englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Jólatré

Þegar ég kom heim úr sundi áðan voru þessi skilaboð á msn-inu hjá mér:

Garún says:
hæ hæ
Garún says:
langar að varpa fram einni alveg voða fínni spurningu
Garún says:
á að fara og höggva sér jólatré fyrir þessi jól í einhverjum voða fínum dal??? (ólöf sagði mér frá því að þú hefðir einhvern tímann farið með VR??)
Garún says:
langar bara að gera eitthvað svoleiðis með MM þessi fyrstu jól okkar og kannski þú lumir á einhverjum svona upplýsingum
Garún says:
hihihi
Garún says:
heyri í þér við tækifæri og gangi þér nú voða vel að lesa og lesa og lesa og lesa
Garún says:
bæjó

Jú jú ég hef nefninlega farið í einhvern voða fínan dal til að höggva tré með syni mínum. Og það er sko saga að segja frá því. Ég man nú ekki alveg hvaða dalurinn heitir en hann er lengst, lengst inní Hvalfirði.

Við mæðginin lögðum af stað eldsnemma einhvern laugardagsmorguninn, í kolniða myrkri og grenjandi rigningu. Ég er nú ekki vön að keyra svona úti á landi, þannig að ég fór mér hægt en komst þó fyrir rest á áfangastað.
Það var enn mígandi rigning og eiginlega langt frá því að vera jólalegt en nóg var nú af trjánum til að höggva (eða saga). Þegar við stóðum upp úr bílnum sáum við að hálft landið hafði ákveðið að koma þennan morgun og finna sér tré. Fullt af rútum og enn fleiri bílar voru þarna á bílastæðinu.
Við létum það ekki á okkur fá og örkuðum af stað ásamt vinnufélögum mínum og börnum þeirra. Ég verandi þessi ofursamviskusama mamma, hafði klætt Sverri vel og vandlega en...gleymt mér..

Ég varð fljótlega rennandi blaut á því að troðast inn á milli trjánna, ekkert tré var nógu fallegt..við sverrir vorum kominn lengst í burtu frá öllum og ég hugsaði með mér að við myndum sjálfsagt aldrei rata aftur í til fólksins en snögglega hurfu þær áhyggjur á braut.

Við fundum fallegasta tré í heimi

Alveg eins og í öllum góðum ævintýrum stóð tréð eitt úti á miðju túni. Fallegt, alveg mátulega stórt og fura. Við söguðum tréð og eltum brauðmolana til baka.
Eftir að hafa staðið við varðeldinn og reynt að þurrka mig og borðað piparkökur ákváðum við að koma okkur í bæinn.

Ég var svo gegnblaut að ég hugsaði með mér að ef ég keyrði heim í þessum fötum, myndi ég enda með því að fá lungnabólgu. Þannig að ég fór út úlpunni og buxunum. Hugsaði með mér þegar ég var að fara út buxunum að það gæti nú orðið áhugavert ef ég yrði stoppuð af löggunni á peysunni og í fjólubláum g-streng.
En þegar ég ætlaði að keyra út af bílastæðinu, sem var ómalbikað, haggaðist ég ekki. Rigningin hafði breytt ómalbikuðu bílaplaninu í moldarsvað og eftir því sem ég reyndi frekar að losa mig, þeim mun fastari varð ég.

Það bankar einhver á rúðuna hjá mér og ég gríp í eitthvað til að hylja lærin mín (og þennan fjólubláa) og opna rúðuna lítillega. Það var sem betur fer maður sem ég kannaðist við og ég bað hann um að hjálpa mér og hvíslaði að honum að ég gæti eigilega ekki komið út, þar sem ég væri sko á brókinni.
Hann byrjaði að ýta, ekkert gerðist - það kom annar maður og hjálpaði til (og ég alltaf inní bílnum) en ekkert gerðist. Þriðji maðurinn kom og reyndi að ýta, en eftir að hann og allir hinir voru orðnir drullugir upp yfir haus sagðist hann ætla að sækja jeppann.

Hann kom svo á risastóra jeppanum sínum, með stóran stóran kaðal og byrjaði að reyna að draga mig upp. Fyrir rest tókst það og veifaði honum í þakkarskyni. Og alltaf sat ég í bílnum.
Á brókinni.

Þegar ég kom heim ótrúlega hamingjusöm með fallegasta jólatré í heimi og algjörlega lungnabólgulaus og hafði alveg sloppið við lögguna, sá ég auglýsingu frá einhverri jólatréssölu að trén hjá þeim voru meira en helmingi ódýrari en þetta sem ég hafði hætt lífi mínu og limum fyrir.