Ég hef verið að velta fyrir mér konum og körlum undanfarna daga. Munurinn á kynjunum er áhugavert umhugsunarefni (og umræðuefni).
Auðvitað er kynferði, munur kynjanna, jafnrétti og málefni því tengd, alltaf nálæg manni. Maður kemst nú ekki hjá því í því þessu samfélagi sem maður býr í.
Í umræðunni um jafnrétti er vinsælt að leggja áherslu á að kynin séu hreinlega ekki eins og ekki hægt að koma fram við þau sem slík. Þetta er óumdeilanlega rétt. Guðisélof leyfi ég mér nú bara að segja. Málið er því miður bara ekki svona einfalt.
Þrátt fyrir mikla trú mína á hið góða í samfélaginu okkar, hef ég þurft að horfast í augu við að, því miður, er nokkuð langt í jafnan rétt og tækifæri kvenna og karla. Umræður um jafrétti hafa stundum minnt mig á köttinn og heita grautinn. Sjálf hef ég staðið mig að því að leika köttinn, kannski af ómeðvitaðri hræðslu við að verða stimpluð "kvenremba" eða "rauðsokka" og það ofan á það vera grænmetisæta er stór stimpill að bera...
Vissulega hafa hlutirnir breyst í gegnum tíðina. Fæðingarorlof er gott dæmi um þróun í rétta átt. Ef ég man rétt þá var móður minni úthlutað þremur vikum í fæðingarorlof þegar ég fæddist. Í dag ... jahh flestir vita nú hvernig það er. Þetta er stór áfangi í jafréttisbaráttunni, en mér sýnist að enn sé langt í land. Einhverjir feður taka sitt orlof út, aðrir ekki. Því miður hefur það gleymst í þessum frábæru breytingum á fæðingarorlofinu, að til eru konur sem kallast einstæðar mæður, sem ekki njóta góðs af þessum breytingum - hreinlega af því að faðirinn er fjarverandi.
En það er önnur saga.
Eitt af því sem stendur í mér, er hvernig við horfum á fólk úti í samfélaginu. Við horfum á það, af því að það skiptir okkur máli hvernig það lítur út. Þegar að útlitspælingum kemur, er langt frá því að vera jafnrétti. Þó svo að ekki séu gerðar kröfur til kvenna í dag um að þær séu í dragt og háum hælum, þá komast þær sjaldan upp með að greiða bara svefnflókann úr hárinu og þvo sér í framan, áður en haldið er til vinnu. "nei, ég er ekki máluð í vinnunni, set bara á mig maskara, púður, kinnalit og varsalva" er setning sem ég hef heyrt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. En auðvitað er þetta ekki algilt.
Má vel vera að við komumst áfram á gáfum okkar og hæfileikum. Við getum jafnvel einhverntímann vonast til þess að fá greidd sömu laun og strákarnir, fyrir sömu störf - að "umsjónarmaður deildar" skili jafn miklu í launaumslagið og "deildarstjóri".
Öll umræða um þessi málefni er góð og nauðsynlegt að það slettist annað slagið upp úr grautarpottinum. Það sem ég hræðist er það sem ekki er talað um - það sem jafnvel er ekki tekið eftir. Það sem er tekið sem gott og gilt af samfélagsþegnunum og því ekki hróflað við.
Í dag hlustaði ég á nemendafyrirlestur í skólanum. Hópurinn sem stóð að honum var að gera grein fyrir tveimur fræðimönnum. Karli og konu. Án þess að ég tíundi efni fyrirlestursins, þá virtist karlinn (Taylor) vera nokkuð klipptur og skorinn. Með sterkar skoðanir. Umdeildur fræðimaður, jafnvel af sínum fylgjendum. Svolítill nagli gat ég mér til um eftir kynninguna.
Þegar að konunni (Follett) kom var hins vegar efst á blaði (glæru) eftirfarandi klausa : "Heillandi, beinaber piparmey frá Boston með hversdagslegt útlit"
Óskaplega líður mér vel að vita að þessi fræðimaður var ógift beinaber kona. Verra er að vita ekki hvernig hann Taylor leit út eða hvort hann hafi átt konu..eða jafnvel verið samkynhneigður...