaði síminn minn að gala. Ég hugsaði með mér hvað þetta væri nú undarlegur tími til fótferða. Til hvers að fá sér morgunmat þegar Fréttablaðið er ekki komið í hús? Ég átti sem betur fer helminginn af blaði gærdagsins eftir og myndirnar í þeim helming dugðu mér vel.

Námskeiðið byrjaði kl níu og vildi ég fyrir alla muni vera viss um að koma ekki of seint og hafði ég því ráðgert að leggja af stað ekki mikið seinna en rúmlega átta - ég var nú að fara alla leiðina upp á Engjateig og maður veit aldrei með umferðina á þessum tíma....

Allt til. Dótið komið ofan í tösku, spólurnar (fyrir viðtöl dagsins)... diktafónninn...shit hann virkar ekki. Diktafónninn er dáinn og hann dó einn og yfirgefin. Hvar reddar maður diktafóni klukkan átta á þriðjudagsmorgni? Hvergi!!! Bíma mig í Elkó í fríminútunum. Ég gróf upp vísakortið (sem ég var næstum því búin að gleyma hvar var, vegna minnar alþekktu sparsemi) og hljóp inn á bað til að snýta mér fyrir brottför.
Blóðnasir!!! Frábært! Og ég að verða of sein. Hélt á tímabili að mér myndi blæða út, en náði að stoppa fossinn og hlóp út í bíl. Alveg sú öruggasta í umferðinni: Á sumardekkjum, eineygð, með ónýtt rúðupiss og á Volvo. En ég komst á leiðarenda.
Mætti allra fyrst, kennarinn var ekki einu sinni kominn í hús. Allt læst og ég þurfi að bíða í tæpan hálftíma.

Ég var voðalega dugleg á námskeiðinu, sat og hlustaði og skoðaði og skannaði vel og vandlega. Náði að halda geispum mjög hljóðlátum og sofnaði ekkert. Algjört afrek. Ég var dugleg að brosa og mynda kontakt við fólkið á námskeiðinu.
Þegar kom að morgunhressingu fór ég á klósettið og sá þá í speglinum að ég var með stóra blóðklessu á nefinu!
Ef ég fæ einhver viðtöl út úr þessari ferð, verður það bara af tómri vorkunsemi í minn garð...