Söknuður 1
Mikið er nú landið okkar fallegt. Ég hugsa þetta alltaf þegar ég keyri norður. Ég verð nú að fara að kynnast því betur, ferðast meira o.s.frv.
Á leiðinni á Akureyri stoppuðum við í Skagafirði og fengum steiktan fisk og kartöflur. Þar hitti ég yndisleg hjón. Hún 83 ára og hann 85. Er búin að þekkja þau í mörg ár en ég tók eftir því að hún virðist vera hætt að brytja matinn hans.
Ég hef aldrei heimsótt þau á ættaróðalið fyrr en í gær. Það er alltaf töluverð stemning að ganga inn á heimili annarra og ég tala ekki um sveitaheimili. Rólegur andi yfir öllu, fullt af myndum á veggjunum og púðum í sófum. Ég var boðin hjartanlega velkomin og fékk meira að segja að leggja á borðið.
Húsfreyjan bjó lengi vel í Reykjavík. Í 15 ár bjuggu þau hjónin í Þingholtunum. Upphaflega stóð ekki til að dvöl þeirra yrði svona löng, hún var í raun alltaf á leiðinni heim. Hún sagði mér frá konu sem kom að máli við hana og vildi endilega fá að kynnast henni, því kona sem býr í 15 ár við búslóð einhvers annars, hlýtur að vera sérstök kona. Ég reyndi að ímynda mér hvernig það væri og var fljót að sjá að það væri frekar sérstakt (jafnvel hálf glatað).
Hún sagði mér að hún hafi orðið svo glöð þegar þau fluttu aftur heim. Hún gat setið tímunum saman við eldhúsgluggann og horft út. Hvort sem það var á ljósin frá Varmahlíðinni eða á bílana koma yfir heiðina.
Hún gerði sér ekki grein fyrir því fyrr en hún var komin heim að sálin hennar hafði verið full af söknuði og þorsta. Þarna er hún á réttri hillu og tekur glöð á móti öllum sem hana heim sækja og nærir þá á allan mögulegan hátt.
Það er svo gott að koma heim. Það er svo gott að eiga "heim" til að koma til.