englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, september 06, 2005

Af hverju?

Ég er komin í nýja vinnu. Það er nokkuð gaman í þessari vinnu, ég er að takast á við fullt af spennandi og krefjandi verkefnum. Mér finnst yfirleitt gaman, en ekki alltaf. Ég hef velt því fyrir mér undanfarið hvað maður er skrítinn. þegar eitt er ekki gaman, er eins og hitt verði ekki gaman heldur. þegar mann langar til að leggjast út af á einum stað, langar mann að liggja bara út í eitt.

Ég veit nú alveg að ég læt þetta ekki ná tökum á mér. Ég kem ekkert til með að liggja, hvorki þar né hér.

En það er samt gaman að spá í það, hvað maður er einfaldur eftir allt saman. þarf oft ekki annað til en eitt urr, eitt öðruvísi en planað var, eitt bros eða klapp á bakið - til að breyta viðhorfi manns til alls annars.

Já stuðning. Það er kannski það sem hjálpar manni í gegnum allt. Ef maður finnur stuðning þeirra sem manni standa næstir. "Ég skil ekki endilega hvað þú gerir, og hef ekki endilega áhuga á því, en ég styð þig og ég er tilbúin til að tala við þig og sýna þér að líðan þín skiptir mig máli" það er kannski svoleiðis hugsunarháttur og viðhorf sem hjálpar manni í gegnum dagana...

það helsta

held að Sævar sé hættur að elska mig. Það er að verða tæp vika síðan ég og sambýlismaðurinn hjóluðum með bíllykilinn til hans en bíllinn stendur enn á sama stað.
ískápamaðurinn kom í gær og horfði á mig eins og ég væri geðveik...kannski er ég það bara?
en minn elskulegi pípari kom og lagaði til í þvottahúsinu, reyndar lekur enn örlítið...líklegast hefur hann skilið eftir smá dropa svo hann hafi tækifæri á að koma aftur í kaffi til mín og vonar að í það skiptið eigi ég ókekkjótta mjólk.
kannski fæ ég ljós í svefnherbergið í kvöld...
og ég á nýjan vask, reyndar fylgdi ekkert með honum. Þá meina ég ekkert, ekki einu sinni tappi - en hann var líka á svo ægilega hagstæðu verði...þarf bara að fara út í búð og kaupa botnvörpu..eða var það botnloki?

samstarfkonu minni þykir hún bara frekar heppin svona við hliðina á mér...ef frá er talinn einn sprunginn dvd-spilari.

föstudagur, september 02, 2005

Betra

Gott og fallegt veður í dag, finnst eins og gírarnir séu komnir í lag. Kannski þurfti bara að smyrja þá? Eða endurstilla?

fimmtudagur, september 01, 2005

Tóm

Tárin mín eru hol að innan. Ég sit bara og stari á þau falla niður á gólfið og verða að engu. Líkami minn fylgdi sálinni og er kominn í hnút. Hvenær tekur þetta enda? Er ekki komið nóg?

prumufýla og málning

Við Sverrir vorum að spjalla saman á meðan ég var að fara seinni umferð yfir loftlistana í eldhúsinu. Ég var eitthvað að stríða honum á prumpulyktinni hans og sagðist ætla að fara í skólann og segja í heimakrók að honum þætti prumpulyktin sín góð. Mér fannst þetta alveg ótrúlega fyndið, því ég veit sem er (og hann hefur ekki enn viðurkennt) að fólki finnst síns eigins prumpulykt betri en annarra.

Ég hefði líklegast samt betur sleppt því að vera með þetta uppistand, því á meðan ég var að hrella soninn, missti ég akríl lakk málningardolluna úr höndunum og innihald hennar helltist niður á vegginn, skenkinn og auðvitað á gólfið.

Það eina sem ég get sagt er að sem betur fer var þetta ekki rauð málning...