englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

föstudagur, desember 31, 2004

Uppgjör

Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið hvað mig langi til að gera með þetta blogg. Ég finnað ég hef ekki tíma til að skrifa þessa löngu pistla á hverjum degi, og mig langar ekki til að vera með blogg þar sem ég segi hvað ég hafi verið að gera þann daginn og hinn.

Í upphafi ferðar þá ætlaði ég líka að vera mjög heiðarleg og opin en ég finn líka að ég á erfitt með það. Ég er ekki tilbúin til þess að fólk viti nákvæmleg hvað taugarnar mínar eru að upplifa og hverjum hjartað mitt blæðir. Þannig að ég er að hugsa um að hætta.

Þó áður en ég hætti eru nokkrar færslur sem mig langar til að koma frá mér. Kannski nokkrar hreinskilnar færslur um taugarnar og hjartað og allt þetta blóð.

Ég hitti og heyrði í vini mínum í gær. Þessi vinur er mér kærari en orð fá lýst. Það fann ég best þegar ég hitti hann og tók utan um hann. Við höfum ekki hist mikið síðustu mánuði, hvort sem það er sökum anna eða bara vegna lífsins og var ég farin að hafa áhyggjur af því að taugin sem var á milli okkar hafi verið úr candy flossi. Virkað þykk og falleg en svo um leið og fyrstu rigningardroparnir falla á hana leystst upp og hlaupið í kekki. Var farin að halda að það sem við áttum hafi kannski verið lítil loftbóla og ekki meir.

Svo hittumst við í gær og ég hefði getað grátið ég var svo glöð. Við erum enn þarna. Við getum enn talað um allt milli himins og jarðar og okkur þykir alveg jafn vænt um hvort annað og áður.

Ég stóð mig að því að miða elskhuga minn við hann. Sem er náttúrulega ekki réttlátt, hvorki fyrir vininn né elskhugann. En hver segir að lífið sé réttlátt.

Ég sá fljótlega að ég mætti ekki fara út í þennan samanburð. Ef ég héldi því til streitu myndi ég aldrei finna neinn sem væri nógu góður, því fáir standast samanburðinn.

Ég er þakklát fyrir margt í lífi mínu. Ég er þakklát fyrir að hafa verið svo gæfusöm að eignast þennan vin. Hann gerir mig að betri manneskju.

miðvikudagur, desember 29, 2004

Áramót

Ok þá er það næsta spurning:
hvað ætlar fólk að gera á gamlárskvöld?

Ég er alveg svakalega móttækileg fyrir góðum hugmyndum

þriðjudagur, desember 28, 2004

Fráhvarfseinkenni

ég kíkti aðeins í smáralindina, enda ekki komið í verslun svo telja mætti síðan á þorláksmessu...
líður mun betur núna.

Fékk annars forláta safapressu í jólagjöf, búin að nota hana einu sinni og komst að því að mér finnst gulrótarsafi ekkert sérstaklega góður - ekki einu sinni úr lífrænt ræktuðum gulrótum. Kannski á ég bara eftir að venjast því?
Auglýsi hér með eftir áhugaverðum (og helst góðum) uppskriftum af söfum sem hægt er að búa til í þar til gerðri safapressu.

Lélegt minni

Það er óhjákvæmilegt að hægja aðeins á sér og hugsa um lífið og tilveruna á stundum sem þessum. Svakaleg flóð skolaði öllu þessu fólki í burtu, tók öll þessi líf og ef fer sem horfir eiga mun fleiri líf eftir að týnast af völdum þessa.

Alveg hryllilegt, allt þetta fólk, öll þessi sorg...


ég var að horfa á fréttirnar í kvöld og Logi sagði mér að það væri ár síðan jarðskjálftarnir í Íran tóku fleiri fleiri mannslíf...

What? Einhversstaðar lengst lengst inní mér þykist ég muna eftir þeim harmförum.

Er ég svona? Ótrúlega tilfinningarík, sest jafnvel niður og fæ tár í augun yfir grimmd heimsins og ömurleika og hvað svo? Einu ári seinna man ég ekki einu sinni eftir því að eitthvað slæmt hafi gerst? Verð ég búin að gleyma flóðunum við Indlandshaf að ári?

