englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, júní 29, 2005

Kona og bíll

Mér hefur aldrei fundist neitt sérstaklega gaman að keyra bíl. Finnst eiginlega klæða mig betur að sitja í farþegasætinu og fylgjast með umhverfinu. Þrátt fyrir að ég hafi aldrei lent í umferðaróhappi (fyrir utan eina smá utaníkeyrslu á Akureyri í denn) á ég það til að vera pínu utan við mig í akstri. Það er bara svo mikið sem ég þarf að sjá í umhverfinu...allt þetta fólk, allir þessir bílar, skýin, blómin, sólin, sjórinn osfrv osfrv.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig standi á því að ég hafi lent í starfi sem yfirleiðbeinandi Vinnuskóla Reykjavíkur. Í þessu starfi er ég akandi um Reykjavík allan daginn. Ég elska vinnuna mína, en ég er elska bara ekki að keyra. ´

Á veturna keyri ég um á forlátum bláum Volvo 740 GL, '87 módeli með því virðulega númeri R 76. Síðastliðin sumur hef ég keyrt um á fjólublárri dollu, sem reyndar er kraftmeiri en Volvoinn, en samt dolla.

Ég hef aldrei fengið gagnrýni um að ég sé vondur bílstjóri, meira svona verið að gera grín að látunum í Volvonum en ekki beint að mér sem bílstjóra...amk ekki fram að þessu. Þegar ég kom á skrifstofu Vinnuskólans í dag, búin að vera á fartinu allan daginn tók ég eftir því að það var búið að festa aftan á fjólubláu dolluna svona grænt merki sem á stóð ÆFINGARAKSTUR...Ég hef ekki hugmynd um hvað ég var búin að aka lengi um götur Reykjavíkur með þetta græna viðhengi á bílnum...já það er gaman að þessu.

Blár Volvo og fjólublá dolla

englar og heilagt fólk


Ég vissi það! Það var eitthvað öðruvísi við mig...

þriðjudagur, júní 28, 2005

Vinátta

Þegar ég leit í augun þín
og sá ekkert nema reiði og sjálfselsku
lagði ég niður vopnin
þessi barátta var ekki þess virði að berjast

ekki misskilja mig
ég er þakklát fyrir að þú hafir orðið á vegi mínum
þú hefur kennt mér að stundum þarf ég að velja vini mína betur

mánudagur, júní 27, 2005

Örlagafléttur

Ég hef svo lengi sem ég man trúað því að flest í lífinu hafi tilgang. Fólk sem ég kynnist, hlutir sem gerast og bækur sem ég les og svo mætti lengi telja, koma þegar upp er staðið (eða niður lagst) til með að mynda eina skiljanlega heild.

Ég er leitandi. Ég leitast eftir því að verða betri manneskja. Finna frið og ró í sálinni. Hið fullkomna æskilega jafnvægi vogarinnar. Endatakmarkinu er engin leið að ná, amk ekki í þessu lífi. Ég hins vegar set mér minni markmið og stundum á ég litla sigra og næ þeim markmiðum.

Ég trúi á guð. Ég les ekki eina bók og segi að það séu mín trúarbrögð. Ég trúi á æðri mátt. Þessi máttur er í mér og þér. Ég trúi því að mér sé sýndur vegur, eða leið sem ég get farið og þar muni ég finna tilgang minn og jafnvægi. Það bara undir mér að opna augun og sjá.

Í síðustu viku var ég leidd á fund konu sem ég tel að komi til með að hafa áhrif á líf mitt. Þegar ég tók í hendina á henni og horfði í augu hennar fann ég frið í hjartanu. Eftir að hafa hlustað á hana og fylgst með henni fann ég hvernig ég snéri við á hliðarveginum sem ég hef verið á um stund og komst aftur á rétta slóð. Þeirri manneskju sem varð þess valdandi að ég fór á þennan fund, kann ég miklar þakkir og vona að ég geti goldið í líku - þó síðar verði.

sunnudagur, júní 26, 2005

Gamall maður frá Reykjavík

Ég keyrði mann heim til sín um daginn. Guðjón býr í þjónustuíbúð í Laugardalnum og húkkaði far hjá mér í vesturbænum. Hann hafði fengið sér göngutúr út á lager Vinnuskólans og borðað svo mikið af köku þar, að hann missti af vagninum. Það er það eina sem hann gerir, að ganga. Guðjón gengur vestur í bæ, stundum í Elliðaárdalnum og svo er það að sjálfsögðu Laugardalurinn.
Ég er pínulítið montin af Laugardalnum, og fæ seint leið á að dásama fegurð hans. Guðjón samsinnti mér og sagði að Laugardalurinn væri fullkominn, fyrir utan eitt sem mætti vel laga: Það mætti skjóta nokkrar gæsir þar. Ég hugsaði með mér að ég þekkti líklegast nokkra sem væru til í að taka það verkefni að sér.

