Glöð
Ég nennti ekki að fara út úr bænum. Eins og einhverntímann hefur áður komið fram þá læt ég illa að stjórn. Vil ekki fara í útilegu þegar ég á að gera það. Langar bara að fara þegar mér hentar og á mínum forsendum. Svo þess fyrir utan þá finnst mér ég varla vera komin heim frá útlöndum og ekki nokkur ástæða til að rjúka langt frá heimili mínu og hafurtaski. Mér þykir þó nokkuð ljóst að það voru einn eða tveir sem fóru í ferðalag, ef marka má Sódómu á föstudaginn var. En djömmurum Reykjavíur til mikils sóma þá sáu þeir um að fylla bari bæjarins með útlendingum í þeirra stað. Ekki alveg það sama en kemur svosem út á eitt ef ekki stendur til að ræða mikið við ókunnuga.
Fann strákinn pissandi. Þegar Essó bensínstöðin í Kópavogi/Reykjavík var tekin í gegn hafði ég töluverðar áhyggjur af því hvað yrði um feita barnið. Eitthvað tuðaði ég inní mér þegar ég sá að bensínstöðin var tilbúin og Burger King komin í stað hlandpiltsins. Átti svo leið á þessa stöð í gærkvöldi og fann þá piltinn bak við hús. Eiginlega á betri stað en áður og enn í fullu stuði. Þá varð Jóda mikið kát.
Fékk svo símtal í gær. í þessu símtali var mér boðið í svona spagufudekur í Laugum á eftir. Ég er að fara á límingunum ég hlakka svo til.
Já, lífið er bara ótrúlega skemmtilegt.