englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Kaffivagninn

Sat á kaffivagninum í dag. Ég get ekki sagt að ég komi reglulega þangað. Ég á samt mínar minningar frá þeim ágæta stað.
Man eftir þvi að hafa komið hingað með pabba og drukkið malt og borðað Prins póló. Seinna kom ég og drakk kaffi og reykti fullt af sígarettum. Í dag drakk ég bara kaffi.

Það er skemmtilegur þverskurður af samfélaginu þarna inni. Trillukallar í bland við konur sem borða smörrebröd. Inn á milli eru svo afar með barnabörnunum sínum.
Það var eitt svoleiðis “sett” á næsta borði við mig. Hún svona rúmlega tvítug og hann afskaplega góðlegur. Það var svo fallegt að finna fyrir kærleikanum á milli þeirra. Þau spjölluðu um heima og geima. Um fjölskyldumyndirnar í stofunni, um hvað stelpan drekkur marga kaffibolla á dag í bakaríinu og hvað malt er hollt. “Svo mikil næring í því” segir afinn.

Þau tala lítillega um jólin og afinn segir henni að mamma hennar og systir hafi átt hvíta trefla, þegar þær voru litlar, eins og hún er sjálf með um hálsinn. Mamman er dáin. Stelpan segist verða ómöguleg ef það líða meira en tveir dagar á milli þess sem hún heyrir í honum. Hún ætlar að gefa honum mynd af sér í jólagjöf. Hann á örugglega eftir að setja hana upp á vegg inní stofu.

Á öðru borði sitja tveir eldri menn og sá þriðji gengur til þeirra og segir:
-Er þetta ekki Lilli?
Lilli: Jú
- Ég ætlaði ekki að þekkja þig, þú ert orðinn svo feitur. Hefur þú nokkuð séð hann Guðmund Jónasson hérna?
Lilli: Jahh..hann var hérna rétt áðan, kannski er hann í kassanum. Hver ert þú?
- Mannstu ekki eftir mér? Frissi.
Lilli: Frissi? Ertu kominn með nýjar tennur?

Frissi og Lilli spjalla lítillega um hvað þeim þykir plokkfiskur góður en nenna ekki að elda hann og Frissi fer.

Tíu mínútum síðar gengur maður inn og heilsar Lilla.

Lilli: Blessaður Guðmundur, hann Frissi var hérna að leita að þér rétt áðan. Hann ætlaði nú ekki að þekkja mig, sagði að ég væri orðinn svo feitur. Hann er bara með bölvaða ístru sjálfur. Og svo var hann með einhverja húfu, alveg eins og bóndadurgur.

... málið er dautt og talið berst að einhverjum furðufiskum og hvort hægt sé að éta þá...

Ég var búin að sitja í meira en klukkustund og varð að horfast í augu við að deitið mitt væri ekki að koma, stóð upp og þakkaði fyrir mig.