Guðjóni finnst eins og fólk gangi ekki eins mikið og það gerði áður fyrr. Að minnst kosti á þeim tíma sem hann er að ganga, svona á morgnanna. Ég spurði hann hvort hann vaknaði eldsnemma á morgnanna, eins og algengt er með fólk á hans aldri. En hann sagði að það væri nú ekki vandamálið hjá honum. Hans vandamál snýst um að sofna á kvöldin. Hann sofnar yfirleitt ekki fyrr en klukkan 5 á morgnanna og sefur alveg til hálf níu.

Ég hugsaði nú með mér að það væri naumast hvað hann svæfi langt frameftir, greinilega algjört letiblóð.

Þegar hann var ungur átti hann heima þar sem núna eru krossgötur Miklubrautar og Háaleitisbrautar, þar sem bílskúrarnir standa. Það var svona smábýli, með geitum og hænsnum. Þar sem Suðurlandsbraut og Kringlumýrarbraut skerast var stærra býli. Það var mikill sóðaskapur þar og runnu hlandtaumarnir frá býlinu niður í læk sem var þarna.

Hann er fæddur og uppalinn í Reykjavík, en konan hans er hins vegar að vestan. Hann segir alltaf við hana að það sé ekki hægt að búa með henni heilan vetur í bænum án þess að fara með hana í eina ferð vestur um sumarið. Hann segir þetta við hana í góðlátlegu gríni, en leggur samt áherslu á að maður komist ekki hjá uppruna sínum. Þrátt fyrir að ég segi við hann að ég sé ekki lengur Dalvíkingur í hjartanu, er hann ekki alveg sannfærður.

Kannski hefur hann rétt fyrir sér.

Þegar heim var komið bað hann mig um að koma með sér, það væri svolítið sem hann þurfti að sýna mér. Við gengum örlítið frá bílastæðinu - en svo staðnæmist hann við grasblett sem hafði fengið að vaxa og dafna í allt of langan tíma. Guðjón segir mér að þetta tilheyri ekki þeirra lóð og hvort ég gæti fengið einhvern frá borginni til að slá þetta?

Til að gera gamlan mann glaðan og vinna vinnuna mína, gekk ég í málið og skellti geitum úr Húsdýragarðinum á blettinn.

fimmtudagur, júní 23, 2005

Allur er varinn góður

Þetta er svona álíka og þegar stendur á klámsíðum internetsins: þessi síða er aðeins fyrir 18 ára og eldri. Ef þú ert yngri en 18 vinsamlegast farðu af síðunni.


Samþykki Skref 4 af 7


Ég staðfesti hér með að ég er bæði andlega og líkamlega fær um að ljúka viðkomandi vegalengd sem ég skrái mig í. Ég leysi því hér með framkvæmdaraðila Reykjavíkur maraþons undan allri ábyrgð á tjóni, meiðslum eða veikindum sem ég gæti orðið fyrir í viðkomandi hlaupi.

Já, ég samþykki


Ég vona bara að ég sé með raunhæft mat á sjálfa mig...amk í þessu.

miðvikudagur, júní 22, 2005

Elska ég - elska ég ekki?

Ég veit ekki hvort að hér sé komið svar við sígildu spruningunni "elska ég eða ekki?"
Held í það minnsta að þetta fari með mann nálægt svarinu.
Snilld, verð að segja það!

þriðjudagur, júní 21, 2005

Af salernisferðum

Þrátt fyrir að oft sé litið á hlaupara sem undarlegt afsprengi mannskepnunnar, þá þurfa þeir að losa sig við lífrænan úrgang eins og aðrar manneskjur. Stundum getur þetta verið til vandræða
Ég hef sem betur fer ekki mikla reynslu af þessum málum, en viðurkenni þó að hafa eitt sinn þakkað kærlega fyrir sundlaug Seltjarnarness og þá salernisaðstöðu sem þeir hafa uppá að bjóða.

