englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, nóvember 22, 2004

Uppgjöf

Ég gafst upp. Það er kominn vetur og ég get ekki með góðu móti verið á sumardekkjum lengur. Eins og sönnum hetjum sæmir, þá verð ég að taka einhvern með mér í fallinu og eftir nokkra umhugsun ákvað ég að veðurfræðingar fengju að detta með mér.
Þeir voru búnir að lofa að það kæmi rigning um helgina. Ég var farin að hlakka rosalega til...en allt kom fyrir ekki.
Jæja, maður verður bara að sætta sig við að það er til fólk sem segir ekki alltaf satt.

Ég fór semsagt og náði í nagladekkin mín í gærkvöldi og skellti mér til strákanna á dekkjaverkstæðinu þarna (hvað það nú heitir) rétt hjá Ægissíðunni. Þetta er alveg svona "til strákanna" þvílíkt stuð sem var hjá þeim. Það var lítið að gera þegar ég kom, þannig að þeir voru 5 undir einum bíl að skoða - leit allt nokkuð vel út skildist mér.

Ég fékk 3 af þessum 5 yfir til mín.

Ég náði að vera þarna í uþb 10 mínútur og kom út angandi eins og ég hafi verið á skemmtistað í 3 tíma...það var einn kall þarna sem sagði mér að þeir reyktu sko allir nema hann, þeir væru ekki búnir að fatta að reykingar væru ekki hollar, heldur mjög óhollar.
Reykleysi sínu til áherslu rak hann andlitið sitt framan í mitt og bað mig um að skoða vel hvað hann væri með fína húð - en ekki hinir.
Ég ákvað að taka orð hans trúanleg og vera ekkert að fara í einhvern rannsóknarleiðangur um svæðið til að skoða húð strákanna.

Nú er ég "loksins" komin á nagla og er til í næstum hvað sem er. Og þrátt fyrir marga góða kosti nagladekkja þá er það skemmtilegasta af öllu við þau vafalaust lætin sem þau framleiða. Hávaðinn er svo gífurlegur að maður heyrir ekkert í pústinu.
Sem flokkast óumdeilanlega undir kost...