englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, nóvember 22, 2004

Ég get svo gvuðslifandisvariðfyrirða

Ég fór á Kaffivagninn áðan og ef ég hefði ekki verið búin að skipta um föt, hefði ég haldið að ég hefði ekkert farið.

Lilli sat á sínum stað við sama "annan mann" og Guðmundur Jónasson var með þeim. Frissi var reyndar fjarri góðu gamni.
Afinn og barnabarnið voru þarna líka, hún með sama laxabrauðið en hann kominn í pönnsur í stað kleinunnar.

Nýjir gaurar voru á borðinu "mínu" sem þekktu Lilla og Guðmund (þessi nafnlausi er mjög gamall, talar voðalega lítið og hefur ekki komið fram hvað hann heitir - en hann er svona Halldórslegur)

Ég er í smá vandræðum. Hingað til hefur því verið haldið fram að það séu fyrst og fremst ungar konur og unglingsstúlkur sem eru uppteknar af því hvað þær eru feitar...En...
Guðmundur Jónasson gengur fram hjá þessum kunningjum sínum og heyri ég hann segja:
- já finnst ykkur ég ekki vera orðinn mjór?? Ég er orðinn 95 kg, var sko 112 kg skal ég segja ykkur. Svo útskýrir hann fyrir þeim hvaða aðferð hann notaði til að grenna sig og þeir hlusta á með miklum áhuga.

Mér finnst þetta skemmtilegar samræður- á svona stað - á milli karlmanna - sem eru sjálfsagt komnir hátt á sjötugsaldurinn.

-------------------------------------------------------------------------------

Sverrir var í dansi í skólanum og fékk gat á hausinn.
Skurðurinn er frekar djúpur og vildi ég endilega komast að því hvort hann hafi nú ekki verið að gera eitthvað sniðugt sem olli þessu sári, svona til að gera það þess virði.

Jóda: varstu að dansa við einhverja sæta og skemmtilega stelpu í dansi?
Sverrir: já, ég var að dansa við Söndru og svo var frjálst - þá má maður dansa eins og maður vill.
Jóda: Og fórstu þá alveg á flug?
Sverrir: Já, ég ætlaði að renna mér undir borðið...en ég gerði það ekki...

(hann komst semsagt ekki undir borðið, heldur lenti ennið á borðbrúninni með þeim afleiðingum að hann stöðvaðist - þó ekki fyrr en hann var kominn hálfur inn í borðið..eða ætti ég að segja borðið hálft inn í hann?)

Jóda: Er þetta ekkert sárt?
Sverrir: Nei....ekki nema þegar ég ropa!

Lærdómur: ef þú færð borðplötu inn í ennið á þér er mjög gott að forðast að ropa.