Síðasta klukkutímann fyrir hlaup pissa ég amk 5 sinnum. Ég var að ræða þetta við félaga minn um daginn og barst talið að maraþonhlaupum í útlöndum, þar sem margir margir margir eru að keppa. Ef maður er kominn á góðan stað við rásmarkið, er maður ekkert að skokka í burtu ef þörf er á að kasta vatni. Sú leið sem farin er er eftirfarandi: setjast á hækjur sér (amk ef maður er kvenkyns, veit ekki alveg hvernig strákarnir gera þetta) draga klofbótina á stuttbuxunum til hliðar (svona eins og maður gerði í sundi í gamla daga) og pissa. Þegar því er lokið er klofbótinni sleppt og rétt úr fótleggjum.

Ég frétti af myndbandsbroti. Því miður hef ég ekki séð þetta myndbrot, en það er af manni sem er að taka þátt í maraþon hlaupi. Honum varð brátt í brók en ákvað að gefa sér ekki tíma til að hlaupa bak við skúr eða inn á næstu bensínstöð, þess í stað skellti hann hendinni ofan í buxurnar og greip kaupa og skellti honum út í kant.

Svo ég haldi mig við þetta málefni, þá finnst mér merkilegt hvað salernisvenjur eru mismunandi hjá fólki. Ég á eina yndislega vinkonu sem á það til að segja við mann "komdu með mér að kúka" Aðrir vilja fá að vera í friði við þessi verk. Ég hef aldrei skilið hvernig fólk getur setið á klósettinu og lesið blöðin og jafnvel heilu bækurnar.

Sonur minn er ekki á sama máli og ég.

Þegar hann gerir sér ferð á klósettið er eins og hann sé að fara í tveggja daga ferð út á land. Græjan er tekinn inn, diskur við hæfi er valinn, Legoblöð eða eitthvað álíka vel valinn (2-3 stk). Stundum fá einhverjir kallar að fljóta með. Svo er hurðinni lokað.
Í góðri ferð getur hann dvalið þarna inni í allt að 30 - 45 mínútur.

Um daginn hélt ég að hann væri að lesa 1001 nótt, svo langan tíma tók ferðin. Það er búið að ala mig svo vel upp að ég fer ekki inn nema á mig sé kallað. Þetta er heilög stund Sverris með sjálfum sér. Þess í stað sat ég í stofunni og velti fyrir mér hvort hann ætlaði að setja persónulegt met í klósettsetu. Þá heyri ég allt í einu stunið "loksins"... ekki þörf á að grípa hann með lófanum á þeim bænum.

Já, ekki er öll vitleysan eins...

mánudagur, júní 20, 2005

Breytingar

Hef stundum velt því fyrir mér hvort ég þjáist að einhverskonar framkvæmdarkvíða. Ég get verið voðalega stund að koma mér að því að gera hluti sem taka svo óskaplega stutta stund í framkvæmd. Svona eins og með að hringja í Halldóru í bankanum. Ég hef stundum dregið það von úr viti að bjalla í hana, eða kíkja til hennar, svona til að fara yfir stöðuna og endurskipuleggja fjármálin. Svo loksins þegar ég læt verða að því, segir hún: einn, tveir og bingó. Og málið er dautt.

Ég er búin að vera að daðra við hlaupahóp sem hleypur út frá Vesturbæjarlauginni. Ég hef aðeins sprett úr spori með þeim og tekið þátt í einu hlaupi í þeirra nafni. Ég var ekki alveg að finna mig, fannst ekki alveg vera nógu mikið stuð og ef satt skal segja, þá vantaði stelpur. Það voru þó tveir menn sem héldu hópnum saman og voru duglegir að hvetja fólk að mæta á æfingar.
Glöggir taka væntanlega eftir því að ég skrifa síðustu setningu í þátíð. Jú, mikil ósköp. Í síðustu viku kom kveðjubréf frá þeim, þar sem þeir tilkynntu að þeir væru farnir að hlaupa með öðrum hópi.

Þá fór ég að velta fyrir tryggð og einhverju ámóta fyrirbæri. Ég var búin að velta því fyrir mér að hafa samband við annan hlaupahóp og ath hvort ekki væri vit fyrir mig að mæta þar til leiks. En einhverra hluta vegna fannst mér ég ekki geta svikið þessa "hlaupafélaga mína" og setti hinn hópinn því á bið og hljóp frekar ein.

Já, svona er maður skrítinn.

Fór nýja leið í dag, amk að hluta til. Fann að brekkurnar í sveitinni hafa skilað sínu. Ég var spræk og er að bæta mig. Þó er ég ekki enn búin að fjárfesta í klukku, þannig að ég nota meira svona tilfinninguna á tímann. En hraðinn og krafturinn er augljóslega að aukast. Hugsa að ég fari bara að setja mig í samband við þessa ágætu konu sem mér var bent á að tala við.

