Uppgjör
Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið hvað mig langi til að gera með þetta blogg. Ég finnað ég hef ekki tíma til að skrifa þessa löngu pistla á hverjum degi, og mig langar ekki til að vera með blogg þar sem ég segi hvað ég hafi verið að gera þann daginn og hinn.
Í upphafi ferðar þá ætlaði ég líka að vera mjög heiðarleg og opin en ég finn líka að ég á erfitt með það. Ég er ekki tilbúin til þess að fólk viti nákvæmleg hvað taugarnar mínar eru að upplifa og hverjum hjartað mitt blæðir. Þannig að ég er að hugsa um að hætta.
Þó áður en ég hætti eru nokkrar færslur sem mig langar til að koma frá mér. Kannski nokkrar hreinskilnar færslur um taugarnar og hjartað og allt þetta blóð.
Ég hitti og heyrði í vini mínum í gær. Þessi vinur er mér kærari en orð fá lýst. Það fann ég best þegar ég hitti hann og tók utan um hann. Við höfum ekki hist mikið síðustu mánuði, hvort sem það er sökum anna eða bara vegna lífsins og var ég farin að hafa áhyggjur af því að taugin sem var á milli okkar hafi verið úr candy flossi. Virkað þykk og falleg en svo um leið og fyrstu rigningardroparnir falla á hana leystst upp og hlaupið í kekki. Var farin að halda að það sem við áttum hafi kannski verið lítil loftbóla og ekki meir.
Svo hittumst við í gær og ég hefði getað grátið ég var svo glöð. Við erum enn þarna. Við getum enn talað um allt milli himins og jarðar og okkur þykir alveg jafn vænt um hvort annað og áður.
Ég stóð mig að því að miða elskhuga minn við hann. Sem er náttúrulega ekki réttlátt, hvorki fyrir vininn né elskhugann. En hver segir að lífið sé réttlátt.
Ég sá fljótlega að ég mætti ekki fara út í þennan samanburð. Ef ég héldi því til streitu myndi ég aldrei finna neinn sem væri nógu góður, því fáir standast samanburðinn.
Ég er þakklát fyrir margt í lífi mínu. Ég er þakklát fyrir að hafa verið svo gæfusöm að eignast þennan vin. Hann gerir mig að betri manneskju.