Elskendur
Var að fylgjast með ungum elskendum í morgun. Það er eitthvað svo fallegt við nýja elskendur. Feimnir en samt með stjörnur í augunum. Stíga varlega til jarðar af ótta við að styggja.
Segja: Eigum við að setjast hér...eða kannski þarna? Hvað finnst þér?
en meina í raun: mér er alveg sama hvað ég geri og hvert ég fer, svo lengi sem það er með þér.
Það að haldast í hendur er ekki ómeðvitað, heldur fara öll skilningarvit á fullt við það eitt að snerta fingur elskanda síns.
Að flíka tilfinningum sínum á almannafæri er mikið feimnismál, þegar það eina sem fólk langar til að gera er að standa upp á stól og kalla þær yfir alla.
Þetta eru falleg samskipti og maður fyllist angurværð og þakklæti fyrir að fá að vera þáttakandi í þeim, þó ekki sé nema í fáein augnablik
<< Home