Fékk annað bréf um daginn og það var frá Halldóru í bankanum.

Stoð mín og stytta undanfarin ár. Ég man enn eftir þegar hún afgreiddi mig í fyrsta skipti. Hún var sko ekki eins og hún Gréta, forveri hennar. Halldóra skildi mig ekki og ég var svo viðkvæm að ég fór að gráta. Að grenja í banka er eitthvað voðalega off... sérílagi ef það er bara vegna stöðu í tíðarhring. Ég vildi bara frá Grétu aftur, en það var ekki hægt.

Við vorum hins vegar fljótar að "finna hvor aðra" og í öllu þessu bankabrölti, hefur hún verið eina ástæðan fyrir því að ég hef haldið tryggð við Landsbankann.

En svo bregðast krosstré sem önnur. Halldóra sendi mér kveðjubréf þar sem hún tilkynnti mér að hún væri að hætta sem þjónustufulltrúinn minn. Svo sendi hún mér mynd af nýja þjónustufulltrúanum mínum, henni Láru. Ég veit það ekki, þá má svosem vel vera að hún Lára sé besta skinn, en hún jafnast nú örugglega ekki á við hana Halldóru mína. Ætli ég verði ekki að kíkja í kaffi til hennar og sjá hvað hún segir.

Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið öryggislaus og veit ekki alveg hvað ég á að gera...hvað ef hún er bara leiðinleg og nennir ekkert að slúðra?

sunnudagur, júní 19, 2005

Gaman

Snilldarhelgi hreint út sagt. Við Silla brunuðum út úr bænum með börnin og tjölduðum á Flúðum. Það er ekki oft á Íslandi sem hægt er að spranga um á bikiní, en það var sko hægt á Flúðum. Við upplifðum okkur örítið utangátta þar sem við vorum ekki með fellihýsi og ekki tjaldvagn, heldur 35 ára gamallt appelsínugult tjald frá Seglagerðinni...en sáum fljótlega að það var bara töff.

Ég ákvað að nota tækifærið og hlaupa um í sveitinni. Það er eitthvað alveg sérstakt við að hlaupa um á sveitavegum, horfa á náttúruna og hlusta á fuglana, í stað þess að hlaupa á þartilgerðum vegum í bænum. Ég upplifði mig pínulítið eins og smaladreng - ekki mikið - bara smá. Var nefninlega ekki í gúmístígvélum.

Gullfoss og Geysir teknir með stæl og mjög nákvæm úttekt gerð á verslunum þessara staða. Vinningurinn fer án nokkurs efa til Gullfossbúðarinnar, þar sem seldar voru peysur úr "blönduðu efni" með myndum af hestum og kindum og lundum. (Ein dýrategund á hverri peysu) Kostar aðeins 12.900 krónur. Sama og gefið.

Eitthvað virðast rassarnir vera litlir þarna í sveitinni. Klósettseturnar pössuðu enganveginn fyrir mig. Ég hef fram að þessu ekki talið að ég væri með stóran afturenda, en verð líklegast að endurskoða hugmynd mína um þessi mál. Kannski sveitastaðlar séu eitthvað frábrugnir borgarsöðlum? Auðvitað er líklegt að rassarnir séu ekki eins stórir á Flúðum og annarsstaðar á landinu, þar sem mikið af grænmeti er framleitt þar og fólk líklegt til að borða slatta af því (auðvitað á kostnað hins óholla)

Talandi um óhollt. Klúðruðum Útlagaferð. Hef einu sinni farið á þann "ágæta" bar, fyrir nokkrum árum og verð að viðurkenna að fyrir manneskju sem finnst leiðinlegt að fara út á lífið án þess að dansa, þá höfðaði Útlaginn ekki beint til mín. Þá er nú Áslákur betri. Við stöllur áttum því nokkuð auðvelt með að halda í okkur, fengum okkar kikk úr því að hanga í sjoppunni og fylgjast með unglingum staðarins stíga sín fyrstu spor í drykkju og daðri. Merkileg sjón.

Svo byrjaði að rigna...og rigna...og rigna...

Þetta var frekar hressandi, en það get ég sagt þar sem ég þarf ekki að tjalda ferlíkinu aftur til að þurrka það. Við höfum það nefninlega ekki eins gott og maðurinn sem hrýtur eins og risa traktor, hann og frúin eru nefninlega með svo fínan bílskúr að þau bara tjalda tjaldvagninum þar, þegar heim er komið, og láta hann þorna. Lítið mál.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Spurning dagsins.