Ég er líklegast ekkert skárri en fólkið sem ég dæmi og hæðist að.

miðvikudagur, desember 22, 2004

10 ár

Ég á 10 ára útskriftarafmæli í dag.

Engar smá kökur

Það er nú ekki á hverjum degi sem maður nær að vera búin að gera tvær sortir fyrir hálf ellefu.
Ekkert smá dugleg og ekkert smá flottar kökur.

Önnur tegundin er svona amerískar kökur sem maður fær í Hagkaup (þar sem íslendingum finnst jú skemmtilegast að versla) - tilbúið deig. Fyrra hollið var svolítið dökkt, af því að ég var svo hrædd um að þær yrðu hráar..allt í lagi - ég gef þær bara

Hinar heita Spesíur.. ég er nú svo aumingjagóð (eins og alþjóð veit) að ég hafði mínar spesíur með húðsjúkdóm. Og ég elska þær alveg jafn mikið og ef þær hefðu hann ekki - jafnvel meira.
Húðsjúkdómurinn lýsir sér þannig að súkkulaði droparnir sem eru ofan á kökunum eru allir bólóttir, af því að þeir voru aðeins of lengi í ofninum - af því að ég var svo hrædd um að þær yrðu hráar.

Þetta var auðvitað allt fyrir sambýlismann minn gert. Svo fékk hann náttúrulega leið á þessu í miðju kafi og fór út að leika sér og ég kláraði baksturinn ein..og hlustaði á Dolly og Kenny syngja falleg jólalög.

Fátt jólalegra en þau tvö að syngja saman.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Alveg fullt hress sko

Í gærkvöldi var ég orðin svo hress að ég náði að vaska upp og setja í þvottavél og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hugsaði með mér að þetta væri líklegast bara “önnur aðvörun” frá líkamanum um að fara vel með sig.

Ég fór í bólið nokkuð léttklædd, flónelsnáttföt og hnéháa frostgöngusokka.

Klukkan sjö í morgun vaknaði ég og blótaði heilbrigðisstéttinni eins og hún lagði sig. Hverjum dettur í hug að segja sárveikri manneskju að drekka mikið vatn?
Vita þau ekki hvað er langt inn á bað? Og svo var ég byrjuð að skjálfa. Rúmið lék á reiðiskjálfi, rétt eins og “hristirúm” á lélegu móteli í amerískri bíómynd og ég fann til í vöðvum sem ég vissi ekki að ég hefði. Sem minnir mig á góða sögu...nei ekki réttur vetvangur fyrir hana.

Damn

Eftir að hafa skolfið í rúminu í hálftíma, skíthrædd um að pissa í rúmið af öllum hamagangnum tók ég á mig rögg og fór á klósettið. Á leiðinni inn í rúm greip ég með mér hlýrri föt og klæddi mig í þau: Enn í sokkunum, buxunum, ný peysa, tvær lopapeysur, ullarsjal, ullarteppi og sæng.


Og það dugði ekki til

Ó men..meðalið mitt var á stofuborðinu. Það var svo langt þangað, amk 6 skref. Það virtist vera sem síðasta ferð (wc) hafi gefið mér trú á sjálfa mig og ég fór og náði í meðalið. Náði að sofna og vaknaði hress og kát nokkrum tímum seinna og fór í Kringluna.

Jólaðist alveg fyrir nokkra tugi þúsunda og höndlaði hamingjuna sem best ég gat. Við ákváðum að baka og allt. Nú skyldu jólin sko fá að koma hingað inn! Ég ætlaði bara aðeins að leggja mig fyrst.

Einmitt!!!

Þegar ég var búin að vera í þessu leggi í hálftíma, vaknaði ég og var alveg skítkalt...
Samt var ég fullklædd með ullarsjalið, í einni ullarpeysu, með teppið og sæng.

Ég sá að ég þurfti að mæla mig aftur, í annað skiptið á sama árinu, bara með nokkura tíma millibili. (nú er ég farin að hljóma alveg eins og “karlmaður” ég veit – og hef gaman af því)

40.3 gráður, takk kærlega fyrir!!! Og þar með hafði ég toppað met gærdagsins.

