englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, nóvember 29, 2004

Vandamál í Úkraínu

Eins og flestir hafa tekið eftir þá er mikið um að vera í Úkraínu þessa dagana. Ásakanir um kosningasvik og ég veit ekki hvað og hvað. Mér sýnist á öllu að þetta séu tveir heimar sem takast á: “vonda” Rússland og hinn “góði, frábæri, æðislegi” vestræni heimur. Þessi heimur sem hefur búið til menn eins og Bush eldri og yngri og einhverja fleiri til. Jæja nóg um það.

Ég hef séð til fólksins í fréttunum með appelsínugulu borðana sína að mótmæla. Það bara mótmælir og mótmælir. Allan sólarhringinn. Þegar ég horfði á þetta, hugsaði ég með mér að þetta væri bara eiginlega alveg eins og Íslendingar að mótmæla kennaraverkfallinu.

Sverrir hefur ekki verið síður spenntur að fylgjast með þessu. Hann hefur setið límdur fyrir framan fréttirnar og reynt að sjá Rúslönu. En án árangurs. Maður veit náttúrulega ekkert í hvaða liði hún er.

Eitthvað var verið að tala um það í gær að Janúkóvits vilji fá að skipta landinu upp, ef hann tapi í þessum kosningum, því hann vill fá að ráða einhverju. Þær hugmyndir hafa ekki fengið góðar viðtökur og er það vel skiljanlegt.

Ég vona nú að þetta mál fái farsælan endi og það sem allra fyrst. Því ef þetta dregst á langinn þá getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, ekki bara fyrir Úkraínu heldur Evrópu alla. Hvað verður um Eurovision ef landinu verður skipt í tvennt?