- Mamma!
- Já?
- Þegar þú ert búin í sturtu, viltu þá dansa við mig vals?

þriðjudagur, júní 14, 2005

Ég eins og ég er eða hvað?

Ég hef áður varað lesendur mína við að lesa ekki of mikið í orð mín. Þó frásagnir og orðræður séu í fyrstu persónu, er ekki þar með sagt að þær séu komnar beint frá mér sem persónu..ég meina "ég-ið" í orðunum er ekki endilega Jóda sjálf.
Langi sleði heldur að ég og sápuópera þurfum mann með stór eyru, góða sál og vöxt.

Ég get auðvitað ekki svarað fyrir sápuóperuna, en hvað mig varðar, þá er í mér lítið gen sem hægt væri að kalla skáldagen. Ég elska að segja frá. Stundum tek ég stein og bý til fjall úr honum. Stundum tek ég hins vegar fjall og bý til sand. Svo er ég stundum með stein og segi frá honum.
Ef ég les eitthvað út úr fólki, skynja tilfinningu eða eitthvað í þá áttina, gæti ég búið til sögu sem er sögð í fyrstu persónu. Ég gæti sagt frá blæðandi hjarta, en það þarf ekki að vera að mitt hjarta blæði. Ég gæti fjallað um leit, en verið sjálf með góða yfirsýn yfir allt mitt stöff. Ég gæti sagt frá ástinni en verið sjálf afhuga henni. Vissulega tala ég stundum beint frá hjartanu, en ekki alltaf. Ýkjur auka skilning...eins og einhversstaðar er skrifað.

Mér hefur alltaf fundist það vera það skemmtilega við skáldskap. Maður tekur eitthvað úr sínu lífi, sínu umhverfi eða umhverfi annarra og spinnur í kringum það.


Ég er því miður ekki nógu sterk og þroskuð manneskja til að geta sagt allt sem ég hugsa og haft kommentakerfi. Og við nánari umhugsun hef ég ekki þörf til að tjá mig um það hvernig ég er í raun og veru. Hvað persónuleg mál varðar, hugsa ég að ég segi bara frá þeim hlutum sem ég veit fyrirfram að ég get tekið neikvæðri gagnrýni um...jákvæð gagnrýni er svo auðmelt að ekkert mál er að taki við henni hvenær sem er.

Ég vona að lesendur séu mér sammála þegar ég segi að tilgangurinn helgi meðalið - þar sem tilgangurinn er að skrifa orð sem kannski verða lesin og þeirra notið...eða ekki. Og meðalið þá frásagnir í fyrstu persónu eintölu, sem ekki eru allar frásagnir af Jódu og hennar raunverulega sjálfi.

Goggi Grautur


Nú kann Jóda að blogga með myndum. Beware :D
Og að búa til linka Vííííiiiii
W

mánudagur, júní 13, 2005

Sundbækur

Var í sundi um daginn. Sá konu sem var að lesa í bók í pottinum. Þessi kona vakti athygli mína, þar sem hún var jú í fyrsta lagi með bók í sundi, en einnig leit hún út fyrir að koma beint frá Biblíubeltinu. Nokkuð amerísk í útliti, stórgerð...nei tölvert feit...með einhverskonar prince valiant klippingu og RISASTÓR gleraugu í svörtum sundbol. Mér datt strax í hug að hún væri að lesa einhverskonar trúarlegan texta. Hugsaði með mér að hún væri kannski Votti...

Bókin virtist ekki alveg halda athyglinni hennar, ég sá hana aldrei fletta og hún var alveg í blábyrjun bókarinnar. Þess í stað hallaði hún bókinni að sér og fylgdist með mannlífinu í lauginni. Ég virtist hafa meiri áhyggjur en hún af því að bókin var ekki vatnsheld. Þegar ég fór í laugina var hún búin að leggja bókina frá sér og horfði nú bara á fólkið.