Og ég sem á enn eftir að fara á pósthúsið...

mánudagur, desember 20, 2004

Búin

Þar sem ég sest í mitt síðasta próf á þessari önn (og jafnvel ever í háskólanum) og er að reyna skipuleggja hvað ég eigi að gefa hverjum í jólagjöf.
Þá finn ég hvernig hitaskömmin kemur upp í enninu á mér.
ég meikaði prófið og svaraði því með nokkrum sóma (held ég) svo fór ég og sótti yndislegastu mannveru í heimi og ætlaði að jólast og jólast...en þá var mér bara orðið svo kallt...

við fórum heim og ég mældi mig - í fyrsta skipti í mörg mörg mörg ár.
Ég er með svo háan hita að hann slagar upp í jólavísareikninginn minn...

og ég sendi barnið bara í kjötborg til að kaupa brauð og jólaöl.
Þetta er nú meiri vitleysan!!!

sunnudagur, desember 19, 2004

örfáir dagar til jóla

Það er enginn búinn að spyrja mig hvað mig langi í jólagjöf.
Hvort ætli ég sé svona útreiknaleg eða ég fái engar jólagjafir???

Er orðin svolítið stressuð með þetta...

Veit reyndar um eina jólagjöf - af því að ég hjálpaði syni mínum að fela hana fyrir mér :-)
jú og svo er ein á leiðinni frá Danmörku - held ég

en þá er það upptalið...

laugardagur, desember 18, 2004

prjólf

próf
próflestur
prófkvíði
prófstress
prófmatur
prófþetta
prófhitt

svo eru allir bara að tala um jólaeitthvað og alveg sama hvað ég leita í glósunum mínum finn ég ekki neitt um jólin...ætli ég hafi skrópað í þeim tíma?

fimmtudagur, desember 16, 2004

Sorg

Fyrir rúmu ári (sem gæti alveg eins þýtt fyrir tveimur árum - er svo léleg í svona tölum) þá kom nýtt apótek í JL húsið. Það apótek heitir Lyf og Heilsa. Það hefði verið allt í lagi ef ekki hefði verið fyrir apótekið Hringbrautar apóek.

Einn af síðustu apótekurum landsins sem ekki voru í stóru keðjuleðjupakkanum. Ég talaði við fólkið í apótekinu og við vorum alveg sammála um að þetta væri hálfgerður yfirgangur hjá þeim þarna sem allt vilja eignast. Og ég sór þess eið að versla aldrei við Lyf og Heilsu heldur bara Hringbrautar apótek

Við þetta hef ég staðið, fyrir utan eitt eða tvö skipti sem ég hef þurft að fara í Lyfju

Mjög stolt af sjálfri mér að hafa ekki einu sinni komið inn í nýja apótekið í JL húsinu og alltaf brosað hughreystandi til apótekarans í apótekinu mínu þegar ég kom og keypti mér hóstasaft eða apótekaralakkrís.

Átti svo erindi í morgun í apótekið. Fékk mína fínu þjónustu en svo þegar ég var að fara þá segir afgreiðslustúlkan við mig: vegna þess að við vorum að sameinast Lyf og heilsu síðustu mánaðarmót og komum til með að flytja verslun okkar yfir þá ætla ég að bjóða þér svona opnunargjöf.....

Ég horfði á stúlkuna með tárin í augunum (ég - ekki hún) og bað hana að endurtaka það sem hún hafði sagt. Alveg án árangurs, því hún sagði bara það sama aftur.

Ég sá fyrir mér apótekarann á samningafundi hjá djöflinum, þar sem honum hafði verið stillt upp við vegg og hótað með öllu illu að selja búðina sína...og til að bjarga fjölskyldunni þá gerði hann það...
um leið og ég gekk frá afgreiðsluboriðnu tautaði ég "helvítis græðgi alltaf hreint" og skildi gjöfnina eftir á borðinu..

...og hvar á ég nú að versla?