Eftir að hafa buslað örlítið í lauginni var komið að því að hita sig upp í pottinum að nýju. Enn situr konan í pottinum, nú búin að sækja bókina aftur en hafði ekki náð að opna hana. Þess í stað situr hún með hana og snýr framhliðinni út í pottinn svo titill hennar blasir við öllum sem vilja sjá og skilja ensku: Map for lost lovers

Ég veit ekki, en mér leið eins og ég væri í faldri myndavél...

sunnudagur, júní 12, 2005

Sjáðu

Ef þú hefðir áhuga á að vita hvernig mér líður í hjartanu, þá myndi ég segja þér það. Ég myndi segja þér hvað mig dreymir þegar ég horfi á bjartan himininn - ég myndi líka segja þér hvað mig dreymir þegar ég ligg undir sænginni.
Ef þú hefðir áhuga á að vita að mig langar til að ferðast til framandi landa og hlúa að fólkinu, þá myndi ég segja þér það. Ég myndi segja þér að mig langaði til að vinna að hagsmunum fátækra en að friðurinn í sálinni minni kæmi þegar þú ert hjá mér.
Ég myndi segja þér að ég þoli ekki silfurskottur en elska fiðrildi. Ef þú myndir spyrja hvernig ég sæi framtíðina, myndi ég segja þér að leyndi draumurinn minn væri að við næðum að stilla strengi okkar saman og spila sama lag. Ég myndi segja þér að mér finnst ostar góðir en samt ekki geitaostur. Ég myndi segja þér að mig langar til að læra að dansa og sé enn eftir því að hafa ekki farið í ballet þegar ég var lítil. Ég myndi segja þér að mig langar til að geta flogið og galdrað.
Ef þú hefðir áhuga á að vita hvernig ég er inní mér, myndi ég reyna að sýna þér það. Ég myndi sýna þér rjóman en líka mysuna og gullið og grjótið...

En þú hefur víst ekki áhuga

Sunnudagar

VOG 23. september - 22. október
Eitthvað kemur voginni ánægjulega á óvart í dag. Hún er á réttum stað á réttum tíma og segir það sem við á við rétta fólkið. Að því leyti hefur hún heppnina með sér í dag.

Hvað er málið með að koma með svona stjörnuspá á sunnudegi? Sá dagur sem líklegastur er til í að fara í einhveru og íhugun...

laugardagur, júní 11, 2005

Skór

Anna er að ganga til nýju skóna sína.
Ég fékk líka nýja skó - í dag.
Þegar ég mátaði þá, fékk ég tár í augn og fiðrildin í maganum mínum flugu æst í hringi. Þeir eru bláir með bandi yfir ristina og viðarlituðum meðal háum hæl. Ég held ég sé ástfangin - amk mjög skotin og ég held að það sé gagnkvæmt.

Er þetta búið hjá okkur?

Það eru margar spaugilegar hliðar á okkur íslendingum. Við erum sérlunduð þjóð og förum okkar eigin leiðir. Eða höfum gert það hingað til. Ég hef glott út í annað yfir nýjungagirni okkar og þvermóðsku osfrv.

Af einu hef ég hins vegar alltaf verið mjög stolt yfir og það er stéttaskiptingarleysið hér. Auðvitað er skipting (og á svo sannarlega eftir að ræða hana betur seinna) en þó svo að gunna eigi meiri peninga en jón, þá er hún ekkert merkilegri fyrir vikið.
Þó svo að Davíð Oddson hafi sett heimsmet (miðað við höfðatölu) í setu í forsætisráðherrastól, þá verslar hann í sömu Bónus búð og ég.
Þó svo að Ólafur Ragnar Grímsson hafi búið til fyrsta barnið (verður útskýrt seinna) þá fer hann samt á Árbæjarsafnið til að horfa á Brúðuleikhús.

Hins vegar, kannski með aukinni stéttarskiptingu - ég skal ekki segja - hefur þetta viðhorf breyst.

það er allt að verða vitlaust á Íslandi vegna "ýmsa sögusagna" um dvöl Beckham hjónanna á landinu. Svo ég vitni í málgagnið "Í leit Fréttablaðsins að David Beckham vakti athygli að flest hótel sem haft var samband við fóru í mikla vörn og vildu ekkert tjá sig um málið. Urðu nokkur fyrirtæki ansi íbyggin og þykir það benda til að eitthvað búi undir"

Enn vitna ég í Fréttablaðið: Margir vilja þó meina að sagan um komu Beckhams sé aðeins til að hylma yfir komu ennþá frægara fólks. Hverjar stjörnurnar eru skal þó ósagt látið"

Svo er fólk að velta því fyrir sér hvort samband Tom Cruse og hennar þarna hvað hún nú heitir sé auglýsingabrella!!!

En ef þetta er allt plat og David og Viktoría eru bara einhversstaðar annarsstaðar, þá þurfum við ekki endilega að gefa upp alla von: "...er ljóst að eitthvert frægt fólk muni gista á Hótel Búðum um helgina þó starfmenn hótelsins hafi verið ófáanlegir til að gefa upp nöfn þeirra"

Allt samfélagið virðist vera að velta þessu fyrir sér en "staðfestu" fregnirnar virðast vera eins áreiðanlega og sannanir um tilvist geimvera.