þriðjudagur, desember 14, 2004

Ástin

Sverrir: Mamma, ég held að ég sé búinn að finna mér kærustu í skólanum.
Jóda: Já er það, hvað heitir hún?
Sverrir: ég man það ekki, ég er alltaf að gleyma því.
Jóda: ok. ertu búinn að segja henni að þig langi til að hún sé kærastan þín?
Sverrir: Nei..(smá vandræðartónn í röddinni) mamma, þetta er önnur kærasta en Arína Vala.

(Arína Vala er unnusta hans úr leikskólanum og hafa þau hist einu sinni í haust, annars sáust þau síðast í vor)

Jóda: já, það mátti nú svosem alveg búast við því..
Sverrir: ha?
Jóda: já að þú fyndir þér aðra kærustu
Sverrir: já..ohh mig langar bara í kærustu sem ég get tala við og svona

Nokkrum dögum seinna heima hjá pabba sínum:

Sverrir: pabbi, ég er búinn að finna ástina

(hvaðan hefur hann þessa dramatakta?)

Einar: ha?
Sverrir: ég er skotin í stelpu sem er í 1-V
Einar: já er það? Er hún sæt?
Sverrir: ég veit það ekki, en hún er mjög skemmtileg
Einar: hmm... hvað heitir hún?
Sverrir: ég man það ekki. Ég gleymi því alltaf.
Einar: ertu búinn að segja henni að þú sért skotinn í henni?
Sverrir: nei, ég þori það ekki..
Einar: þú verður að herða þig strákur!
Sverrir: jaaaá


það verður áhugavert að fylgjast með þessu

mánudagur, desember 13, 2004

Hvað er í gangi???

Ég kann ekki að linka öðruvísi en svona..ef einhver vill taka það að sér að kenna mér það þá er það vel þegið (ef það er ekki of flókið) en þetta er nú meira bullið..hvað er næst spyr ég bara?

http://mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1116079


Loksins

Mikið er ég fegin að það er búið að komast að því hvað hefur verið að hrjá hann Júsénkó.
Vona bara að þau verði fljót að finna sökudólginn.
Svo þau geti farið að einbeita sér að Eurovision.

Sverrir náði ekki að sjá Rúslönu í mótmælendaaðgerðunum. Ég er reyndar með þá kenningu að hún hafi verið upptekin við að semja ný dansspor og hreinlega ekki komist frá vegna anna...enda styttist óðum í þetta.

Gamlir vinir

Ég rambaði á gamlan vin í dag. Hann sagði mér að hann vildi taka upp gömul kynni við mig. Eitt ár án nokkurs orðs og svo allt í einu bang og bingó og við áttum að halda áfram þar sem frá var horfið.
Ég sagði honum frá Jóni og að það bara gengi ekki upp, hans vegna. Þó svo að hann sé mjög tillitssamur þá er ekki víst að hann sé tilbúinn í að kyngja svona "side project".

Gamli vinurinn reyndi eins og hann gat að halda andlitinu og spurði mig hvernig væri að vera kærastan hans Jóns. Ég sagði honum að það væri gott og gaman og erfitt og flókið og einfalt og yndislegt en umfram allt skemmtilegt. Hann kyngdi því og á ég ekki von á því að hann setji sig mikið í samband við mig í framtíðinni.

Hann á eftir að halda áfram að hugsa til mín annað slagið og ég á sjálfsagt eftir að gera slíkt hið sama þegar Jón er í einum af sínum löngu ferðalögum.

sunnudagur, desember 12, 2004

Sniðugt

Það sem gerir þetta líf svona áhugavert er að stundum er yndislegt að lifa því
en stundum ekki...

Hausinn á mér er fullur af hugsunum
ég er svo hrædd um að opna fyrir þær
þrýstingurinn gæti orðið of mikill
og orðið mér til falls

eða til splundurs

laugardagur, desember 11, 2004

brjóstin okkar eru æðisleg

Þetta er hrein og tær snilld - ekki gleyma hljóðinu!

http://www.debsfunpages.com/swf4/boobs_hang_low.swf

Börn

Dreymdi í nótt að ég var í verslunarleiðangri með Sverri syni mínum og vorum við með litla stelpu í burðarstól með okkur. Hún tilheyrði okkur.

Það var allt gott og bjart í tengslum við þennan verslunarleiðangur og þetta fólk.

Það skildi þó aldrei vera.....

föstudagur, desember 10, 2004

well well

Svona til að létta af spennunni, þá gekk mér ágætlega í prófinu. Meira get ég ekkert sagt. Gerði fullt, en ef ég hefði haft klukkutíma í viðbót hefði ég náð að koma því frá mér sem ég vissi. Einn af mínum Akkelíesarhælum er að vera stundum lengi að hugsa. En þetta er búið, bækur komnar upp í hillu og annað efni komið á borstofuborðið – sem heitir þessa dagana læruborð.

Eftir prófið hagaði ég mér eins og ég væri komin í jólafrí – eða eins og mig langaði til að vera í jólafríi.

- ég þvoði þvott eins og ég ætti lífið að leysa
- ég ryksugaði bak við rúmið – fann ekki Geirfinn
- ég snéri dýnunni við – og hef þar með endurheimt mitt gamla pláss í rúminu
- ég opnaði rauðvín - og drakk
- ég horfði á sjónvarpið – án þess að vera með samviskubit

Sjónvarpið já...

Bachelorette – þetta er nú meira ruglið og það sem ég á eftir að fylgjast með þessu. Það voru nokkrir þarna sem ég væri alveg til í að kynnast nánar...skil nú samt ekki afhverju hún henti “latíno elskhuganum” frá sér, hann sem á bæði fallega móður og fallega systur sem hafa kennt honum að koma vel fram við konur og svo er hann (að eigin sögn) mjög fallegur sjálfur...

En nei hún er greinilega meira fyrir þægindin og ákvað að fara á fyrsta “einmennings” eða kannski “tvímennings” stefnumót með manninum sem gaf henni humangus bleika inniskó.

Þetta verður ótrúlega spennandi...

miðvikudagur, desember 08, 2004

held áfram í próflestri

Allt á fullu í próflestrinum...

- er búin að þvo og strauja eldhúsgardínurnar
- er byrjuð að þrífa eldhússkápana
- er búin að þvo pífurnar á rúminu mínu (hef aldrei gert það áður...)
- henti hlutum sem ég hefði átt að henda fyrir 5 árum
- er búin að borða fullt af kærleiksköku
- er búin að ryksuga (gerði það fyrir miðnætti) tók sófann og allt
- er búin að setja seríur í alla glugga

- er búin að segja Sverri að jólin komi alveg þó við eigum hvorki aðventukrans né kerti sem telur niður

- próf á morgun - sýnist á þessari upptalningu að ég sé bara nokkuð vel undir það búin.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Læknir

Tölvan mín fór til læknis í gær - ekki alveg á besta tíma.
Reyndar hef ég komist að því að það er ekki til neitt sem heitir "besti tími" fyrir netfíkla að missa tölvuna sína.

Þegar ég kom heim frá tölvuspítalanum í gærkvöldi, settist ég og horfði út í loftið. Ég meina hvað gerir maður þegar maður hefur ekki tölvuna sína?????

Jú ok maður lærir - einmitt!!!

í gærkvöldi náði ég semsagt (ásamt því að læra) að raða treflunum mínum, þrífa forstofuna. Taka til í lyfjaskápnum. Henti fullt af gömlum eyrnadropum og öðru slíku. Fann meira að segja stíla sem runnu út 2001. Ég braut saman þvott, þurrkaði af og var að fara að setja ryksuguna í samband, þegar ég sló mig utanundir og sendi mig í rúmið.

Tölvan kemur örugglega ekki heim fyrr en á föstudaginn - þannig að ég safna sögum í sarpinn þangað til. Reyndar komin með tvær góðar, en hef ekki tíma til að segja þær hér og nú...

Hafið það gott elskurnar mínar... ekki gleyma að elska, því það er svo gott.

mánudagur, desember 06, 2004

Tattoo

Ég las í skólabókinni minni um mann sem bretti upp ermarnar í vinnunni og beraði tattúin sín, þegar honum fannst hann þurfa á því að halda að láta taka sig meira alvarlega. Samstarfsfólk hans "óttaðist" þennan tattúveraða karlmann og hlýddi honum frekar.