Ég velti því fyrir mér hvort við séum alveg að tapa okkur?

Er bara miklu skemmtilegra að hlaupa upp á fjöll og eltast við álfa og tröll?

fimmtudagur, júní 09, 2005

Enn um átök

Ég er í nokkur ár búin að eiga í samskiptum við manneskju sem er vön að fá sínu fram. Yfirleitt kemur okkur nokkuð vel saman. En þegar við lendum í því að vera ósammála þá endar það yfirleitt með því að ég gefst upp. Þegar ég er harðákveðin í því að gefast ekki upp, þá segir hún ræðum það á morgun, heyri í þér á eftir, tölum um þetta seinna....

Nýjasta nýtt:
Þegar ég er búin að berjast hetjulegri baráttu og vikið mér fimlega undan öllum "á morgun - á eftir - seinna" frösunum og er orðin úrvinda og andlaus og við það að bresta...skiptir hún út og lætur aðra - full ferska - manneskju hringja í mig og halda uppteknum hætti.

Ég þarf greinilega að fara að safna fleiri einstaklingum í liðið mitt...

miðvikudagur, júní 08, 2005

Stjórnun

Ég er í nokkur ár búin að eiga í samskiptum við manneskju sem er vön að fá sínu fram. Samskipti okkar hafa gengið svona upp og ofan, en þó aðallega vel. Við höfum það mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta að við reynum að halda okkur á mottunni.
Þegar ég segi að þessi manneskja sé vön að fá sínu fram, þá meina ég það sem ég segi. Auðvitað getur hún ekki stýrt veðri og vindum en öllu öðru reynir hún að stýra í sína átt.

Þegar það kemur fyrir að við erum ekki sammála, þá fer oft mikil leiðinleg og neikvæð orka út í buskann. Ég verð þreytt og pirruð og enda á því að gefast upp. Fyrir rest, en alls ekki strax. Þetta er svona svipað og með hárblásarann, snúran hættir ekki að vera flækt og ef ég vil halda áfram að þurrka á mér hárið verð ég hreinlega að leysa flækjuna.
Þegar við erum ósammála um eitthvað og ég harðákveðin í að gefast ekki upp í þetta skiptið, láta ekki undan minni sannfæringu, segir hún: "Tala við þig um þetta seinna" "Ræðum þetta á morgun" "Sjáum til" osfrv osfrv...

Þetta er stjórnunartæki sem ég veit að er notað á mig og algjörlega án míns samþykkis. Ég verð alveg óskaplega pirruð og reið og langar mest til að öskra, bíta og slá..en það eru þessir sameiginlegu hagsmunir sem koma í veg fyrir að ég geri það - og það veit hún!

Þess í stað fer ég í heitt bað og hlúi að því sem skiptir máli.

mánudagur, júní 06, 2005

hlaup

HHH sendi mér þetta um daginn á kommenti...álfastelpur og gefins álfahjörtu og allt það.
Hann sagði að þegar ég yrði eldri og hætti að hlaupa svona hratt, þá næði hann mér...málið er að mér finnst ég bara alls ekki hlaupa nógu hratt.

Kassar

Maður er ekki maður með mönnum nema maður hafi markmiðssetninguna á hreinu. Mikilvægt er að vita hvert maður stefnir í lífinu almennt en einnig í litlu verkefnunum. Hvað ætlar þú að fá út úr náminu? Hverju stefnir þú að í hlaupunum? Hvað heldur þú að þessi strákur hafi að gefa þér? Hvað ætlar þú að eiga marga peninga í bankanum eftir 5 ár? En 10? Ertu nógu markviss í tengslanetamyndun? Ætlar þú í pólitík? Hvað hvernig hversvegna hver og hvert?

Stundum finnst mér þetta gott og stundum ekki. Auðvitað er gott að vera markviss í því sem maður gerir. En það grípur mig stundum alveg óstjórnleg hræðsla við kassa. Ég þrífst ekki í boxum. Ég man eftir því að hafa undrast markvissar áætlanir vinkvenna minna um brúðkaup og barneignir. Ég man reyndar bara eftir einu tilviki þar sem ég hugsaði "jú, mig langar til að giftast" En annars fannst mér venjulega bara kjánalegt að láta sig dreyma um eitthvað svona.