Ég var að tala við mann með tattú. Þessi maður hafði einmitt sagt mér það að aldrei þessu vant hafi hann berað tattúið sitt í vinnunni. Hann hafði ekki brett upp ermarnar, heldur hafði hann mætt í stuttermabol.

Ég sagði honum frá þessari kenningu um tattúin og valdið í vinnunni. Hann sagði að hann héldi að hann væri ekki kominn með þann status að geta sýnt vald sitt með húðflúri.

Ef maður þarf að vera kominn með einhvern ákveðinn status til að geta aukið áhrif sín með húðflúrsýningu, þá þarf maður kannski að vera orðinn eldri en fertugur?

En það stendur ekkert í kennslubókinni hvort að þetta virki líka fyrir konur.

...svo sér maður fyrir sér konu, rúmlega fertuga, fara úr draktarjakkanum á fundi, bretta upp ermarnar og í ljós kemur eitthvað svakalegt tattú sem á stendur "Nirvana" eða eitthvað álíka...nú eða fiðrildi (sem væri kannski líklegra)...

ætli hún nái að sýna authority með þessu?

Ég veit það ekki...

En vel þess virði að tékka á því..
hvaða tattústöð er best?

föstudagur, desember 03, 2004

Snilld

Sit heima á föstudagskvöldi og læri. Já, lífið hefur svo sannarlega upp á ýmislegt að bjóða. Ég held að það sé ekki algengt að fólk skelli upp úr, þegar það les í námsbókum úr Viðskipta- og hagfræðideild. En það kom fyrir mig.
Veit ekki hvort þessar setningar eiga sér stað í raunveruleikanum, en hallast þó að því, þar sem raunveruleikinn er oft óraunverulegri en sá óraunverulegi.
Ég hreinlega verð að deila þessu með umheiminum.

Þetta eru setningar sem teknar eru úr ferilskrám og þykja víst ekki vænlegar til vinnings:

1. “Instrumental for ruining the entire operation of a Midwest chain store”
2. “Note: Please don’t misconstrue my 14 jobs as ‘job hopping.’ I have never quit a job.”
3. “The company made me a scapegoat, just like my three previous employers.”
4. “Am a perfectionist and rarely if ever forget details.”

Og svo þessi allra besta:

5. “References: None. I’ve left a path of destrution behind me”

Svo fyrir þá sem eru að leita sér að vinnu, þá koma hér nokkur dæmi sem ætti að forðast í atvinnuviðtölum:

1. She wore a Walkman and said she could listen to me and the music at the same time.
2. The interviewee said he was so well qualified that if he didn’t get the job, it would prove that het company’s management was incompetent.
3. The candidate interrupted the interview so that he could phone his therapist for advice on answering questions.


Og svo vinningshafinn:

4. During the interview he took off his right shoe and sock and sprinkled medicated foot powder on his foot. While he was putting his shoe back on, he mentioned that he had to use the powder four times a day, and this was one of those times.

Og segið svo að það sé ekki gaman í skóla!

Nýr stóðhestur í húsdýragarðinum

Frétt dagsins er vafalaust þessi: Eins og venja er mun þekktur stóðhestur dvelja í vetur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Í gær, þriðjudaginn 30. nóvember, kom stóðhesturinn Hamur frá Þóroddsstöðum í garðinn.
Hamur er undan Galdri frá Laugarvatni og Hlökk frá Laugarvatni. hann er rauðstjörnóttur, vindhærður, það er að hann er rauður á skrokkinn og með stjörnu á enni og grásprengt (vindhært) fax og tagl. Hann er fæddur 1992 og er því á 13. vetri. Hamur er í eigu Bjarna Þorkelssonar og Hrossaræktarsambands Vesturlands.
Hamur hlaut hæstu einkunn í kynbótadómi á Landsmóti hestamanna á Melgerðismelum árið 1998. Aðaleinkunn var 8,50.