Hvað er svo málið með að læra ensku og bókmenntafræði? Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ekki hefði verið ágætt að hugsa aðeins inn í kassann og velt því upp hvað ég ætlaði að gera að lokinni BA gráðu? Ekki bara: "ohh ég ætla bara að gera það sem mér finnst gaman, ég gæti dáið á morgun"

Kannski var bara gott að ég gerði þetta? Ég held það reyndar.

Ég held að þessi leið sem ég fór, hvort sem hún var valin meðvituð eða var farin algjörlega af tilviljun, hafi gert mig af þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég held að þessi lífsleið sem ég fór, hafi gert mig - kannski á löngum tíma - tilbúna til að setja mér markmið.

Kannski var ég í hræðslu minni við kassana, föst í mínu eigin boxi. Dauðhrædd við það sem var fyrir utan?

sunnudagur, júní 05, 2005

Sólin og fólkið í henni...

Helgin mín er búin að vera yndisleg að næstum því öllu leiti. Ég er búin að baka, synda, leika, sofa, dansa, syngja og ég veit ekki hvað og hvað. Það er þó eitt með þessa helgi, hún hefur vakið upp mun fleiri spurningar en hún hefur svarað. Ég verð að viðurkenna að mér finnst óskaplega erfitt að fá spurningar í kollinn sem ekki nein svör koma við.

Allt þetta fólk og allt þetta sem fylgir öllu þessu fólki!
Hvað á maður að gera við það?

Eftir skemmtilega dansæfingu gekk ég heim og naut þess að fylgjast með öllu fólkinu borða pylsur og glennti andiltið í átt til sólar...

...Þegar ég er orðin stór ætla ég alltaf að vakna klukkan sex og njóta lífsins sem er rétt að byrja að anda á þeim tíma.
Að labba úti á þessum tíma, er ekki bara sérstakt, heldur pínulítið eins og það sé ekki þessa heims...

föstudagur, júní 03, 2005

Nöfn og nafnavitleysa

Eins og svo margir aðrir fórum við mæðginin í sund í sólinni í dag. Mér finnst voðalega gott að fara í sund, en lendi alltaf í smá krísu þegar við förum tvö saman í sund. Málið er að ég nenni ekki að leika. Nei, það er ekki alveg rétt. Ég nenni alveg að leika. Mér finnst gaman að kafa og standa á höndum og láta mig fljóta og svona. Mér finnst ekki gaman að slást, hvorki við son minn, né vatnaskrímsli og ófreskjur.
Í dag var ég heppin. Þegar var búin að láta leka úr mér í pottinum og var komin í laugina, til að fara að slást, tilkynnti Sverrir mér að hann hefði fundið vin vinar síns. Ég sá að þeir náðu ágætlega saman og sagðist vera farin í pottinn aftur. Þar lá ég í klukkutíma.
Þegar komið var að heimferðarstund, kvöddust vinirnir nýju innilega.

Jóda: Var gaman hjá ykkur?
Sverrir: Jahá, alveg ótrúlega gaman. Ég náði að kynnast honum mjög vel.
Jóda: Já, hvað heitir hann?
Sverrir: uuu...ég náði því ekki alveg...

Nöfn skipta ekki alltaf máli, amk ekki fyrir sambýlismanninn ljúfa. Það tók hann til dæmis nokkrar vikur að muna hvað fyrsta kærastan hans hét. Gleymdi alltaf að spyrja hana.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Ok nú verð ég að fara að læra

Your Amazing Yoda Sex Line


"Ahhh! Yoda's little friend you seek!"


Rugluðust þeir ekki eitthvað?

Ég átti nú frekar von á því að vera Yoda...undarlegt





Star Wars Horoscope for Libra




You are on a lifelong pursuit of justice and determined to succeed.
You convey the art of persuasion through force.
You always display your supreme intelligence.
You have a great talent in obtaining balance between yourself and your surroundings.

Star wars character you are most like: Obi Wan Kenobie

miðvikudagur, júní 01, 2005

pásan er...

Þegar ég talaði um pásu um daginn..ætli ég hafi ekki verið að meina að ég ætlaði í hana núna?

Fyrir þá sem hafa áhuga, þá eru komin ný íslensk jarðarber í verslanir. Og þau eru langt frá því að vera vond. Þau eru eiginlega bara góð!

Talandi um að vera góður. Það er til svo mikið af góðu fólki í heiminum að ég skil ekki að hann nái ekki að fara jafn mjúkum höndum um alla.

Hér er allt á fullu, á öllum vígstöðvum.