Því miður gat ég ekki látið mynd fréttarinnar fylgja með, en fyrir áhugasama bendi ég á síðu 34 í Fréttablaðinu. Þar er myndin og undir henni stendur "Stóðhestur gagnast hryssu"
Mjög tignarlegt og flott.

Svo segi ég bara: allir í húsdýragarðinn, þar er eitthvað að skoða allan ársins hring!

fimmtudagur, desember 02, 2004

Þetta er náttúrulega rugl!!

Í morgun var verið að ræða framkomu Kristjáns Jóhannssonar í Kastljósi gærdagsins. Þar sat hann eins og lítil uppblásin klessa með geisladiskinn sinn í hendinni og stundaði frammíköll og annan dónaskap. Sagði að Eyrún væri orðin rauð á brjóstunum af æsingi og ég veit ekki hvað og hvað.

Er smuga á að maðurinn sé fífl?

Þau sem misstu af þessu geta horft á þetta á heimasvæði sjónvarpsins www.ruv.is mæli ég alveg með því, það er hin besta skemmtun. Og fær mann líka til að hugsa...ef ég borga 1000kr til styrktar einhvers...hvað rennur mikið af því til styrktar???

Í seinni hluta þáttarins eru sýndar gullfallegar myndir af norðurljósunum okkar.
Sem eru svo falleg...svo fallleg...
veita manni ró í sálinni, eftir að hafa nagað sig í handarbökin yfir því að vera samlandi uppblásnu klessunnar.

Kaffi

Hvað er málið með koffínlaust sojalatte????
Er það drukkið með sviknum héra?

Mary Parker Follett

Nú af því að ég er ekki lengur með Stöð 2, þá neyðist ég til að lesa fyrir jólaprófin. Þegar upp er staðið er það eiginlega langt því frá að vera leiðinlegt. Enda í námi sem mér finnst skemmtilegt, svo að skárra væri það nú.

Núna í augnablikinu er ég að lesa um hana Mary Parker Follett, sem hefur verið nefnd hér áður. Það sem hún hafði unnið sér til frægðar til að vera nefnd hér á síðunni var hvað hún var heillandi og beinaber en með hversdaglegt útlit.
Nú er ég semsagt að lesa um hana sem fræðimann, ekki gínu, og enn sem komið er hef ég ekki rekist á eina einustu setningu um útlit hennar eða kynhneigð. Bara hvað hún var flott fræðikona (nú yrði Rannveig Trausta stolt af mér).

Ég tek það samt fram að ég er ekki búin, það er aldrei að vita hvað leynist í textanum - ég lofa að láta vita.

En það er eitt sem Follett sagði sem mér þykir frekar skemmtilegt sjónarhorn á annars flókið fyrirbæri og held að við ættum að reyna að tileinka okkur (amk stundum)

"Follett urges us never to ask who is right in a conflict - indeed, not even to ask what is right. The proper response, she tells us, is to assume that both are right. Rather, both sides are likely to give right answer but to different questions. The right use of conflict is therefore to ask: What must these people who differ with me and oppose me see as the right question if their positoin is a rational one and, indeed, a correct one?"

Ekki nema von að kona sem hugsar svona hafi verið heillandi...

miðvikudagur, desember 01, 2004

Elskendur

Var að fylgjast með ungum elskendum í morgun. Það er eitthvað svo fallegt við nýja elskendur. Feimnir en samt með stjörnur í augunum. Stíga varlega til jarðar af ótta við að styggja.
Segja: Eigum við að setjast hér...eða kannski þarna? Hvað finnst þér?
en meina í raun: mér er alveg sama hvað ég geri og hvert ég fer, svo lengi sem það er með þér.

Það að haldast í hendur er ekki ómeðvitað, heldur fara öll skilningarvit á fullt við það eitt að snerta fingur elskanda síns.

Að flíka tilfinningum sínum á almannafæri er mikið feimnismál, þegar það eina sem fólk langar til að gera er að standa upp á stól og kalla þær yfir alla.

Þetta eru falleg samskipti og maður fyllist angurværð og þakklæti fyrir að fá að vera þáttakandi í þeim, þó ekki sé nema í fáein augnablik